Forréttindi að fá að ferðast í vinnunni

Arna Björg Arnardóttir er flugfreyja hjá Icelandair.
Arna Björg Arnardóttir er flugfreyja hjá Icelandair. Ljósmynd/Aðsend

Arna Björg Arnardóttir hefur starfað sem flugfreyja hjá Icelandair síðan árið 2013. Fjölskylda Örnu á sér langa sögu innan veggja Icelandair og Loftleiða. Amma hennar og afi unnu á sínum tíma sem fararstjórar á Mallorca og er draumaferðalag Örnu gott frí á Mallorca en borgarferðir eru líka í uppáhaldi hjá henni. 

„Það eru forréttindi að fá að ferðast að atvinnu og fá að sjá heiminn. Samstarfsfólkið mitt hjá Icelandair er dásamlegt í alla staði og er enginn dagur í vinnunni eins. Það er líka svo mikil gleði falin í því að fá að kynnast öllu fólkinu sem maður þjónustar í háloftunum. Fólk er oftast hlaðið spennu og tilhlökkun og hvert ferðalag á sér sína eigin sögu sem er gaman að fá að vera partur af. Starfið hefur gefið mér ómælda reynslu, þekkingu og visku sem mun fylgja mér um alla ævi. Þetta er krefjandi starf að mörgu leyti en öll þau verkefni sem þarf að takast á við hafa reynst mér svo ótrúlega gefandi,“ segir Arna um flugfreyjustarfið. 

Hvað ferðast þú alltaf með í handfarangri?

„Fyrir utan þetta allra týpíska eins og vegabréf og seðlaveski þá ferðast ég aldrei án þess að hafa eftirfarandi í handtöskunni: Airpods, tryggja að Mac Miller og hlaðvörpin mín fylgi mér um allan heim. Urban Decay rakamistur, sem er algjör bjargvættur í fluginu þar sem húðin á það til að þorna upp. Laneige-varasalva. Ég elska þennan varasalva og er ávallt með hann á mér. Hleðslubanka, því enginn vil sitja uppi með tóma rafhlöðu í miðju ferðalaginu. Svo er ég alltaf með „litla björgunarkittið“ mitt, sem inniheldur naglaþjöl, penna, plástra, sótthreinsi, glært naglalakk til að bjarga lykkjufalli og að lokum nál og svartan tvinna.“

Arna ferðast mikið í vinnunni.
Arna ferðast mikið í vinnunni. Ljósmynd/Aðsend

Hvernig ferðalög ferð þú í þegar þú velur áfangastaðinn sjálf?

„Borgarferðir heilla mig mest enda nýt ég mín best á fleygiferð og er ekki þekkt fyrir að sitja auðum höndum. Ég er mikill list- og söguunnandi og elska að skoða listasöfn erlendis. Mismunandi arkitektúr borga fanga alltaf auga mitt og svo nýt ég þess einfaldlega að ráfa um götur og stræti og mynda það sem fyrir augum ber. Eflaust þykir ekki eftirsóknarvert að ganga með mér og reyna að halda í við mig þar sem ég stoppa í tíma og ótíma til að mynda og er dugleg að leyfa fylgjendum mínum á Instagram að fylgjast með því sem verður á vegi mínum.“

Arna er dugleg að taka myndir á ferðalögum sínum.
Arna er dugleg að taka myndir á ferðalögum sínum. Ljósmynd/Aðsend

Hvaða borg er í uppáhaldi?

„Í sumar fór ég í fyrsta skipti til Rómar með Vita og varð borgin samstundis mín uppáhalds. Borgin er stórbrotin, full af magnaðri menningu og guðdómlegum byggingum og skúlptúr. Lifandi borg með ríkulega sögu í alla staði. Það er eitthvað svo dásamlegt við að ganga um götur borgarinnar, til dæmis við Colosseum og hugsa til þess að í sömu sporum og maður stendur í hafi merkustu menn úr sögu Rómarveldis gengið. Vatíkanið er einnig sá allra fallegasti staður sem ég hef sótt heim. Þar má finna list eftir merkustu listamenn mannkynssögunnar og er tilfinningin að ganga meðal listaverkanna algjörlega ólýsanleg.

