Hætti í bankanum til að elta drauminn

Inga Tinna Sigurðardóttir.
Inga Tinna Sigurðardóttir.

Inga Tinna Sigurðardóttir framkvæmdastjóri Dineout var að klífa metorðastigann hjá Arion banka þegar hún ákvað að hætta, elta drauminn og gerast flugfreyja. Í kjölfarið stofnaði hún eigin fyrirtæki sem ferðamenn nýta sér með einum eða öðrum hætti en Inga Tinna smitaðist snemma af ferðabakteríunni.

„Ferðalög gefa mér orku og eru mér mjög mikilvæg. Ég er fiðrildi að eðlisfari og er alin upp við ferðalög frá því að ég var lítil stelpa. Foreldrar mínir og amma og afi ferðuðust með mig um heiminn og ætli bakterían hafi ekki komið þaðan. Ég fluttist til Danmerkur þegar ég var ung og bjó þar, þar til ég byrjaði í grunnskóla,“ segir Inga Tinna um ferðabakteríuna.

Inga Tinna segir ekki alla hafa skilið þá ákvörðun hennar að hætta í bankanum á sínum tíma. „Það voru margir sem hneyksluðust á því að vera með verkfræðimenntun og starfa í háloftunum við að „þjóna fólki” en ég hef aldrei litið á það þannig. Starfið krefst mikils og er fyrst og fremst ábyrgðarfullt öryggisstarf. Það krefst oft mikillar útsjónarsemi, samskiptahæfni og einbeitingar og kennir manni margt. Þess utan starfa þar vinir mínir og æðislegt fólk sem ég fékk að kynnast og ferðast með,“ segir Inga Tinna. Í kjölfarið stofnaði hún smáforritið, Icelandic Coupons, sem er vinsælt afsláttarsmáforrit meðal ferðamanna á Íslandi (og meðal Íslendinga) og seinna Dineout sem er orðið risavaxið fyrirtæki sem býður upp á hugbúnaðarlausnir fyrir veitingastaði og hótel.

Ljúfa lífið á Ítalíu.
Ljúfa lífið á Ítalíu.

Ítalskur draumur

Á ferðalögum Ingu Tinnu um heiminn hefur hún upplifað margt og nokkrar ferðir sem standa upp úr. Inga Tinna gæti vel trúað því að hún hefði verið ítölsk í fyrra lífi. Hún byrjaði að ferðast til Como-vatns á Ítalíu árið 2009. „Sagan á bak við fyrstu Como ferðina er frekar sæt. Ég horfði stundum eða frekar oft á Glæstar vonir með ömmu minni þegar ég var yngri og í þeim „frábæru og innihaldsríku“ þáttum gifti flotta fólkið sig alltaf við Como-vatn. Ég horfði á staðinn með stjörnur í augunum og hét mér því að fara þangað einn daginn. Þegar ég kom þangað fyrst árið 2009 var ekki aftursnúið. Algjör perla. Fólkið í kringum mig vissi þá ekki hvaða staður þetta var sem ég var alltaf að skjótast til á sumrin. Staðan er önnur í dag, nú er í tísku að fara til Como-vatns og það er ekkert skrítið. Ég hef líka verið við Gardavatnið en það finnst mér öðruvísi. Það er mjög fallegt en meira um ferðamenn þar,“ segir hún.

„Það sem er heillandi við Como er þetta undurfagra umhverfi. Maturinn er dásamlegur og fólkið yndislegt. Ég leigi alltaf bát og sigli milli staða á vatninu. Hver bær býr yfir sinni sérstöðu, sumir eru þekktir fyrir vandaða skó, aðrir fyrir vandaða hönnunarvöru fyrir heimili, aðrir fyrir olíur, ólívur, vín og svo framvegis. Það er fátt meira heillandi en að sigla bátnum upp að sjarmerandi bæ, leggja þar við bryggju og hoppa á fallegan veitingastað í hádegismat með útsýni yfir dýrðina.“

Veitingastaðurinn Al Veluu.
Veitingastaðurinn Al Veluu.

„Ég á mér uppáhaldsbæ sem heitir Tremezzo. Þar er æðislegt hótel sem heitir Grand hotel Tremezzo. Í fjallshlíðinni er minn uppáhalds veitingastaður sem heitir Al Veluu. Það er fjölskylda sem á og rekur staðinn á sumrin en á veturna fara þau til Sviss og kenna á skíði. Amman og afinn passa börnin uppi í húsinu á meðan foreldrarnir taka á móti gestum veitingastaðarins. Einnig bjóða þau upp á gistingu en það þarf að panta á staðnum með miklum fyrirvara. Best er að koma í birtu og horfa yfir vatnið og yfir til Belaggio meðan rökkvar og tekur að kvölda. Þá er kveikt á arineld út um allan stað og notið fram eftir. Annar staður sem er frekar falinn og þú labbar hreinlega inn í klett heitir Ristorante Ca De Matt.

