Íslenska töluð í taívanskri auglýsingu

Íslenska er töluð í tævanskri te auglýsingu.
Íslenska er töluð í tævanskri te auglýsingu. Skjáskot/TikTok

Myndskeið úr taívanskri auglýsingu hefur vakið óvænta athygli á meðal íslenskra notenda á samskiptamiðlinum TikTok síðustu daga. Auglýsingin þykir bráðskemmtileg þar sem Ísland bregður fyrir og íslensk tunga spilar stórt hlutverk, en það verður að teljast frekar frumlegt.

 Í byrjun auglýsingarinnar má til að mynda sjá glitta í Bláa Lónið, sem hefur lengi vel verið eins konar táknmynd Íslands. Varan sem verið er að auglýsa er taívanskt te í plastflösku sem ung kona bókstaflega þefar uppi alla leið til Íslands. 

„Hvernig fannstu mig?“ spyr maður sem er í þann mund að lesa tímarit í afskekktum fjallaskála, íklæddur íslensku lopapeysunni með íslensku fánalitina uppi á vegg, á meðan hann dreypir á teinu góða. 

„Ég fann lyktina,“ svarar unga konan.

„En ég faldi lyktina,“ svarar hann.

„Heldurðu að það sé hægt að fela lyktina?“ spyr hún þá um leið og hreimur þeirra beggja gefur það strax í skyn að íslenska sé ekki þeirra móðurmál.

Myndbandið má sjá hér að neðan.  

mbl.is