New York er svo að mínu mati einstök yfir hátíðarnar. Í fullum hátíðarskrúða er borgin gædd ólýsanlegum töfrum og er það ómissandi partur af jólunum mínum að fá tækifæri til að skoða í jólagluggana á 5th Avenue, kíkja á jólamarkaðinn við Union Square og skella sér á skauta við Rockefeller Center. Fyrir þá sem ferðast munu til New York fyrir 20. febrúar 2022 þá er Dior Designer of Dreams-sýningin í Brooklyn Museum ein sú allra fallegasta sýning sem ég hef farið á. Við mamma fórum saman nú á dögunum og vorum orðlausar yfir kjólunum, uppsetningunni og umgjörðinni. Stórkostleg sýning fyrir alla sem hafa gaman af hönnun, list og tísku.“

Róm er í miklu uppáhaldi.
Róm er í miklu uppáhaldi. Ljósmynd/Aðsend

Evrópa eða Bandaríkin?

„Að mínu mati er eiginlega ekki hægt að bera svæðin saman, þar sem þau eru svo ótrúlega ólík þrátt fyrir sinn kimlík. Ég á mér svo marga uppáhaldsstaði beggja megin Atlantshafsins og elska þá af mismunandi ástæðum. Þetta er jafn ómögulegt fyrir mér og að gera upp á milli barnanna sinna.“

Eftirminnilegasta ferðalag sem þú hefur farið í?

„Sumarið 2020 leigðum við fjölskyldan gamalt sveitabýli í bænum Melby á Fjóni í Danmörku og nutum samverunnar eftir strembið Covid-ár. Á sveitabýlinu voru tvær kindur sem við sáum um meðan við dvöldum þar og fannst strákunum mínum það afar skemmtilegt. Þar voru einnig fjölmörg eplatré sem hægt var að teygja sig í er maður lá í hengirúminu og spókaði sig í sólinni. Þessi ferð er mér ógleymanleg. Við leigðum okkur bíl og fórum með börnin í Legoland, heimsóttum Bogense og svömluðum í sjónum við strendur Danmerkur.

Við enduðum ferðina á að keyra frá Fjóni yfir til Kaupmannahafnar og eyddum nokkrum dögum þar áður en heim var haldið. Tókum skyldustopp í Tívolíinu, versluðum á Strikinu og snæddum dýrindis mat með fjölskyldu og vinum. Einn skemmtilegasti staðurinn sem við heimsóttum þar var náttúruvínsbarinn sem er falinn undir Amagerbrúnni þar sem þú kaupir þér flösku og færð glös til að sitja og njóta við árbakkann og horfa á bátana þjóta hjá.“

Gott ferðalag til Danmerkur stóð upp úr í fyrra.
Gott ferðalag til Danmerkur stóð upp úr í fyrra. Ljósmynd/Aðsend

Hvar færðu besta matinn í útlöndum?

„New York er án efa mín uppáhaldsmatarborg. Balthazar í Soho er minn allra uppáhaldsstaður í flottan kvöldverð. Lauksúpan þar er ekki af þessum heimi, stórkostleg! Mercer Kitchen sem er einnig er staðsettur í Soho þykir mér mjög skemmtilegur. Frábært stopp fyrir létta smárétti og gott vínglas. Ilili er strangheiðarlegur líbanskur veitingastaður sem býður upp á skemmtilegt ferðalag fyrir bragðlaukana. Einnig myndi ég segja að Atoboy og náttúruvínsparadísin The Ten Bells séu skyldustopp fyrir mat og vín gæðinga.“

Arna elskar að borða góðan mat í New York.
Arna elskar að borða góðan mat í New York. Ljósmynd/Aðsend

Hvert dreymir þig um að fara?

„Ótrúlegt en satt þá er draumaferðalagið mitt einhvern veginn alltaf strangheiðarlegt fjölskylduferðalag til Mallorca. Ég eyddi miklum tíma þar sem barn þar sem amma mín og afi störfuðu sem fararstjórar í fjölmörg ár. Mallorca á alltaf sérstakan stað í mínu hjarta og á ég ótal margar minningar þaðan. En ef ég ætti að nefna einhvern stað sem ég hef aldrei heimsótt áður þá myndi ég ekki slá hendinni á móti því að fá tækifæri til að þvælast um Suður-Ameríku eða Feneyjar.“

mbl.is