Halldóra kolféll fyrir Bretlandi

Halldóra Þöll Þorsteins ólst að hluta til upp í Bretlandi …
Halldóra Þöll Þorsteins ólst að hluta til upp í Bretlandi og stundaði háskólanám í London.

Halldóra Þöll Þorsteins, leik- og söngkona, flutti til Woking í Bretlandi með foreldrum sínum þegar hún var tíu ára en foreldarnir vou bæði á leið í meistaranám. Hún heillaðist þar að breskri menningu og þegar kom að því að fara í háskóla valdi hún að fara í leiklistarnám til London. 

„Ég var því ekki byrjuð að læra ensku í grunnskóla svo ég var búin að leggja tæplega þrjár setningar á ensku á minnið þegar ég byrjaði í skóla úti. Algjörlega græn og lítil en lærði tungumálið á staðnum þökk sé fólkinu í kringum mín. Þarna lærði ég nýjan orðaforða, hreim, var dregin inn í bresku gelgjuna og menningu. Auðvitað var það mjög erfitt fyrst að vera hent út í djúpu laugina, fara í nýjan heim og skilja ekki hvað var í gangi. En þar sem ég hafði engan annan valkost þá lærði ég að skilja og tala á örfáum mánuðum og tengdi vel við það. Við vorum úti í þrjú ár svo ég var eiginlega orðin bresk þegar við fluttum aftur til Íslands og gat tjáð mig betur á ensku en íslensku. Það er sérstaklega áhugavert að taka eftir því þegar maður getur hugsað og dreymt á tveimur mismunandi tungumálum.“

Halldóra kolféll fyrir enskri tungu og öllu því skrýtna sem tilheyrir Bretlandi. Þegar hún komst inn í leiklistarnám í Rose Bruford-háskólanum í London árið 2016 ákvað hún að fara aftur út. „Ég kláraði þriggja ára BA-nám úti og starfaði svo sem listakona í London, auk þess að vera í íslenska kórnum í London og kenndi íslensku í skólanum þar til covid skall á.“

Fjölbreytileikinn og mannlífið er mikið í London.
Fjölbreytileikinn og mannlífið er mikið í London.

Fjölbreytileikinn heillar

„Það sem heillar mig persónulega við London er fjölbreytileikinn. Fjölbreytileiki fólksins, í sögu, pólítík, list, menningu, stéttum og hverfum. Ég held að það er aldrei hægt að kynnast London of vel því það er svo mikið í gangi og hverfin að þróast og svo er alltaf hægt að finna eitthvað sem passar hverjum og einum. Ég meina, hvar annars staðar er hægt að fara á japanskt skrautskriftarnámskeið á annarri hæð í einhverri byggingu við Tottenham Court Road á laugardagsmorgni og svo beint á ekta mexíkóskan stað í hádeginu? Ganga um götur og skoða bækur, setjast í almenningsgarð klukkutímum saman, fara út að borða í curry og svo á salsa námskeið um kvöldið? Og þetta allt saman í svona 10 mínútna fjarlægð. 

Persónulega heillast ég líka mjög mikið af tungumálinu sjálfu og listinni í því að tjá sig á ensku og lesa fallega texta. Listamenningin úti er stórkostleg, endalaust mikið af byggingum með gömlum sögum og oft leyndum leikhúsum. Forvitnin getur haldið endalaust langt áfram á svona stað.“

Halldóra bjó í London þangað til að heimsfaraldurinn skall á.
Halldóra bjó í London þangað til að heimsfaraldurinn skall á.

