Eldgos hefur ekki áhrif á ferðalög til Kanarí

Þórunn Reynisdóttir, forstjóri Úrvals Útsýnar.
Þórunn Reynisdóttir, forstjóri Úrvals Útsýnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þórunn Reynisdóttir, framkvæmdastjóri ferðaskrifstofunnar Úrvals Útsýnar, segir að eldgosið á La Palma hafi lítil áhrif á ferðalög til Kanaríeyja. Eldgosið hefur ekki haft áhrif á bókanir hjá ferðaskrifstofunni og segir Þórunn að fólk sé óhrætt við að skella sér í sólina. 

Eldfjallið Cumbre Vieja fór að gjósa á sunnudaginn síðasta og hafa 320 byggingar eyðilagst á eyjunni vegna eldgossins.

La Palma er í um 150 kílómetra fjarlægð frá Tenerife, einum af vinsælustu áfangastöðunum hjá Íslendingum. Úrval Útsýn er með ferðir til Tenerife og hefur einnig ferðir til Gran Canaria nú í haust. 

„Það hefur bara verið óbreytt. Fólk er upplýst ef eitthvað breytist og hefur verið það í langan tíma. Auðvitað fylgjumst við vel með stöðunni en eldgosið hefur ekki haft áhrif á flugsamgöngur á eyjunni,“ segir Þórunn sem sjálf var stödd á Alicante þegar mbl.is náði af henni tali.

„Það virðast allir ætla að skella sér í sólina í vetur. Það er búið að vera mikið að gera í bókunum og gaman að sjá að landinn er að kippa við sér og vill núna fara í sólina,“ segir Þórunn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert