Vilborg leiðir fólk um slóðir Auðar djúpúðgu

Vilborg og Snorri Guðmundsson sem rekur ferðaþjónustuna Skotgöngu, í Glenfinnan …
Vilborg og Snorri Guðmundsson sem rekur ferðaþjónustuna Skotgöngu, í Glenfinnan í hálöndum Skotlands. Á þessum stað er Hogwarts galdraskóli Harry Potter kvikmyndanna, sem og járnbrautarbrúin sem oft bregður fyrir.

Rithöfundurinn Vilborg Davíðsdóttir er mikill aðdáandi Skotlands og nú í haust hefur hún farið með þrjá hópa af Íslendingum í ferðir um Skotland og Orkneyjar. Hugmyndin að ferðunum kviknaði í kjölfar þess að hún sagði sögu landnámskonunnar Auðar djúpúðgu á Sögulofti Landnámssetursins í Borgarnesi fyrir fullu húsi í tvo vetur en um hana hefur hún skrifað þrjár bækur.

Ferðirnar eru á vegum Skotgöngu, ferðaskrifstofu hjónanna Ingu Geirsdóttur og Snorra Guðmundssonar, en þau hafa boðið upp á ferðir um Skotland og víðar undanfarin 15 ár.

„Ég kynntist þeim í hópferð til ytri Suðureyja og hafði samband við þau um að skipuleggja ferð. Það varð úr. Við fórum tvær átta daga ferðir árið 2019 en þær voru aldrei auglýstar. Eftir eina færslu á Facebook seldist upp í þessi 98 sæti,“ segir Vilborg í viðtali við mbl.is.
Fyrstu tvær ferðirnar gengu vel og hófu þau Vilborg, Inga og Snorri að skipuleggja þrjár ferðir fyrir árið 2020. Miðarnir í þær seldust fljótt upp sömuleiðis og voru 120 á biðlista en vegna heimsfaraldursins varð að fresta ferðunum.

„Við fórum í allar þrjár ferðirnar núna í september á þessu ári, fengum ljómandi fínt veður og þótt stöku sinnum rigndi lét enginn það á sig fá,“ segir Vilborg en veðurfar í Skotlandi í september er svipað og má búast við í ágúst á Íslandi.

Skara Brae steinaldarþorpið í Orkneyjum.
Skara Brae steinaldarþorpið í Orkneyjum.

Staðir sem enginn annar fer á

Í ferðinni er flogið til Glasgow á vesturströnd Skotlands, ekið með Loch Lomond og farið út í Suðureyjar og Eyna helgu. Því næst er farið um skosku hálöndin, að nyrsta odda meginlands Bretlands, yfir héruðin í norður frá Inverness en ekki ströndina eins og algengast er.

„Engar aðrar skrifstofur skipuleggja ferðir á þessa staði norður til Suðurlands og Kataness, né heldur til eyjanna.“ Ferðin er ekki gönguferð, heldur er ferðast í rútum og með ferjum, og stoppað oft á leiðinni. Vilborg segir sögu Auðar sem gerist á 9. öld en Snorri segir frá sögu Skotlands á síðari tímum, uppreisnum Jakobíta og átökum á milli skoskra ættarvelda.
Þegar farið er um Hálöndin eru ekki tvíbreiðir vegir, heldur einbreiðir þröngir vegir.

Vilborg í tröppum niður að eldfornum brunni sem eitt sinn …
Vilborg í tröppum niður að eldfornum brunni sem eitt sinn var í miðju Borgarhöfðavirki á austurströnd Skotlands, konungssetri Pétta í fimm aldir. Ólafur hvíti, maður Auðar djúpúðgu, lagði virkið undir sig árið 866, líkt og segir frá í Vígroða, bók Vilborgar.

„Bílstjórarnir okkar eru skoskir og þeir hafa aldrei keyrt þessa vegi. Svo við útskrifum þá með meirapróf á einbreiða vegi að ferðinni lokinni.“
Með því að þræða þessar sveitir í stað þess að keyra upp ströndina getur Vilborg kynnt ferðamönnum fjölda staða sem koma fyrir í bókum hennar. Á þessum slóðum bjuggu norrænir menn.

