Svona kemstu í sólina fyrir minni pening

Margir þrá að fara í sólina fyrir minni pening.
Margir þrá að fara í sólina fyrir minni pening. Ljósmynd/Pexels/GaPeppy1

Mikill ferðahugur er í fólki um þessar mundir og marga dreymir um að komast í sólina, þótt ekki væri nema bara yfir eina helgi. En ferðalög kosta sitt og því er alltaf gott að nota öll tólin í verkfærakassanum til þess að ná hagstæðara verði á ferðalaginu. 

Sérfræðingar ferðaskrifstofunnar Expedia og Airlines Reporting Corporation tóku saman lista yfir nokkur ráð um hvernig megi finna miða í sólina á hagstæðu verði. 

Bókaðu á öðrum degi

Næst þegar þér leiðist á föstudagskvöldi og ákveður að skipuleggja ferðalag til heitari landa ættirðu að bíða í nokkra daga. Verð á flugmiðum getur sveiflast til milli daga. Verðið er lægst á sunnudögum en hæst á föstudagum. Það getur munað 15-20% í verði á þessum dögum. Bíddu því í nokkra daga áður en þú bókar. 

Fljúgðu á öðrum tíma

Það er freistandi að skella sér til útlanda í nóvember og desember. Hins vegar getur verð verið mjög hátt þessa mánuði, sérstaklega í desember, þegar fólk flýr kuldann í smá jólasól. 

Ef þú vilt fara í ferðalag og þér er alveg sama hvenær, þá skaltu frekar fara í september, einmitt þegar aðalsumarferðatíminn er liðinn. Þú gætir sparað allt að 40% og það er hlýrra á flestum stöðum í Suður-Evrópu en á Íslandi á þessum tíma árs. 

Ekki bóka hótel um helgar

Ef þú getur ættirðu að sleppa því að fara í ferðalag yfir helgi. Nætur á hótelum eru töluvert ódýrari í miðri viku. Þá er miðvikudagur til föstudags sérstaklega ódýr. 

Fækkaðu stjörnunum

Fimm stjörnu hótel eru augljóslega dýrust og með því að dvelja á hóteli með færri stjörnum en þú hefðir kannski viljað getur þú sparað allt að 50%. Munurinn á fimm og fjögurra stjörnu hóteli er ekki það mikill hvað þægindi varðar, en verðmunurinn er mikill. 

Ef þú ferð svo niður í þriggja stjörnu hótel úr fjögurra stjörnu geturðu sparað allt að 30%.

mbl.is