Helga Thorberg á vit nýrra ævintýra

Helga Thorberg er hér stödd í Osted í Belgíu.
Helga Thorberg er hér stödd í Osted í Belgíu.

Helga Thorberg leikkona, garðyrkjufræðingur og fararstjóri fer til Punta Cana í Dóminíska lýðveldinu 18 febrúar. Hún þekkir eyjuna vel því hún bjó þar um tíma og giftist manni frá eyjunni en það er þó önnur saga en leiðir þeirra skildi. Helga hefur átt litríka ævi og ferðast um öll heimsins höf. Hér áður fyrr ferðaðist hún um með þrjár fullar ferðatöskur en í dag tekur hún helst bara tannbursta með sér og nokkrar aukaspjarir. Það færist gleði yfir andlit Helgu þegar hún er spurð um þessa draumaeyju í Karabíska hafinu. 

„Þessi ferð er hið fullkomna frí. Þú stígur upp í flugvél og flýgur burt úr kulda og trekk og lendir á iðagrænni eyju. Þar sem tekur á móti þér sól og sumar, sægrænt Karabískahafið, mjúkar hvítar sandstrendur og pálmatrén veifa til þín í takt við dillandi tónlist.

Þetta er 10 daga ferð og þú lifir í vellystingum í mat og drykk. Hótelin sem í boði eru, eru í mjög háum gæðaflokki, hreinlæti er mikið og öll þjónusta til fyrirmyndar. Allar veitingar, matur og drykkir eru innifaldir í verðinu. Flest hótelanna bjóða upp á fleiri veitingasali með mat frá hinum ýmsu löndum, eins og franskan og ítalskan mat. Það er nóg til,“ segir Helga.

Það er gaman að tala um þessa draumaeyju við Helgu því hún þekkir hana betur en margir Íslendingar. Eftir hrun flutti Helga nefnilega í Karabíska hafið. 

„Það var eftir hrunið og ég var búin að selja blómabúðina mína og losa mig undan flestum fjárhagsskuldbindingum, því ég sá í hvað stefndi. Það var því kjörið tækifæri að fara út í heim og takast á við nýjan veruleika á þessum krossgötum. Hvað langaði mig að gera núna. Vinur minn stakk upp á því að ég leigði með honum hús í Dóminíska lýðveldinu og ég sló til. Stuttu eftir komuna þá sá ég þennan fallega mann, með dökkbrúnu augun og bang! Ég er venjulega fljót að ákveða mig, þegar ég sé það sem mig langar í. Það var engin leið tilbaka. Ég dreif mig strax í spænskunám til að geta talað við manninn og sveif um á bleiku skýi.“

Hvernig var að búa á stað sem þessum? 

„Ég bjó í mjög litlu þorpi á Norðurströndinni og það var ekki mikið um að vera. Þarna var ekkert til en samt allt sem maður þurfti. Ég var fyrst og fremst að skoða sjálfa mig í aðstæðum sem ég þekkti ekki neitt. Ótrúlega hollt að skoða tilveruna í nýju ljósi, í samfélagi þar sem allt önnur gildi skipta máli, siðir og venjur allt aðrar en maður átti að venjast. Þarna lifa allir í núinu og allt er undir „ef Guð lofar“. Til hvers að mæta í vinnu ef þú átt peninga? Um að gera að njóta þeirra á meðan þeir endast, enda ekkert víst að þú lifir fram á morgundaginn! Það kom ekki til greina að setjast að þarna svo þá var að koma manninum úr landi,“ segir Helga. 

Helga var gift í sjö ár og bjuggu þau hjónin saman í þremur löndum. 