„Ég sýni þeim til dæmis vellina við Loch Loyal-vatnið, undir fjallinu Ben Loyal, þar sem ég setti niður þingstað í Vígroða. Það var nokkuð skemmtilegt að eftir að ég hafði valið hann komst ég að því í grúskinu að munnmæli segja að þarna hafi lög verið sögð upp og örnefnið dregið af því orði, þannig að Lagavellir var réttnefni.“

Á Steinanesi í Orkneyjum er Gróa, sonardóttir Auðar djúpúðgu, gefin …
Á Steinanesi í Orkneyjum er Gróa, sonardóttir Auðar djúpúðgu, gefin péttneskum höfðingjasyni frá Katanesi í bók Vilborgar, Blóðugri jörð. Steinarnir, 6 metra háir, voru reistir 3100 f.Kr.

Orkneyjar rúsínan í pylsuendanum

Eftir að hafa ferðast yfir norðanvert Skotland og séð fallegt landslag og merkilega staði er farið yfir Orkneyja. „Þar fellur fólk alveg í stafi,“ segir Vilborg. Orkneyjar er uppáhaldsstaður hennar í ferðinni en þar er meðal annars að finna heljarinnar bautasteina á Steinanesi sem reistir voru fyrir 5.000 árum. Þar setti Vilborg á svið í bókinni Blóðug jörð hjónavígslu Gróu, sonardóttur Auðar djúpúðgu, og péttnesks höfðingjasonar frá Katanesi áður en hún hélt áfram ferð sinni til landnáms á Íslandi.

Vilborg hefur farið ótal sinnum til Skotlands en þangað fór hún fyrst árið 1996. Árið 2005 fluttu hún og eiginmaður hennar til Edinborgar og bjuggu þar í tvö ár.

Hópur lesenda Auðarþríleiksins á Steinanesi nú í september.
Hópur lesenda Auðarþríleiksins á Steinanesi nú í september.

„Áður en við fluttum aftur heim fórum við í ferðalag um svæðið, og út í Suðureyjar og Orkneyjar því þá var ég búin að ákveða að skrifa sögu Auðar djúpúðgu og vissi að hún hafði verið þar og á Katanesi á meginlandinu,“ segir Vilborg. Hún segir að það sé alltaf gott að heimsækja Skotland og Orkneyjar og þar sé gestrisnin mikil, auk þess sem eyjaskeggjar séu mjög meðvitaðir um norrænan arf sinn.

„Covid er ekki alslæmt því við höfðum alla helstu ferðamannastaðina út af fyrir okkur. Við fundum virkilega fyrir því hvað Skotar höfðu saknað þess að fá ferðafólk. Það voru svo fáir þarna að það voru meira að segja sauðkindur á beit á Steinanesi, stað sem er á heimsminjaskrá UNESCO og fjölsóttur eftir því,“ segir Vilborg.

Hún segir að Orkneyjar séu algjör draumur og að þar sé ferðamennskan ekki byggð á því að plokka peninga af ferðalöngum, heldur gera vel við gesti og kynna land, sögu og þjóð.

Þau sem hafa áhuga á ferð á slóðir Auðar djúpúðgu í Skotlandi á næsta ári geta sent póst á inga@skotganga.co.uk.

Stakkarnir miklu út af Dungaðsbæjarhöfða nyrst á Katanesi, yfir 60 …
Stakkarnir miklu út af Dungaðsbæjarhöfða nyrst á Katanesi, yfir 60 metrar á hæð. Þeir heita Muckle Stack, Peerie Stack og Tom Thoom.
Vilborg við 1200 ára gamlan keltneskan kross á Iona, Eynni …
Vilborg við 1200 ára gamlan keltneskan kross á Iona, Eynni helgu, en þar gerðu víkingar ítrekaðar árásir á 9. öld, þeirra á meða Ketill flatnefur, faðir Auðar djúpúðgu.
Oft er ekið um fáfarna vegi í ferðalaginu á slóðir …
Oft er ekið um fáfarna vegi í ferðalaginu á slóðir Auðar djúpúðgu og fyrir kemur að hinkra þarf á meðan Hálandakýr, Highland Coos, lötra yfir veginn.
mbl.is