Hársnyrtirinn sem gerðist leiðsögumaður

Skúli Már Gunnarsson er ævintýragjarn og elskar að ferðast.
Skúli Már Gunnarsson er ævintýragjarn og elskar að ferðast. Ljósmynd/Aðsend

Leiðsögumaðurinn Skúli Már Gunnarsson segist alltaf hafa haft sérstaklega gaman að því að vera mikið á fartinni. Hann er menntaður hársnyrtir en hefur starfað sem leiðsögumaður síðastliðin sex ár. Það segir hann vera besta starf sem hann hefur komist í tæri við. Hann hefur það að atvinnu að ferðast innanlands alla daga og hefur víðtæk áhrif á ógleymanlega ferðaupplifun ferðamanna sem koma hingað til lands.

„Ég hef alltaf elskað það að vera á ferðinni og það er sennilega ástæðan fyrir því að ég entist ekki sem rakari,“ segir Skúli. „Þetta er skemmtilegasta vinna sem ég hef unnið um ævina. Ég hef frá unga aldri verið ansi forvitinn um eigið land og nú hef ég fengið tækifæri til þess að kynnast því enn frekar og upplifa fegurðina.“

Það jafnast ekkert á við íslenska náttúrufegurð.
Það jafnast ekkert á við íslenska náttúrufegurð. Ljósmynd/Aðsend

Hver er þín fyrsta ferðaminning?

„Sem lítill gutti þá fékk að ferðast með föður mínum um allar sveitir. Hann sá um að keyra út vörur frá Selfossi á sendiferðabíl og leyfði mér oft að koma með. Þetta er kannski ekki þessi týpíska minning af útilegu eða slíku ferðalagi en við vorum vissulega á faraldsfæti, ferðuðumst um stórt svæði. Þarna kviknaði áhuginn minn á því að fara víða og jók á þorstann um að fá að sjá eitthvað nýtt.“ 

Mótorhjólaferðir upp á hálendi

Fyrir fimm árum síðan stofnaði Skúli fyrirtæki sem heitir Ride With Locals og sérhæfir sig í mótorhjólaferðum um Vestfirði og hálendið. Fyrirtækið hefur verið í stöðugri sókn frá byrjun en Skúli segir miklar líkur á því að ferðamenn komi nú til með að haga ferðalögum sínum á annan hátt en áður sökum heimsfaraldursins. 

„Ég sé fram á bjarta framtíð í okkar rekstri. Næsta sumar hjá okkur er nánast orðið fullbókað en auðvitað mun fólk kannski fara að haga sínum ferðum öðruvísi þegar fólk stendur frammi fyrir því að velja hvert skal haldið. Það hvetur mig og okkar rekstur til að halda áfram og vanda vel til verka hvað varðar gæðin í þeirri þjónustu sem við komum til með að veita viðskiptavinum framtíðarinnar. Gæðin munu koma til með að hafa ráðandi áhrif á val fólks sem er í ferðahug.“ 

Skúli býður upp á mótorhjólaferðir upp á hálendi.
Skúli býður upp á mótorhjólaferðir upp á hálendi. Ljósmynd/Aðsend


 Hvernig er hefðbundinn vinnudagur hjá leiðsögumönnum?

„Vinnudagur leiðsögumanna byrjar snemma og endar seint. Ferðirnar sem við bjóðum upp á fara venjulega fram á nokkrum dögum þar sem gist er í fjallaskálum ýmist á Vestfjörðum eða uppi á hálendi. Venjulega vakna ég klukkan sex og byrja að undirbúa morgunmat. Síðan þarf að koma viðskiptavinunum á fætur og gefa þeim að borða áður en við leggjum af stað í um það bil átta klukkustunda mótorhjólaferð. Svo förum við upp í annan skála og nærum okkur með kvöldverð og öllu tilheyrandi og er það mjög algengt að eftir mat og uppvask að þá þarf að gefa viðskiptavinunum tíma í spjall þar sem allir deila upplifunum sínum úr deginum og áður en maður veit af er orðið framorðið. Í svona fjallaferðum verður tíminn afstæður og dagarnir oft mjög langir,“ útskýrir Skúli. 

Enginn Íslendingur

Á þeim fimm árum sem Skúli hefur rekið fyrirtæki sitt, Ride With Locals, hefur ekki einn einasti Íslendingur farið í ferð með Skúla. Hann segir starf leiðsögumanna vera gjöfult starf. Sú ánægja sem skín úr andlitum ferðamannanna sé ómetanleg og gefi mikið. 

„Ég kýs það alla daga að ferðast um með erlenda ferðamenn frekar en mína samlanda, það gefur mér mikið að sjá alla hamingjuna og gleðina í augum þeirra. Ég hef ekki selt neinum Íslendingi mótorhjólaferð á þessu fimm ára tímabili sem ég hef verið í þeim rekstri. Kannski kemur það til með að breytast með breyttri heimsmynd og annars konar ferðatilhögun fólks. Mér sýnist að Íslendingar séu mjög framarlega í goggunarröðinni þegar kemur að því að velja ferðalög og afþreyingu, þá sérstaklega hvað varðar gæði.“

Erlendir ferðamenn sækjast mikið í mótorhjólaferðir á vegum Ride With …
Erlendir ferðamenn sækjast mikið í mótorhjólaferðir á vegum Ride With Locals. Ljósmynd/Aðsend

Í hvers konar ferðum nýtur þú þín best?

„Öllu jafna nýt ég mín best í svokölluðum multi day ferðum. Það eru ferðir sem taka nokkra daga, frá þremur og upp í heila viku. Ég er á heimavelli í slíkum ferðum. Ég sé ekki eftir því að hafa hent mér í djúpu laugina og látið þennan draum minn verða að veruleika, að fá að vinna við það að ferðast þar sem dagarnir eru aldrei eins og hver ferðin einstök á sinn hátt. Ég hef farið tvisvar í Þórsmörk í þessari viku og fór í tólf mótorhjólaferðir í sumar og svo endaði ég sumarið á því að fara í þriggja daga ferð um hálendið í september.“

Enginn Íslendingur hefur fengið að njóta mótorhjólaferðanna sem Skúli og …
Enginn Íslendingur hefur fengið að njóta mótorhjólaferðanna sem Skúli og félagar bjóða upp á. Ljósmynd/Aðsend

Hver er fallegasti staður sem þú hefur komið á?

„Hólmsárlón og Mælifellssandur eru án efa fallegustu staðir sem ég hef komið á hér heima. Svo elska ég líka allt við Vestfirðina. En fallegasti staður sem ég hef verið á utan landsteinana er St. Anton í Austurríki. Sá staður er í sérstöku uppáhaldi hjá mér þar. Það er alveg ofsalega fallegt að skíða niður Off Piste fjallið.“

Skúli er mikið náttúrubarn og hefur alltaf verið spenntur fyrir …
Skúli er mikið náttúrubarn og hefur alltaf verið spenntur fyrir að sjá og upplifa nýja hluti. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is