Hann er í bænum Gravedona og er frábær. Ég á marga fleiri uppáhaldsstaði við Como-vatnið og stefni að því að fara næsta sumar.“

Inga Tinna leigir bát þegar hún fer í frí við …
Inga Tinna leigir bát þegar hún fer í frí við Como.

Siglingar ekki bara fyrir gamalt fólk

Japan er einnig í miklu uppáhaldi hjá Ingu Tinnu. „Tókýó er auðvitað algjörlega sér á báti og æðisleg. Mögnuð menning og fólkið svo kurteist og ber svo mikla virðingu fyrir umhverfi sínu og öðru fólki. Við Íslendingar mættum alveg taka það til fyrirmyndar oft á tíðum. Ég fékk algjört menningarsjokk þegar ég kom aftur til Íslands eftir dvöl mína í Tókýó. Ég upplifði hversu lítil við erum miðað við heiminn, eins og lítið sandkorn í eyðimörkinni. Það er ótrúlegt að koma í rúmlega 14 milljóna borg og þú sest um borð í lest þar sem enginn snertir þig eða rekst utan í þig. Allir bera virðingu fyrir plássi annarra. Þar eru til dæmis allir með símana sína stillta á hljótt um borð í lestunum og tala ekki í síma við virðingu við það fólk sem er að slappa af og leggja sig. Frændi minn gleymdi bakpokanum sínum í lestinni eitt sinn og honum var skilað í tapað og fundið því þarna stundar fólk ekki þjófnað,“ segir Inga Tinna. Í Japan finnst henni gaman að upplifa matarmenninguna en einnig að skoða hönnun og list. „Minnistæðast er gallerý sem heitir 21 21 og var með mjög nýstárlega list á þeim tíma sem ég heimsótti það. Ég prófaði að fara á hárgreiðslustofu og fékk ljósan lit í hárið, ég mæli ekki með því.“

„Karabíska hafið er einstakt og ég á góðar minningar þaðan. Ég fór í tveggja vikna siglingu sem var mjög ævintýraleg. Sigldi frá Miami á gamlársdag og fagnaði nýju ári úti á hafi í síðkjól, gala kvöldverði og skemmtilegu fjöri. Kosturinn við að fara á skemmtiferðaskip er að þú getur lagt heilann á hilluna og hugsað bara um að vera til. Þú þarft ekki að ákveða hvað á að gera yfir daginn og hvert á að fara eða hvar á að borða, það er allt til alls og allt fyrsta flokks. Það eins sem þú þarft að hugsa um er í hverju þú ætlar að klæðast og það er svo skemmtilegt. Hvort sem það sé leikhús, verslanir, veitingastaðir, spilavíti, líkamsrækt, afþreying, sólbað, jóga, hugleiðsla, afslöppun eða fjör – þú finnur það allt um borð. Það næst ekki alltaf símasamband sem er líka mikill kostur. Ég hef sjaldan verið jafn úthvíld og fersk eins og eftir svona siglingu. Það er komið við á mismunandi stöðum hverju sinni en ég kom við á Bahamas, St Martin og St Thomas. Þá tók maður daga þar og kynntist eyjunum sem voru einstakar á sinn hátt. Mér finnst algjör synd að margir hugsa um svona siglingar sem bara fyrir aldraða. Þvert á móti myndi ég segja, æðislegt að fara þegar maður er ungur og getur notið þess í botn. Skipin eru eins mörg og mismunandi eins og þarfir fólks. Sum skip eru ætluð fyrir fjölskyldufólk á meðan enn önnur blanda saman mismunandi aldurshópum og áherslum. Það er alltaf hægt að finna ferð sem hentar hverjum einum. Ég ætla klárlega að taka svona ferð aftur sem allra fyrst.“

New York, New York

Inga Tinna segir New York vera eina af sínum uppáhalds borgum. „Ég fór þangað fyrst þegar ég var 14 ára gömul og var þá hjá frænku minni og fjölskyldu hennar sem bjó á Manhattan. Ég man að þegar ég kom um kvöldið spilaði fjölskyldan Frank Sinatra, New York, New York. Það var svo viðeigandi og sjarmerandi þar sem íbúðin þeirra var stórglæsileg á 40. hæð á besta stað á Manhattan. Úr stofunni var útsýni yfir alla borgina og Frelsisstyttuna. Síðan þá hef ég ferðast mikið þangað á eigin vegum og svo einnig í flugfreyjustarfinu. Það tók mig þó nokkur skipti að læra á borgina og kunna að meta hana og nú finnst mér nauðsynlegt að koma þangað að minnsta kosti einu sinni á ári. Ég þekki hana eins og handarbakið á mér en læri alltaf eitthvað nýtt í hverri ferð. Veitingastaðir, verslanir, tíska, fólkið og afþreying eru á sérstökum skala. Ég á margar æðislegar minningar frá þessari borg og ófá skiptin sem maður hefur átt ævintýralega daga og kvöld. Farið á flottan stað í drykk og svo flott út að borða. Það hefur auðvitað komið fyrir að slík vinakvöld endi jafnvel í karókí og limmósíu. Það er enn á „bucket-listanum“ að fara í þyrluflug yfir New York. Hef aldrei farið í þyrlu og langar mikið að prófa það,“ segir Inga Tinna.

