Verk Ingvars sýnd víða um heim

Ingvar Þór ásamt ballerínum sem hann málaði.
Ingvar Þór ásamt ballerínum sem hann málaði. Ljósmynd/Aðsend

Myndlistarmaðurinn Ingvar Þór Gylfason segist eiga frekar erfitt með að titla sig. Enda er hann þúsundþjalasmiður sem vandasamt getur verið að skilgreina aðeins með einu orði. „Ég hef aldrei viljað titla mig neitt sérstaklega. Ég er eiginmaður og faðir þriggja barna frá núll og upp í milljón, svo er ég menntaður verkfræðingur en starfa sem myndlistarmaður. Held að það sé ekki til einhver einn titill yfir þetta. Lífið verður miklu skemmtilegra og opnara ef maður getur sleppt því að skilgreina sig um of," segir Ingvar og hefur vissulega rétt fyrir sér varðandi það.

Málverk Ingvars hafa vakið mikla eftirtekt hér á landi síðastliðin ár en Ingvar hefur einnig hlotið þann heiður oftar en einu sinni að fá að sýna nokkur málverk sín á listmunasölum utan landsteinana. Nú síðast var honum boðið að sýna verk sín á Van Gogh listmunasölunni í Lúxemborg sem hann vitaskuld þáði. 

„Ég er nýkominn heim eftir að hafa verið viðstaddur sýninguna í Lúxemborg en það var haft samband við mig í lok síðasta árs og mér boðið að taka þátt. Ég samþykkti það enda er þetta risastórt tækifæri. Hjarta mitt er fullt af þakklæti eftir viðtökurnar sem ég hef fengið. Þetta er mér ómetanlegt og eitthvað sem mér óraði aldrei fyrir,“ segir Ingvar af mikilli einlægni.

Ballerínurnar hans Ingvars fara vel á veggjum safnsins enda einstaklega …
Ballerínurnar hans Ingvars fara vel á veggjum safnsins enda einstaklega fallegar. Ljósmynd/Aðsend

Vaxandi listamaður

Ingvar er auglýstur sem vaxandi listamaður (emerging artist) á Van Gogh listmunasölunni í Lúxemborg og er hann bjartsýnn á að áframhaldandi samstarf hans og listmunasölunnar verði að veruleika. Draumurinn sé þó að verða einn af föstu listamönnunum sem prýða veggi listagallería á vegum Van Gogh samsteypunnar víðs vegar um heim.

„Það er draumurinn að vera einn af föstu listamönnunum sem þau eru með hjá sér en næst verð ég svo með eitt verk til sýnis hjá MADS núna í október. MADS er listagallerí í Mílanó á Ítalíu en þau höfðu einmitt líka samband við mig og spurðu hvort ég vildi sýna verk mín á sýningunni sem verður stafræn í þetta skipti. Svo verða líka þrjú verk frá mér til sýnis hjá Van Gogh listmunasölunni í Madríd á Spáni núna næsta mánuðinn. Ótrúlegt hvernig þessi veröld virkar stundum, eitt leiðir að öðru, þannig er það bara."

Gestir Van Gogh safnsins í Lúxemborg skoða verk Ingvars gaumgæfilega.
Gestir Van Gogh safnsins í Lúxemborg skoða verk Ingvars gaumgæfilega. Ljósmynd/Aðsend

Fjölskyldan fór saman til Frankfurt

Heimsfaraldurinn hefur haft mikil áhrif á ferðalög og menningu hvers og eins lands en þó virðast flest landamæri vera að opnast til fulls og vonin um betri tíma blasir við. Ingvar segir það hafa verið endurnærandi og áhugavert að komast loks í hlýrra loft og heimsækja listasöfn víðs vegar.

„Við ákváðum að fara út, ég og konan mín, elsta dóttir mín og pabbi. Okkur fannst við verða að leggja land undir fót og vera viðstödd sýninguna. Gríman var orðin frekar þung eftir allt ferðalagið en um leið og við vorum komin út þá var þetta ekkert mál. Við þurftum reyndar að fara í hraðpróf við inngang Van Gogh listmunasölunnar og sýna bólusetningarvottorð. Þar inni var enginn með grímu. Allir brosandi og kátir. Það var eitthvað svo ljúft við það. Við fórum í leiðangur til Frakklands og Þýskalands og skoðuðum listasöfn og gallerí þar. Það var grímuskylda meira og minna alls staðar en lítið um aðrar kvaðir. Sem var fínasta tilbreyting frá þeirri þráhyggju sem við höfum hér heima fyrir veirunni." 

Inngangur Van Gogh safnsins. Þar þurftu allir safngestir að fara …
Inngangur Van Gogh safnsins. Þar þurftu allir safngestir að fara í hraðpróf og sýna bólusetningarvottorð. Ljósmynd/Aðsend

Langaði að verða arkitekt og húðflúrari

Þegar Ingvar er spurður út í listina og hvað hafi verið drifkraftur hans út í myndlist segist hann ekki hafa séð það fyrir sér að enda sem myndlistarmaður. Hann hafi alltaf átt auðvelt með að teikna og hafði hugsað sér að læra arkitektúr á ákveðnu tímabili. Lét hann hins vegar aldrei verða að því og endaði á því að læra verkfræði.

Árið 2016 kynnist Ingvar eiginkonu sinni, Rögnu Sólveigu Þórðardóttur og var það fyrst þá sem hann uppgötvaði myndlistina.

„Ég hef alltaf verið mikill teiknari. Langaði líka stundum að vinna við að gera húðflúr á fólk vegna þess að ég hef alltaf haft ákveðinn áhuga á flúrum. En það var svo ekki fyrr en Ragna sá mig vatnslita einhverjar fígúrur þegar við vorum í einhverri útilegu að ég áttaði mig á hæfileikum mínum í myndlist. Það var hún sem ýtti mér af stað í að kaupa málningu, pensla og striga. Hún er og hefur verið minn helsti stuðningsmaður. Ég væri ekkert að mála í dag ef hún hefði ekki stutt svona vel við mig bæði þá og nú."

Ingvar Þór og eiginkona hans, Ragna Sólveig, stilltu sér upp …
Ingvar Þór og eiginkona hans, Ragna Sólveig, stilltu sér upp við málverk Ingvars. Til þess má geta að þau eiga vona á sínu fjórða barni í janúar á næsta ári. Ljósmynd/Aðsend

Sýningar og stuðningur við góðgerðarmál

Síðan ferðalag Ingvars í myndlist hófst hefur hann haldið þrjár sýningar á Íslandi og eina í Noregi ásamt því að hafa látið gott af sér leiða með því að selja mörg hver verk sín á uppboði til styrktar hinum ýmsu góðgerðarmálum.  

„Ég reyni að fara eins vel með þakklæti mitt og ég get og hluti af því er að gefa tilbaka. Þess vegna hef ég reynt að taka þátt í verkefnum sem snúa að því að styðja við góð málefni. Það eru forréttindi að geta unnið við það að mála myndir og gefa af sér í leiðinni og það mun ég gera svo lengi sem ég get. Enda er það ekki sjálfgefið að hafa heilsuna og aðstöðuna til þess að geta lagt öðrum lið. Það er alltaf miklu betra að gefa af sér heldur en að taka til sín.“

Málverk Ingvars eru metin á 3780 evrur sem jafngilda tæplega …
Málverk Ingvars eru metin á 3780 evrur sem jafngilda tæplega 600 þúsund íslenskum krónum. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is