Samsæriskenningarsmiður ávarpaði flugfarþega

Farþegar hegða sér oft ósæmilega í háloftunum.
Farþegar hegða sér oft ósæmilega í háloftunum. LUKE MACGREGOR

Það er óhætt að segja að uppákomur í háloftunum verði sífellt skondnari eftir því sem tíminn líður. Ótrúlegt atvik átti sér stað um borð í flugvél nú á dögunum þar sem farþegi mætti í flugið með sitt eigið hljóðkerfi. Tilgangurinn var einskær ásetningur hans að fanga athygli annarra farþega og segja þeim til syndanna vegna heimsfaraldursins þegar vélin var farin í loftið. 

Farþeginn, eða samsæriskenningarsmiðurinn, byrjaði á því að koma sér fyrir um borð í miðri flugvélinni þar sem hann var miðpunktur athyglinnar og fór ekki framhjá neinum. Greindi hann frá viðhorfum sínum og skoðunum á kórónuveirufaraldrinum, sem hann líkti við eina stóra leiksýningu. Ásamt því að hefja ákveðna hatursorðræðu gagnvart öðrum saklausum farþegum þar sem þeir voru úthrópaðir sem eins konar strengjabrúður yfirvaldsins. 

Uppákoman náðist á myndskeið sem var í kjölfarið deilt á samfélagsmiðla. Þar sjást flugþjónar reyna að koma í veg fyrir að farþeginn valdi öðrum farþegum flugsins meiri óþægindum. Samkvæmt frétt TMZ er ekki vitað hvernig fór fyrir farþeganum þegar vélin lenti á áfangastað.

mbl.is