Hverfin eru mörg og mismunandi

Þegar Halldóra var í námi bjó hún í Austur-London í hverfi sem heitir Hackney. Hún segir hverfið vera í miklu uppáhaldi. „Það er svo mikil list, gleði, litlar búðir og svo margt spennandi að sjá. Það er allavega mjög trendí svæði akkúrat núna og nálægt Victorian Park þar sem Ólympíuleikarnir voru. Ég mæli með að skoða London Fields, Hackney Wick, Columbia Flower Market, Brick Lane, Spitalfields market, Broadway Market, Springfield Park og margt margt fleira til að njóta og borða.“

Halldóra segir mörg mismunandi hverfi einkenna borgina og flest hverfin eiga sínar perlur. „Greenwich er æðislegt hverfi, líka Camden, London Bridge, Soho, Notting Hill, Hampstead Heath. Ég mæli allavega klárlega með því að prófa að gista í mismunandi hverfum, skoða kaffihúsin og finna markað og sundlaug nálægt. Ég komst bara að því nýlega að London er stútfullt af sundlaugum. Ég borgaði tæplega fjögurþúsund krónur í mánaðargjald fyrir um 100 sundlaugar á víð og dreif um London! Sumar eru ekki svo merkilegar og stútfullar af klór, en til dæmis London Fields og Soho sundlaugin voru merkilegar uppgötvanir.“

Halldóra útskrifaðist úr Rose Bruford-leiklistarháskólanum.
Halldóra útskrifaðist úr Rose Bruford-leiklistarháskólanum.

Áttu þér upp­á­haldsveit­ingastað?

„Þeir eru alltof margir til að velja bara einn stað! Það er líka hægt að velja mat frá öllum stöðum heims. Ég mæli allavega með Dishoom, Tibits, Ottolenghi, Bright og My Old Place. Dishoom. Fjölbreyttur matur á þeim öllum, aðallega grænmetisréttir og ótrúlega bragðgóðir. Og sanngjörn verð. En ég mæli líka með að skoða matarmarkaðina í London, eins og Brick Lane í Austur-London, Mercato Metropolitano við London Bridge, Boxpark og fleiri því maturinn er oftast fáránlega góður og allir geta valið það sem þau vilja.“

Ekki festast í London Eye

Halldóra mælir með því að ganga eða hjóla um og skoða London þannig. „Mér finnst alltaf gaman að ganga um Leake Street, sjá listina þar, fara um The Regent's Park, Covent Garden og upplifa stemninguna við að að vera á pöbb.“

Hvernig er uppskriftin að hinum fullkomna haustdegi í London?

„Setjast niður og fá sér kaffi á einhverjum krúttlegum stað, ganga um almennar götur og fara svo um Brick Lane, Vintage markaðinn þar og fara í Brick Lane Bookshop. Setjast niður, lesa og skoða bækurnar. Gott að stoppa svo í „afternoon tea“ á kaffihúsi og panta skonsu með rjóma (e. clotted cream) og sultu og te. Rjóminn eða „Clotted cream“ á helst að vera frá Cornwall. Ef veðrið er ennþá heitt er frábært að ganga um Hyde Park eða garð í hverfinu og fylgjast með fólkinu og laufblöðunum í breyttum lit, fá sér að borða í Soho og enda á sýningu um kvöldið eins og í Barbican, Royal Court Theatre, Bush Theatre eða Young Vic. Eða kósy bar með lifandi tónlist.“

Skonsa og te er algjört lykilatriði í London.
Skonsa og te er algjört lykilatriði í London.


Eru ein­hverj­ar túrista­gildr­ur sem ber að var­ast?

„Ekki eyða öllum tímanum í London Eye. Ekki nema þú viljir það auðvitað. Helsta life hacksið núna er líklegast að nota Citymapper eða Google Maps til að finna hvert þú vilt fara - þau reikna verð, fljótlegustu leið með strætó eða lest. Svo er gott að skoða hverfi sem eru ekki bara við Thames endilega, það er svo margt að sjá. Það er gott að passa sig að vera ekki bara í símanum að finna leiðina. Stór partur af því að vera í London er hreinlega að vera í London, skoða fólkið, arkitektúrinn, veðrið, skytturnar, sýningarnar, fá sér te eða kaffi og svona og bara njóta þess að vera í svona stórfenglegri borg.“

Almennningsgarðar í London eru margir og góðir.
Almennningsgarðar í London eru margir og góðir.
Hver dagur er eins og ævintýri í London en hverfin …
Hver dagur er eins og ævintýri í London en hverfin eru mismunandi. Halldóra bjó í Austur-London.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert