Villisvín réðust að Shakiru í Barcelona

Sönkonan Shakira varð fyrir árás villisvína.
Sönkonan Shakira varð fyrir árás villisvína. AFP

Söngkonan Shakira er nú stödd í Barselóna á Spáni ásamt fjölskyldu sinni. Fjölskyldan hefur dvalið á heimili sínu þar í landi sem staðsett er í útjaðri Barselóna-borgar síðan heimsfaraldurinn náði hápunkti. 

Samkvæmt Daily Mail spókaði Shakira sig um í sakleysi sínu í almenningsgarði í Barselóna-borg í gær ásamt átta ára syni sínum, Milan Piqué, þegar þau urðu skyndilega fyrir árás villisvína. 

Greindi Shakira frá atvikinu á Instagramsíðu sinni og deildi myndskeiðum af hnjöskuðu handveski sem var í hennar eigu og villisvínin höfðu reynt að nema á brott. 

„Þau hafa eyðilagt allt þessi villisvín," sagði hún spænskumælandi á meðan hún sýndi hvernig veskið var útleikið. Síðan spyr hún son sinn Milan, sem hún á með spænska knattspyrnumanninum Gerard Piqué, hvernig honum hefði þótt mamma sín standa sig í barningnum við villisvínin en hann virtist ekkert gefa út á það.

Mæðginunum varð sem betur fer ekki meint af árásinni en borgarbúar í Barselóna hafa ekki allir sloppið jafn vel með skrekkinn. Borið hefur mikið á því að undanförnu að villisvín leiti inn í borgina í leit að æti með tilheyrandi óþægindum fyrir óbreytta borgara. 

mbl.is