Hélt að hún myndi deyja í flugslysi

Jennifer Lawrence er ein skærasta stjarna Hollywood um þessar mundir.
Jennifer Lawrence er ein skærasta stjarna Hollywood um þessar mundir. AFP

Óskarsverðlaunaleikkonan Jennifer Lawrence var sannfærð um að hún myndi deyja þegar vélarbilun varð í flugvél sem hún var í. Flugvélin endaði á því að nauðlenda harkalega en Lawrence hefur enn ekki jafnað sig á áfallinu. 

„Beinagrindin mín var það eina sem var eftir í sætinu,“ segir Lawrence þegar hún lýsir atvikinu í viðtali við Vanity Fair á dögunum. 

Atvikið átti sér stað sumarið 2017 og var Lawrence á leiðinni til New York frá heimabæ sínum, Louisville í Kentucky-ríki. Allt í einu heyrðust undarleg hljóð í flugvélinni og loftþrýstingurinn varð óvenjulegur. Farþegi sem fór í flugstjórnarklefann sneri skelfingu lostinn til baka og sagði að önnur af tveimur vélum í flugvélinni hefði bilað. Hann lagði þó áherslu á að enn væri mögulegt að nauðlenda vélinni. Svo kom að því að ekkert heyrðist og á þeim tímapunkti vissi leikkonan að þau væru í vondum málum. Hin vélin hafði einnig bilað. 

„Við vorum öll að fara að deyja,“ segir leikkonan. „Ég byrjaði að skilja eftir lítil hugskilaboð til fjölskyldunnar minnar, þú veist, ég átti frábært líf, mér þykir þetta leitt.“ 

Allt í einu sá hún flugbraut fyrir neðan flugvélina ásamt slökkviliðsbílum og sjúkrabílum. „Ég byrjaði að biðja. Ekki sérstaklega til guðsins sem ég ólst upp við af því hann var hrikalegur og mjög dómharður maður. En ég hugsaði, guð minn góður, kannski munum við lifa þetta af. Ég mun verða með brunasár, þetta verður sárt en við munum lifa.“

Svo fór að vélin lenti harkalega á flugbraut í Buffalo. Hurð einkaþotunnar var brotin upp og farþegum og starfsfólki bjargað. Allir grétu, föðmuðust og enginn hlaut líkamlegan skaða af. Skömmu síðar þurfti leikkonan að fara í aðra flugvél en þá var hún orðin hálfmeðvitundarlaus enda tekið stóra töflu eins og hún orðar það og drukkið nokkrar litlar flöskur af rommi eftir áfallið. 

„Það sem drepur þig ekki gerir þig sterkari er stundum algjört bull,“ segir Lawrence. „Þetta gerði mig mun veikari. Það að fljúga er hræðilegt og ég þarf alltaf að vera gera það.“

Actress Jennifer Lawrence attends the 2017 Governors Awards, on November …
Actress Jennifer Lawrence attends the 2017 Governors Awards, on November 11, 2017, in Hollywood, California. / AFP PHOTO / VALERIE MACON mbl.is/AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert