Eydís fangar töfra norðurslóða

Ljósmyndarinn Eydís María Ólafsdóttir er hrifin af ferðalögum á kalda …
Ljósmyndarinn Eydís María Ólafsdóttir er hrifin af ferðalögum á kalda staði. Ljósmynd/Eydís María Ólafsdóttir

Ljósmyndarinn Eydís María Ólafsdóttir er hrifin af ferðalögum á kaldari slóðir og segir einfaldlega: því kaldara því betra. Á síðasta ári ferðaðist hún til Grænlands til að taka myndir fyrir verkefni og nú í október kemst hún vonandi til Svalbarða. 

Hvernig ferðalögum ertu hrifnust af?

„Því kaldara því betra! Ég hef alltaf elskað veturinn og mér líður alltaf best á veturna. Ég elska að fara í skíðaferðir, jöklaferðir eða ferðast um landið þegar allt er þakið snjó og hef stundum tjaldað að vetri til.“

Hefur þú ferðast mikið í heimsfaraldrinum?

„Eins og fyrir flesta þá hefur verið mjög erfitt að ferðast vegna heimsfaraldursins og mörgum ferðum hjá mér verið aflýst. Ég átti til dæmis að fara til Rússlands núna í september og sigla þaðan yfir til Frans Jósefs-lands en þeirri ferð var aflýst. Annars höfum við kærastinn minn, sem einnig er ljósmyndari, ferðast mikið um landið og unnið í alls konar spennandi verkefnum í leiðinni.“

Á síðasta ári fór Eydís til Grænlands.
Á síðasta ári fór Eydís til Grænlands. Ljósmynd/Eydís María Ólafsdóttir

Hvað er „óhefðbundnasta“ ferðalag sem þú hefur farið í?

„Ég veit varla lengur muninn á hefðbundnum og óhefðbundnum ferðalögum af því mér finnst öll ferðalög sem ég fer í mjög hefðbundin en í fyrra fór ég til Grænlands og sú ferð var frekar óhefðbundin.“

Segðu mér frá ferðalaginu til Grænlands. Hvernig kom það til og hvernig verkefni varstu að vinna þar?

„Í febrúar í fyrra var mér boðið til Grænlands á vegum ferðaþjónustufyrirtækis þar til að mynda og upplifa alls konar ferðalög sem eru í boði þar. Ég gisti í litlu timburhúsi við sjóinn í bæ sem heitir Ilulissat. Ein af mínum uppáhaldsstundum var að fá mér kaffi á morgnana og horfa á ísjakana fljóta hægt út fjörðinn, sem var ólýsanlega fallegt. Ég gæti alveg hugsað mér að vera þarna mánuðum saman. Húsið sem ég gisti í var í göngufæri við höfnina og stundum fékk ég að fljóta með í ferðir út á sjó í fjörð sem heitir Disco Bay og myndaði þar risavaxna ísjakana og fuglalífið. Ég fór einnig til Qasiannaquit sem er stutt frá Ilulissat og þar tóku á móti mér yndisleg hjón sem eru með hundasleðaferðir. Það var alveg magnað að fá að kynnast grænlensku sleðahundunum, þeir eru svo harðgerðir og maður sér í augum þeirra hvað það býr í þeim mikil viska. Að sitja á hundasleða í sex til sjö klukkustunir í -40°C er erfitt og mögulega eitt það erfiðasta sem ég hef gert. Það er svo kalt að ef húðin er ekki varin gegn kuldanum, sérstaklega þegar það er vindur, þá er mjög auðvelt að fá kal. Ég þurfti stanslaust að kreista saman augun til að sjá eitthvað því augnhárin á mér festust alltaf saman. Hljómar kannski ekkert rosalega spennandi en fyrir mér eru þetta eftirminnilegustu ferðirnar. Sérstaklega þegar það reynir á andlega og líkamlega, maður lærir alltaf eitthvað nýtt um sjálfan sig!“

Ljósmynd/Eydís María Ólafsdóttir
Ljósmynd/Eydís María Ólafsdóttir

Hvernig ferðalög einkenndu sumarið hjá þér?

„Það var mikið tjaldað í sumar! Ég og kærastinn minn erum búin að vera að vinna saman síðustu tvö sumur við að taka upp fyrir erlendar náttúrulífsþáttaraðir og þurfum því mikið að vera úti á landi. Veðrið er svo ótútreiknanlegt að við þurfum oft að bíða í marga daga eftir réttri birtu eða réttu veðri fyrir eitt skot.“

Áttu þér einhverja uppáhaldsstaði á Íslandi?

„Það er ómögulegt fyrir mig að velja á milli staða. Það er alveg sama hvar þú ert á Íslandi, það eru engir tveir staðir eins, það er hægt að finna fegurð alls staðar. Það er samt einn staður núna í sérstöku uppáhaldi hjá mér og heitir Möðrudalur. Þar eru oft melrakkar á ferð ásamt öðrum dýrum. Það besta við þennan stað, sérstaklega á sumrin, er að fá sér kaffi og vöfflur á veitingastaðnum „Fjallakaffi“ og njóta útsýnissins yfir Herðubreið.“

Ljósmynd/Eydís María Ólafsdóttir

Með hvaða stöðum mælirðu til að heimsækja?

„Ísland hefur svo margt upp á að bjóða! Ég mæli með að heimsækja hálendið, þar má finna marga einstaka staði eins og Hveravelli, Jökulheima, Lakagíga og Mælifellssand. Norðan við Vatnajökul eru ótrúlega fallegir staðir eins og Drekagil, Öskjusvæðið og Kverkfjöll. Svo er auðvitað Suðausturlandið alltaf í uppáhaldi þar sem allir jökulrisarnir eiga heima.“

Hvað er fram undan hjá þér í vetur?

„Ef allt gengur eftir þá er ég að fara til Svalbarða núna í október og svo á Suðurskautslandið í febrúar á næsta ári að taka myndir af landslaginu þar og dýralífinu. Ég hef mikinn áhuga á því að „dokúmentera“ lífið og náttúruna á norður- og suðurslóðum og er búin að vera að reyna að komast á suðurskautið núna í tvö ár en vegna covid hefur þremur ferðum verið aflýst. En vonandi í þetta skiptið verður þessi draumur að veruleika!“

Því kaldara, því betra.
Því kaldara, því betra. Ljósmynd/Eydís María Ólafsdóttir
Ljósmynd/Eydís María Ólafsdóttir
Ljósmynd/Eydís María Ólafsdóttir
Ljósmynd/Eydís María Ólafsdóttir
Ljósmynd/Eydís María Ólafsdóttir
Ljósmynd/Eydís María Ólafsdóttir
Ljósmynd/Eydís María Ólafsdóttir
Ljósmynd/Eydís María Ólafsdóttir
Ljósmynd/Eydís María Ólafsdóttir
mbl.is