Ekki í Hvíta húsinu á þakkargjörðinni

Joe og Jill Biden halda fast í þá hefð að …
Joe og Jill Biden halda fast í þá hefð að ferðast til Nantucket yfir þakkargjörðarhátíðina. AFP

Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, og kona hans, dr. Jill Biden, ætla að halda í hefðina og ferðast til Nantucket í Massachusetts til þess að eyða þakkargjörðarhátíðinni, hinn 25. nóvember. 

Forsetinn hefur haldið í þá hefð síðan 1975 að eyða þakkargjörðarhátíðinni á eyjunni Nantucket ásamt fjölskyldu sinni en öll þau ár hafa aðeins komið tvö tilfelli sem víkja hefur þurft frá þeirri ríku hefð.

Í fyrra stóð heimsfaraldurinn í vegi fyrir því að Biden-fjölskyldan gæti sameinast á eyjunni og glaðst saman en í fyrra skiptið voru það veikindi sonar Bidens, Beaus, sem komu í veg fyrir fjölskylduhefðina, enda ríkti mikil sorg í fjölskyldunni í kjölfar veikinda hans. Beau Biden lést í maí 2015 eftir stutta en hetjulega baráttu við heilakrabbamein. 

Seint í síðustu viku var það svo staðfest að forsetahjónin myndu eyða hátíðinni á eyjunni líkt og þau hafa gert síðustu fjóra áratugi.

„Síðustu þakkargjörðarhátíð eyddum við hjónin heima hjá okkur í fyrsta skipti ásamt dóttur okkar og tengdasyni. Seinna í þessum mánuði munu borð okkar og hjörtu fyllast á ný  þökk sé bóluefnunum,“ er haft eftir Biden í viðtali í byrjun mánaðarins, People greindi frá. „Við höfum náð ótrúlegum árangri síðustu mánuðina en við megum ekki sofna á verðinum. Við verðum að halda áfram. Heimsfaraldurinn er ekki enn að baki en við erum að komast þangað,“ sagði Biden vongóður. 

mbl.is