Úkraínskt flugfélag á Play-vagninn

Nýi búningurinn er sagður mun þægilegri.
Nýi búningurinn er sagður mun þægilegri. Ljósmynd/Instagram

Úkraínska lággjaldaflugélagið SkyUp hefur fengið kafla lánaðan úr bók íslenska flugfélagsins Play og hefur nú uppfært klæðnað flugþjóna félagsins. Kvenkynsflugþjónar hjá félaginu þurfa ekki lengur að klæðast pilsi og hælum heldur klæðast þær buxum og hvítum strigaskóm. 

Nýja reglan um klæðnað tekur gildi í upphafi næsta mánaðar. 

Flugfélagið Play kynnti búninga starfsfólks síns í sumar en hjónin Gunnar Hilmars og Kolbrún Petrea Gunnarsdóttir hönnuðu búningana. Í viðtali við Smartland í sumar sögðust þau hafa miðað búningana frekar að íþróttafatnaði en einkennisbúningi. 

Skórnir virðast vera lykilatriði hjá báðum félögum, en hvítu skórnir eru töluvert þægilegri en hælar. 

Ljósmynd/Instagram

Daria Solomennaya, flugfreyja hjá SkyUp, sagði í viðtali við BBC að hún og margar samstarfskonur hennar væru tíðir gestir hjá fótaaðgerðafræðingi. „Þú stendur í 12 tíma í flugi frá Kíev til Sansibar og til baka. Ef þú ert í hælum geturðu varla gengið eftir á,“ sagði Solomennaya.

mbl.is