Fer með 16 töskur í frí

Joan Collins er vön að ferðast.
Joan Collins er vön að ferðast. AFP

Breska leikkonan Joan Collins er ekki ein af þeim sem reyna að ferðast með lítinn farangur eða hafa áhyggjur af því hvað töskurnar þeirra eru þungar enda tekur hún 16 töskur með sér í frí. Blaðamaður The Sunday Times heimsótti Collins á óheppilegum tíma en hún var á leiðinni til Mallorca í frí og þurfti að fylla töskurnar. 

Það kom fram í greininni að viðtalið hefði truflað pökkunartíma stjörnunnar. „Vandamálið sem við stöndum frammi fyrir er að Collins er á leiðinni til Mallorca í frí á morgun og viðtalið tekur tíma frá henni. Það þarf að taka fram að Collins pakkar ekki eins og ég og þú. Hún er þekkt fyrir að taka 16 töskur með sér í ferðalög,“ skrifaði blaðamaðurinn. 

Hún er þó með ákveðnar aðferðir við að pakka í töskurnar að því er fram kom í viðtali við hana á vef The Guardian fyrir nokkrum árum. Collins pakkar þungum hlutum neðst, skóm, kápum og peysum. Léttari og fínni föt fara ofar í töskuna eins og föt úr silki. Efst fara svo nærföt svo hún þurfi ekki að róta í allri töskunni ef hún hefur ekki tíma til þess að taka upp úr henni.

Collins mælir með því að nýta töskustærðina vel og brjóta fötin ekki oft saman. Þegar á áfangastað er komið hengir hún fötin upp við hliðina á heitri sturtu til þess að slétta úr fötunum.

Joan Collins.
Joan Collins. mbl.is/Cover Media
mbl.is