„Það var nú mikið bras við íslenska kerfið að giftast manni utan þessa heilaga Evrópusambands. Ég gæti skrifað langa sögu um það! En þegar maður er orðinn eldri en tvævetra og ruglar saman reitum, við manneskju með rætur úr allt annari menningu. Þótt hann væri menntaður lögfræðingur þá vantaði allt lím í sambandið eins og börn og skuldir. Þá þarf kannski meira en ást til að láta sambandið ganga í mörg ár. En þetta var lærdómsríkur tími og gaman að vera ástfanginn en hvunndagur varð helst til fábrotinn félagslega eins og lífíð í þorpinu og því skildi leiðir,“ segir Helga. 

Hér er Helga með fyrrverandi manninum sínum, Casar Zapata Garcia.
Hér er Helga með fyrrverandi manninum sínum, Casar Zapata Garcia.

Draumalíf! 

Þegar Helga er spurð betur út í ferðina til Punta Cana segir hún að ferðin sé fyrir þá sem vilja liggja í sólbaði undir strásóhlíf alla daga en líka fyrir þá sem þrá að labba berfættir í sandinum, taka sundsprett í sjónum eða hanga á sundlaugarbarnum. 

„Ef fólk vill meira líf og fjör þá er margs konar afþreying og skoðunarferðir í boði. Ef fólk er áhættusækið má svífa um loftin í svifflugdreka, heimsins bestu golfvellir gætu höfðað til þeirra sem eru meira jarðbundnir, snorkl eða köfun og skoða sjávarlífið, heimsókn til Saona eyjunnar fyrir utan ströndina gæti höfðað til margra, göngutúr í höfuðborginni og skoða Colonial svæðið sem hefur að geyma dómkirkju reista árið 1514 og stendur enn, kastala og virki, svæði sem er á heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna með elstu minjar í heimi frá nýlendutímanum. Það má skoða hella, skreyttum teikningum frá tímum frumbyggja, þeir fótafimu vilja kannski taka snúning með diskóbátnum og dansa og dansa við heillandi Merenque tónlist. Hvað myndir þú velja,“ segir hún. 

Það er ýmislegt hægt að gera í París. Hér er …
Það er ýmislegt hægt að gera í París. Hér er Helga á árabát í Le Bois de Boulogne í jaðri Parísarborgar.

Helga segir að Punta Cana sé einn fjölsóttasti ferðamannastaðurinn í Karabískahafinu og strendurnar verið útnefndar þær fegurstu í heimi.

„Það var byrjað að þróa þetta svæði fyrir um 50 árum og byggja á því sem náttúran hefur upp á bjóða sem gerir þetta svæði eftirsótt. Það er ekki síst góða veðrið árið um kring, hitabeltisloftslags undir bláum himni, við sægrænan og tæran sjó og endalausar hvítar og hreinar stendur. Eyjan er í raun einn stór þjóðgarður, sem býr yfir mikilli náttúrufegurð með fjölbreyttu plöntu- og dýralífi.“

Þegar Helga er spurð að því hvað hún leggi áherslu á sem fararstjóri segir hún að það skipti miklu máli að fararstjórinn sé kunnugur staðháttum.  

„Áður fyrr keypti maður bækur, ég á enn bókina „Il Treno“ – sem er doðrantur um allar járnbrautarlestarferðir á Ítalíu! Nú er netið mikið notað og er frábært á ferðalögum. Í borgarheimsóknum er gott að fara í skoðunarferð til að fá yfirsýn yfir borgina og velja staði sem hægt er að heimsækja betur síðar. Gott hótel er auðvitað plús og síðan er nauðsynlegt að kynna sér matarmenninguna, heimsækja listasöfn og rápa síðan um og leyfa nefinu að ráða för.“

Hér er Helga að skemmta í kvennaferð í Róm. Hún …
Hér er Helga að skemmta í kvennaferð í Róm. Hún er í hlutverki Henríettu og tróð upp á veitingastað síðasta kvöldið fyrir heimferð.

Hvað gefa ferðalög þér?