Tekur skyndiákvarðanir

Inga Tinna lýgur engu þegar hún segist vera firðildi og á hún það til að panta flug með dags fyrirvara og bóka gistingu í flugvélinni. „Ef ég er að fara á nýja staði, finnst mér mikilvægast að velja gott hótel. Ég leyfi mér oftast það besta þar og finnst skrítið þegar fólk sparar við sig í gistingu því það er hellings partur af dvölinni sem á sér stað á hótelinu. Ég held reynd­ar að ég fái þetta frá ömmu minni en hún tók mig oft á flott hót­el á mín­um yngri árum, hvort sem það var er­lend­is eða inn­an­lands. „Mér finnst bara ekk­ert til sem er of gott fyr­ir mig,“ er setning sem hún og mamma eru van­ar að segja seg­ir Inga Tinna og hlær þegar hún rifjar þetta upp. „Mér finnst skipta miklu máli að herbergin séu góð, staðsetningin og svo finnst mér nauðsynlegt að það sé flott rækt á hótelinu. Ekki verra að hafa heilsulind. Mér finnst líka skipta máli að panta borð á góðum veitingastað og kynna mér hvaða staðir séu flottir og góðir.“

Inga Tinna stundar miklar líkamsrækt og finnst mikilvægt að hafa …
Inga Tinna stundar miklar líkamsrækt og finnst mikilvægt að hafa rækt á hótelinu.

Viku ferð breyttist í þriggja mánaða langa ferð

Breytti kórónuveiran ferðavenjum þínum á einhvern hátt?

„Covid breytti klárlega ferðavenjum og loks gaf maður sér tíma til að ferðast aðeins um fallega landið sitt. Ég var samt mjög dugleg að fara erlendis á tímum Covid og upplifði enga ferðaskömm við það. Hver og einn tekur ákvörðun fyrir sig og ég passaði mig vel á ferðalögunum áreynslulaust. Ég fór til dæmis í þrjá mánuði til Spánar, nánar tiltekið Andalúsíu. Ég ætlaði nú bara að vera í einu viku en endaði á því að vera í næstum þrjá mánuði. Þetta var á þeim tíma sem líkamsræktarstöðvar hér heima lokuðu og mér fannst æðislegt að komast í rækt og stunda heilbrigt líferni í hita og sól svo ég ílengdist og naut þess vel,“ segir Inga Tinna.

„Það gekk á ýmsu á Spáni á þessum tíma og veitingastaðir með skerta opnunartíma ásamt því að maður þurfti oft og tíðum að bera grímu en það var vel þess virði. Ég kynntist æðislegu svæði sem ég held að Íslendingar eigi eftir að uppgötva. Þetta er nýtt paradísarsvæði með lúxusvillum, lúxusíbúðum, lúxushóteli, veitingastöðum og afþreyingu. Svæðið kallast Higueron og er nýtt. Þetta er lokað lúxussamfélag. Einkunnarorð verkefnisins eruLive-Play-Work. Þarna er líkamsræktarstöð í hæsta gæðaflokki, heilsulind, hárgreiðslustofa, nuddstofa, jóga, dans, tennis, „padel“, blak og fyrsta flokks húsnæði þar sem hægt er að stunda vinnu með tengingu viðSilicon Valley. Fyrsta flokks strandklúbbur og lúxusgisting. Það er ferðamáti innan samfélagsins sem getur farið með þig milli staða en svo getur þú auðvitað verið á hjóli eða golfbíl. Á þeim tíma sem ég var úti var hægt að leigja nýjar villur á ótrúlegu verði vegnaCovid. Mánuðurinn átti að vera á fjórar milljónir fyrir gistingu en út af heimsfaraldrinum kostaði nóttin um 30 þúsund krónur. Algjör tilviljun að hafa rambað inn á þetta svæði og ég ætla mér að fara þangað aftur sem allra fyrst.“

Inga Tinna féll fyrir Higueron á Spáni í vor.
Inga Tinna féll fyrir Higueron á Spáni í vor.

Ætlar þú að reyna að ferðast eitthvað í vetur?

„Já, ekki spurning! Ég er alltaf með annan fótinn í Kaupmannahöfn þar sem Dineout er að hassla sér völl. Ég mun líklega fara til Spánar á sama svæði og ég var á fyrir nokkrum mánuðum síðan. Ég hlakka mikið til þegar við getum aftur ferðast til Bandaríkjanna og líklega mun ég skella mér þangað fyrir jólin með mömmu eins og við gerum alltaf. Við erum vanar að fara til New York, Boston eða Orlando. Það verður klárlega smá sól í kroppinn og „jólashopping“ svo við verðum sætar í jólakjólunum.“

Það er nauðsynlegt að fara í verslunarferð fyrir jólin.
Það er nauðsynlegt að fara í verslunarferð fyrir jólin.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert