Fór ekki til Norður-Írlands af heilsufarsástæðum

Elísabet II Bretlandsdrotting fór ekki til Norður-Írlands í dag.
Elísabet II Bretlandsdrotting fór ekki til Norður-Írlands í dag. AFP

Elísabet II. Bretlandsdrottning hefur þurft að aflýsa ferðalagi sínu til Norður-Írlands af heilsufarsástæðum. Drottningin samþykkti með semingi að fylgja ráðum lækna sinna og hvíla sig í næstu daga að sögn hallarinnar. 

„Hennar hátign er hress þessa dagana og vonsvikin að geta ekki farið í heimsókn til Norður-Írlands, þar sem hún átti að taka þátt í nokkrum viðburðum í dag og á morgun,“ sagði í tilkynningu frá höllinni í dag. 

Hin 95 ára gamla drottning átti að fara í nokkrar heimsóknir og í messu í bænum Armagh ásamt Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands. Í stað þess er hún heima í Windsor-kastala að hvíla sig. 

„Drottningin sendir hlýjar kveðjur til Norður-Íra og hlakkar til að koma í heimsókn seinna,“ sagði í tilkynningunni. 

Heimildir CNN herma að veikindi drottningarinnar séu ekki tengd kórónuveirunni en ekki hefur verið gefið upp hvers eðlis þau eru. Hún hefur tekið þátt í fjölda viðburða undanfarnar vikur en hinn 12. október studdist hún þó við staf í heimsókn. Var það í fyrsta skipti í 17 ár sem hún notaðist við staf opinberlega.

mbl.is