„Ferðalög gefa mér upplifanir, minningar, þekkingu og skilning. Það er líka ótrúlegt frelsi sem fylgir því að vera laus úr heimahögunum, gleyma stund og stað og láta hrífa sig upp úr skónum yfir alls konar upplifunum. Byggingar, listasöfn, landslag og náttúra, matur og fólk. Það er áhrifaríkt að sjá með eigin augum sögufræga staði eins og til dæmis Colosseum í Róm, sem er hluti af sögu okkar og menningu. Besta leiðin til að skilja heiminn er að kynnst honum og að ferðast um ókunn lönd eykur víðsýni og skilning á öðrum og okkur sjálfum. Fyrir nú utan hvað það er skemmtilegt,“ segir hún. 

Hvað tekur þú alltaf með þér í ferðir?

„Hér áður fyrr tók maður allan fataskápinn með sér!  Dró á eftir sér 2-3 ferðatöskur fullar af fötum. Úlpu eða kápu ef það yrði kalt. Þunna kápu ef það verður hlýtt. Þá þurfti að taka með skópör sem pössuðu við allar yfirhafnir. Nokkra glæsikjóla ef maður færi fínt út að borða og þá þurfti háhælaskó við þá og handtösku sem passaði við og föt til að vera í á daginn. Þegar heim var haldið hafði maður varla snert farangurinn og mátti burðast með töskurnar óhreyfðar heim aftur og kannski hafði maður bætt við troðfullri tösku með nýjum fötum. Nú legg ég áherslu á að taka með mér sem minnst, tannbursta og nærföt – það er mesta frelsið að hafa minnstan farangur og kaupa sér eina og eina flík þegar vantar.“

Hver er þín flugrútína?

„Oft eru flugin snemma morguns og mæting um miðja nótt! Ég reyni alltaf að sofa alla vega eitthvað tíma fyrir flug. Að mæta tímanlega og forðast að verða of seinn er mikilvægast. Flugferðin er eiginlega hafin strax í flugstöðinni. Ég kaupi mér kannski bók, fæ mér kaffibolla og eitthvað til að maula í vélinni. Þegar ég er sest þá dríf ég mig úr skónum eða losa um skóreimarnar og anda djúpt ofan í maga. Ready for take off,“ segir hún og hlær. 

Hér er Helga í sumarleyfi með sonum sínum, Halldóri og …
Hér er Helga í sumarleyfi með sonum sínum, Halldóri og Hauk í Suður Frakklandi.

Hvað drífur þig áfram sem fararstjóri?

„Það er gaman að ferðast. Heimsækja önnur lönd og skoða heiminn. Það er ekki verra að geta haft það að atvinnu að miðla því sem maður þekkir til annarra.“

Hvernig er þetta ár búið að vera hjá þér?

„Ég tók mig til og seldi hæð og ris sem ég er búin að eiga í tæpa þrjá áratugi, minnkaði við mig og hef verið að innrétta íbúð fyrir mig í húsi með yngri syni mínum. Það er gaman að breyta alveg um stíl og nú fær litagleðin að ráða, eldhúsið blátt, svefnherbergið bleikt og baðherbergið sægrænt eins og sjórinn í Dóminíska lýðveldinu! Það hentaði mér ágætlega að fara í kosningabaráttu í Norðvesturkjördæmi þar sem ég var hvort eð er á götunni! En mér var ekki til setunnar á Alþingi boðið svo ég er frí og frjáls ferða minna.

Þetta hefur nú ekki verið mikið ferðaár en ég fór til Spánar og dvaldi hjá eldri syni mínum og fjölskyldu hans í tæpa tvo mánuði núna í haust. Það var kærkomið að komast í sól og hita eftir einstaklega lélegt sumar hér sunnanlands! Það var líka gott að finna hve ferðalag á þessum Covid tímum var í raun auðvelt.

