Nýtt ítalskt flugfélag er ítalskt frá a til ö

Vélar ITA Airways líta svona út.
Vélar ITA Airways líta svona út. AFP

Nýtt ríkisflugfélag var kynnt á Ítalíu nú á dögunum. Flugfélagið heitir ITA Airways og mun fljúga undir þjóðfána Ítalíu. Ríkisflugfélagið Alitalia varð gjaldþrota nú í haust og lenti síðasta vél flugfélagsins hinn 15. október síðastliðinn. ITA Airways hóf starfsemi sama dag. 

Forseti hins nýja flugfélags, Alfredo Altavilla, sagði í viðtali við CNN Travel að flugfélagið yrði ítalskt frá a til ö. Einkennislitur félagsins er blár, vélarnar skreyttar með þjóðfánanum og föt starfsmanna hönnuð af ítölskum hönnuðum. 

„Hér er nýtt ítalskt merki í fæðingu, og við höfum ákveðið að vinna bara með ítölskum fyrirtækjum,“ sagði Altavilla. 

Ítalir hafa staðið sig vel á alþjóðavettvangi þetta árið. Karlalið þeirra í fótbolta landaði Evrópumeistaratitli, landið vann Eurovision og ítalskir keppendur náðu sér í 40 medalíur á Ólympíuleikunum í Tókýó í sumar. Þá var hinn ítalski Matteo Berrettini í öðru sæti á Wimbledon í sumar. 

Þá jákvæðu orku vill Altavilla sjá innan ITA eftir að Alitalia fór í gjaldþrot. 

Nafnið kom nokkuð á óvart því kvöldið áður en hið nýja flugfélag hóf starfsemi hafði það keypt nafn Alitalia á 90 milljónir evra. Því héldu margir að gamla flugfélagið yrði bara sett í nýjan búning undir sama nafni. 

Altavilla segir hins vegar að í hans huga hafi aldrei verið efi um að flugfélagið ætti að heita ITA Airways. „Það var alltaf mjög skýrt hjá okkur að við vildum ekki bara kaupa Alitalia vörumerkið, heldur að við þurftum það. Sérstaklega af markaðslegum ástæðun, ítalska merkið gat ekki verið í eigu neins annars en ríkisflugfélagsins,“ sagði Altavilla. 

Alitalia fór í gjaldþrot nú í haust.
Alitalia fór í gjaldþrot nú í haust. AFP
mbl.is