Amsterdam er hin fullkomna jólaborg

Amsterdam fer í jólabúning á aðventunni.
Amsterdam fer í jólabúning á aðventunni. Ljósmynd/Pexels/Matteus Silva

Fyrir sumum er það órjúfanlegur hluti af aðventunni að fara í helgarferð til meginlands Evrópu, kaupa jólagjafir og anda að sér jólunum á jólamörkuðum. Amsterdam er hin fullkomna borg til að komast í jólaskap því þar er fjöldi fallegra markaða og borgin vel skreytt með fallegum ljósum.  

Ljósin í miðborginni eru kveikt hinn 2. desember í ár og má sannarlega segja að jólaandinn svífi yfir strætum borgarinnar í mánuðinum. 

Fyrir utan Rijkmuseum safnið er lítill jólamarkaður á hveru ári. Þar er að finna fallegt jólaskraut og jólasætingin á sölubásum. 

Frægasti markaður borgarinnar er sunnudagsmarkaðurinn sem eins og nafnið gefur til kynna bara opinn á sunnudögum. Hann er við gömlu gasverksmiðjuna Westergas. Í desember breytist hann í jólamarkað. Þar er að finna fallegt handverk, ýmis konar gjafavöru, hönnun og listir. 

Í Frankendael almenningsgarðinum er svo haldinn matarmarkaður á aðventunni þar sem sælkerar koma ekki að tómum kofanum. Í Museumplein garðinum finnur þú hönnunarmarkað sem fer í jólabúning. 

Jólamarkaðirnir í Amsterdam eru ómissandi fyrir jólin.
Jólamarkaðirnir í Amsterdam eru ómissandi fyrir jólin. Ljósmynd/Pexels/Amy Lane
mbl.is