Ég sé fram á að flytja inn í nýja íbúð fyrir jólin en eins og svo oft þetta árið er ég í góðu yfirlæti í Eyjafirðinum hjá vinafólki mínu að Brúnum sem hafa skotið skjólshúsi yfir mig og ég bíð eftir að síðustu flísarnar verði komnar á sinn stað og ég geti flutt inn.“

Á skíðum í Kitzbuhl ásamt Dídí vinkonu sinni og Hauki …
Á skíðum í Kitzbuhl ásamt Dídí vinkonu sinni og Hauki syni sínum.

Hvaða vonir bindur þú við næsta ár?

„Það er mikil tilhlökkun að fara í þessa Draumaferð til Dóminíska lýðveldisins, dásamlegt að horfa fram á heimsókn þangað á nýju ári. Ég verð fararstjóri í fleiri ferðum hjá Úrval-Útsýn á næsta ári, fer til dæmis með hóp til Prag í lok apríl. Ég vona innilega að við getum haldið áfram að ferðast, fræðast og skoða heiminn og að við sigrumst á þessari Covid veiru sem hefur breytt lífi okkar síðastliðin tvö ár. Er þetta ekki að verða gott,“ spyr hún.

Hvert er skemmtilegasta ferðalag sem þú hefur farið í?

„Ég hef farið í margar skemmtilegar ferðir, til dæmis til Fijieyja og Taílands en ætli ég hafi ekki orðið fyrir mestu áhrifunum í ferðalaginu til Kenýa. Við fórum nokkrar konur á alþjóðaráðstefnu í félagsskap sem við tilheyrðum. Eftir fundinn sem var haldinn í Nairobi var haldið í nokkra daga safariferð. Í ferðinni heimsóttum við meðal annars  Masai Mara þorp.  Í þessum þorpum búa hirðingjar, sem færa sig úr stað eftir þörfum, þegar búfénaðurinn hefur ekki meira að bíta á svæðinu, þá taka þeir sig upp og flytja. Þeir eru ekki skráðir íbúar í landinu, það er engin skólaganga fyrir börnin og stúlkurnar eru giftar um 12 ára aldur. Þeir eru mjög grannir, hávaxnir og nærast á blóði dýranna! Okkur stóð til boða að líta inn í strákofana þeirra. Þakið var gert úr kúamykju með hringopi í miðjunni til að hleypa út reyknum fyrir hlóðunum. Ég reyndi að beita mig fortölum til að fara inn en ég gat það ekki. Gerði nokkrar tilraunir við opið, beygði mig niður og hvatti sjálfa mig til að stíga inn. En ég gat það ekki. Eftir að hafa horft í augun á fólkinu, hugleitt hversu ólíkt lífið á jörðinni er hjá okkur mannfólkinu, sem búum á sömu jörðinni, undir sömu sólinni. Hér var fólk sem lifði í sínum heimi, enginn sameiginlegur flötur við það líf sem við þekkjum. Algjörlega lokuðum umheiminum og því sem þar gerðist. Þarna var hringrásarkerfið fullkomið áður en það hugtak varð til. Þegar einhver lést í þorpinu, var líkinu hent út í skóg fyrir rándýrin og þegar næsta líf kviknaði, hvort sem það var nýtt barn eða geit, þá var sá látni kominn aftur í líkama þess.

Þarna var ég búin að borga mig inn til að skoða þetta fólk, kallaði mig Helgu Blixen með safaríhatt og fannst ég vera voða smart túristi að skoða dýrin og fólkið í Afríku! Það fór um mig kjánahrollur. Þetta var mjög minnistæð heimsókn og fékk mann til að sjá sjálfan sig og tilveruna í nýju ljósi. Auðvitað var gaman að sjá gíraffa, fíla, leóparda, flóðhesta og ljón í sínu náttúrulega umhverfi og aka um slétturnar og upplifa náttúrfegurð Afríku. Þetta var ógleymanleg ferð,“ segir Helga. 

Þægilegt að búa í ferðatösku! 

Helga Blixen á ferðalagi í Kenya ásamt leiðsögumanni.
Helga Blixen á ferðalagi í Kenya ásamt leiðsögumanni.
mbl.is