Afmælisferð til Íslands breyttist í martröð

J.R. Kroll dvaldi 11 daga í einangrun á sóttvarnarhóteli.
J.R. Kroll dvaldi 11 daga í einangrun á sóttvarnarhóteli. mbl.is/Árni Sæberg

Bandarískur karlmaður sem kom hingað til lands í tilefni af 50 ára afmæli sínu eyddi ferðinni einn í einangrun eftir að hafa greinst með veiruna. Maðurinn, J.R. Kroll, tollheimtustjóri í Seminolesýslu í Flórída í Bandaríkjunum, sagði sögu sína í Orlando Sentinel.

Eiginkona hans, Holly, bauð honum í sex daga afmælisferð til Íslands og lentu þau hér á landi hinn 5. september. Kroll endaði þó á að verja töluvert lengri tíma en hann gerði ráð fyrir hér á landinu. 

Fyrir brottför fóru þau hjónin í kórónuveirupróf og fengu neikvæða niðurstöðu. Einnig voru þau bæði bólusett í apríl á þessu ári svo útlitið var gott fyrir hjónin. Stuttu eftir komuna til landsins fór Kroll að finna fyrir einkennum og ákvað að bóka skimun á netinu. Þau hjónin fóru í skimun og reyndist hann jákvæður og hún neikvæð. 

Kroll var alls 11 daga í einangrun á sóttvarnahóteli og fer ekki fögrum orðum um matinn sem hann fékk þar. „Á hverjum morgni fékk ég það sama; hunangsmelónu, harðsoðið egg, brauð með sultu og smjöri og sætindi. Allt var kalt. Ég hefði drepið fyrir örbylgjuofn. Ég var klárlega farinn að iða í skinninu eftir sjö daga,“ sagði Kroll. 

Eiginkona hans flaug strax heim til Bandaríkjanna með sínar neikvæðu niðurstöður til að forðast einangrunina. 

Síðasta daginn í einangrun pantaði hann sér pönnukökur, beikon og kaffi og sagði það hafa verið himnaríki. 

Þrátt fyrir að hafa ekki átt sjö, eða ellefu, dagana sæla á sóttvarnahóteli segir Kroll að reglurnar á Íslandi séu ekki slæmar. „Kerfið þeirra virkar. Það nær að halda niðri fjölda smita, innlagna og andláta. En við gætum ekki gert þetta hér í Bandaríkjunum. Bandaríkjamenn myndu ekki samþykkja þetta. En þau gera það sem þau þurfa að gera til að halda smitum í lágmarki,“ sagði Kroll. 

Eftir ferðalagið til Íslands stefna Kroll-hjónin ekki á frekari ferðalög erlendis í náinni framtíð. „Svo lengi sem veiran er til staðar fer ég ekki neitt. Þetta var mikil upplifun,“ sagði Kroll.

mbl.is