Félagar Ferðafélagsins aldrei fleiri

Stokkið á milli landshluta. Páll sést hér bregða á leik …
Stokkið á milli landshluta. Páll sést hér bregða á leik á Rjúpnafelli. Ljósmynd/Aðsend

Páll Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ferðafélags Íslands, segir félagið hafa stækkað töluvert í kjölfar kórónuveirufaraldursins. Greiðandi félagsmenn hafa aldrei verið fleiri en nú. 

„Það er mjög ánægjulegt að sjá að þátttaka í starfinu sé að aukast í sífellu. Nú á Covid tímum hafa til að mynda tvö þúsund nýir félagar bæst í hópinn. Við bjóðum alla velkomna í félagið. Það er gott fyrir alla að vera sem mest úti í náttúrunni og það vita það allir að gönguferð í góðra vina hópi er allra meina bót,“ segir Páll og bendir á að Ferðafélag Íslands sé í grunninn áhugamannafélag um hvers kyns ferðalög en hlutverk félagsins sé þó margþætt. Félagið vinnur til dæmis að útgáfu- og fræðslumálum, leggja gönguleiðir, byggja upp skála og ýmislegt annað sem tekur mið af greiðum ferðum landsmanna um þeirra eigið land. 

Gengið eftir Uppgönguhrygg í Jökulgili.
Gengið eftir Uppgönguhrygg í Jökulgili. Ljósmynd/Aðsend/Páll Guðmundsson

Ferðafélag barnanna góð viðbót á sínum tíma

Páll segir Ferðafélag Íslands vera fyrir alla. Allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi innan félagsins, bæði hvað varðar ferðir eða önnur verkefni. Þá heldur Ferðafélag Íslands úti deild innan félagsins sem ætluð er börnum. Ferðafélag barnanna var stofnað árið 2010 og er helsta markmið þeirrar deildar að hvetja börn til aukinnar útiveru í náttúru Íslands en ekki síður að stuðla að skemmtilegum samverustundum foreldra og barna.

„Ég hef setið á nokkrum aðalfundum Ferðafélags Noregs. Á einum slíkum fundi árið 2010 þá átti Ferðafélag barnanna í Noregi 10 ára afmæli. Auður konan mín var með í ferðinni og hafði sett sig vel inn í starf norska Ferðafélag barnanna. Var það úr að Ferðafélag barnanna á Íslandi var síðan stofnað á næsta aðalfundi Ferðafélags Íslands strax í kjölfarið,“ segir Páll um tilurð Ferðafélags barnanna hér á landi. Í fyrstu segir hann fimm manna verkefnastjórn hafa verið skipaða en síðan hafa foreldrar barnanna verið leiðandi í starfinu síðustu ár.

„Við höfum haft marga frábæra foreldra sem hafa tekið það að sér að vera umsjónarfólk Ferðafélags barnanna og knúið starfsemina og dagskrárefnið áfram. Í dag er Ferðafélag barnanna opið öllum en við mælumst þó til þess að foreldri sé meðlimur Ferðafélags Íslands, það er ekki skylda en okkur þykir það skemmtilegra,“ segir hann. Ferðafélag barnanna stendur fyrir ýmsum viðburðum, svo sem göngu- og skoðanaferðum, þar sem geysifjölbreytt lífríkið er kannað og matjurtir sem finnast í náttúrunni hafðar í forgrunni. Ferðirnar skila börnunum því ekki síður vitsmunalegum árangri þegar þau hafa upplifað leyndardóma náttúrunnar líkt og eitt af markmiðum félagsins er.

Með fjölskyldunni í Stuðlagili.
Með fjölskyldunni í Stuðlagili. Ljósmynd/Aðsend

Ólst upp við ferðalög

Páll segist alltaf hafa haft gaman að því að ferðast og að hann hafi alist upp við það að leggja títt upp í ferðalag með foreldrum sínum. Sjálfur er Páll þriggja barna faðir, en hann og eiginkona hans, Auður Kjartansdóttir, landfræðingur, hafa einnig tileinkað sér þann sið að vera iðin við að fara í ferðalög með börnum sínum.

„Mamma er mikill náttúruunnandi og þekkir landið og söguna vel. Hún var því dugleg við að þylja upp örnefni og sögur á ferðalögunum sem ég bý nú að. Pabbi var svona meira áhugasamur um mat og var því alltaf með það á hreinu hvar allar sjoppurnar var að finna á hverju landshorni. Þannig það má segja að ferðalögin með mömmu og pabba í gamla daga hafi verið ágætis blanda,“ segir Páll og rifjar upp barnæskuna.

„Ég á nokkrar góðar ferðaminningar sem barn en þegar ég var um það bil tíu ára gamall þá fór ég hringinn í kringum landið í fyrsta skiptið með foreldrum mínum. Sú ferð stendur mér alltaf nær í minni. Svo er mér mjög eftirminnilegt skólaferðalag sem ég fór í þegar ég var í sjötta bekk. Þá fór ég í Þórsmörk ásamt bekknum mínum. Ég man að í þeirri ferð hljóp ég í þrígang upp á Valahnúk en skemmtilegar kvöldvökur og góðar gönguferðir stóðu upp úr í þeirri ferð.“

Páll með Ragnheiði dóttur sinni í Þórsmörk með Rjúpnafell í …
Páll með Ragnheiði dóttur sinni í Þórsmörk með Rjúpnafell í baksýn en þangað var ferðinni heitið. Ljósmynd/Aðsend

Sælutilfinning að fylla lungun af fjallalofti

Í hvers konar ferðalag fórstu síðast og í hvers konar ferðalögum nýtur þú þín best?

„Ég fór nýlega í ferðafélagsferð í Landmannalaugar. Þá gengum við meðal annars að Grænahrygg. Það er einstaklega falleg ganga og litadýrðin með ólíkindum fjölbreytileg. Mér finnst alltaf gaman í löngum dagsgöngum í fjölbreyttu landslagi með fjölskyldunni og góðum vinum. Það er gaman að geta leyft sér að fara fram og tilbaka í hópnum og spjalla eða leyfa sér að verða einn með sjálfum sér um stund og njóta augnabliksins. Það gerist svo á ákveðnum tímapunkti, þegar lungun eru orðin full af fjallalofti þá fer um mann sælutilfinning og einhvers konar hámarks núvitund. Það er ólýsanlega góð tilfinning.“

Páll við Grænahrygg með eiginkonunni, Auði.
Páll við Grænahrygg með eiginkonunni, Auði. Ljósmynd/Aðsend

Páll segist eiga erfitt með að gera upp á milli landshluta, þeir séu allir í ákveðnu uppáhaldi. Hver staður hafi sinn sjarma og að hann geti alltaf sé eitthvað fallegt við þann stað sem hann er staddur á hverju sinni.

„Það er nú svolítið klént en mér finnst yfirleitt alltaf fallegast þar sem ég er hverju sinni. Það væri ágætt að geta sagt að Suðurland, Vesturland, Austurland og Norðurland séu fallegustu staðir landsins en ég hrífst mikið af náttúrufegurðinni í Þórsmörk. Ég segi að Þórsmörk sé fallegasti staður landsins.“

Þessa mynd tók Páll á símann sinn í ferðinni að …
Þessa mynd tók Páll á símann sinn í ferðinni að Grænahrygg. Myndin sýnir óaðfinnanlega litadýrð í Jökulgili í Friðlandi að Fjallabaki. Nánast eins og málverk. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is