Ostaaðdáandi lofsamar íslenskan ost

Chaya Milchtein var einstaklega hrifin af íslenskum ostum.
Chaya Milchtein var einstaklega hrifin af íslenskum ostum.

Hin bandaríska Chaya Milchtein lofsamar íslenskan ost í færslu sinni á vefnum Salon. Þar segist hún ekki endilega hafa búist við að fá góðan ost á Íslandi en þegar hún kom til landsins var einfaldlega ostur alls staðar. 

Milchtein er frá Wisconsinríki í Bandaríkjunum og af gyðingaættum. Hún er mikill ostaaðdáandi og þegar hún og eiginkona hennar fóru að skipuleggja brúðkaupsferð sína vissi hún að hún yrði að leggja upp með að bragða bestu osta Evrópu. 

Því lagði hún upp með að fara til Ítalíu, til að bragða ólíka parmesanosta, og einnig Sviss. En til að komast til meginlands Evrópu frá Bandaríkjunum er þægilegt að fljúga til Íslands fyrst og það gerðu þær. Þær dvöldu á Silica-hóteli Bláa lónsins. Þar brögðuðu þær fjölda osta sem runnu vel niður.

„Seinna uppgötvaði ég nýja blámygluostinn minn í Sky Lagoon í Kópavogi. Auður er einstakur og gómsætur því flestir blámygluostar eru í kringum 26% en Auður er 33%. Hin fullkomna pörun er Auður, ylvolgt íslenskt brauð og bláberjasulta. Ég fer sennilega aftur til Íslands bara til að borða þetta aftur,“ skrifaði Milchtein.

Ljósmynd/MS
mbl.is