„Fjallgöngur reyna heilmikið á andlegu hliðina“

Adda Valdís Óskarsdóttir er leiðsögumaður og segir fjallgöngur meðal annars …
Adda Valdís Óskarsdóttir er leiðsögumaður og segir fjallgöngur meðal annars reyna á andlegu hliðina. Ljósmynd/Aðsend

Arnar Þór Gunnarsson og Adda Valdís Óskarsdóttir eru leiðsögumenn hjá Af stað. Arnar og Adda eiga það sameiginlegt að finna fyrir meiri frið og ró á fjöllum. Nýr heimur opnast fyrir mörgum þegar fólk byrjar að stunda útivist að vetri til en þá þarf að fara varlega. Að toppa Hvannadalshnúk er draumur margra en Arnar og Adda segja að það sé á færi flestra svo lengi sem að fólk æfir vel og sé með góða leiðsögumenn.

„Útivist gefur mér persónulega svo margt, á fjöllum finnur maður frið og hugarró sem finnst ekki annarsstaðar. Ég byrjaði í hefðbundnu sumarrölti eins og svo margir, gekk á allskyns hóla og tinda á SV-horninu en í upphafi valdi ég mér yfirleitt allra besta veðrið til þess. Ég leiddist síðan yfir í ýmis störf innan ferðaþjónustunnar, síðar björgunarsveitarstörf og gönguleiðsögn samhliða þeim. Það opnast alveg nýr heimur þegar maður byrjar að stunda útivist að vetri til og það er meðal annars sá heimur sem við hjá Af stað höfum sérstaklega gaman af að opna fyrir fólki,“ segir Arnar um hvernig hann byrjaði í útivist.

Adda segir að útivist eins og göngur og skíði hafi alltaf verið hluti af hennar lífi. Það var þó ekki fyrr en fyrir nokkrum árum sem fjallamennskan hefur fengið meira pláss. „Ég skráði mig á göngunámskeið fyrir nokkrum árum til þess að öðlast öryggi í útivist allan ársins hring. Það vatt upp á sig og núna er þetta orðið að öðru starfi. Fyrir mér er fátt betra en útivera, af hvaða toga sem hún er. Að fara út og finna kraftinn sem býr í náttúrunni og í veðrinu, finna hvernig árstíðirnar breytast þegar daginn tekur að stytta eftir sumarið og lengjast aftur eftir dimma mánuði. Komast í burtu frá daglegu amstri og finna frið fyrir hugann. Úti í náttúrunni finnum við líka kraftinn sem býr innra með okkur hugrekkið, þrautseigjuna og seigluna þegar við setjum undir okkur hausinn og höldum áfram, eitt skref í einu.“

Eigi þið uppáhaldsstað eða gönguleið á Íslandi?

„Þetta getur breyst milli ára en Landmannalaugar og Fjallabak skipa alltaf sérstakan sess hjá mér, litadýrðin er óviðjafnanleg og náttúrusmíðin á sér varla hliðstæðu. Fleiri virðast vera að átta sig á perlum svæðisins, það var gaman að sjá til dæmis hversu margir komu með okkur inn að Grænahrygg í fyrra. Umhverfið að Fjallabaki er allt svo mikilfenglegt að maður veit varla hvert á að horfa. Maður finnur til smæðar sinnar og ég upplifi sterkt hversu mikil peð við erum og í raun gestir í umhverfi okkar. Við fáum örstutta ævi til að meðtaka öll listaverkin sem náttúruöflin hafa skapað í kringum okkur,“ segir Arnar.

„Hafnarfjall og svæðið þar í kring er ævintýralegt bæði að sumri til en ekki síður yfir veturinn. Krýsuvík og Kleifarvatnssvæðið er líka í sérstöku uppáhaldi,“ segir Adda.

Arnar Þór Gunnarsson er leiðsögumaður hjá Af stað.
Arnar Þór Gunnarsson er leiðsögumaður hjá Af stað.

Fjallgöngur reyna á andlegu hliðina

Adda og Arnar segja að Af stað sé bæði ferðaskrifstofa og vefmiðill sem fjallar um útivist. „Af stað er stofnað af Tomasz Þór Verusyni og hóf í raun göngu sína sem vefmiðill árið 2018. Í dag erum við í grunninn sex, þrír karlar og þrjár konur, sem deilum leiðsögn, vöruþróun og öðrum tengdum verkefnum.“ Á vefinn Afstad skrifa þau reglulega fróðleiksmola og svara spurningum sem þau sjálf höfðu í upphafi útivistarferils þeirra. „Einnig skrifum við leiðarlýsingar en þær þjóna aðallega þeim tilgangi að gefa fólki hugmyndir að þægilegum fjöllum, fellum og leiðum í okkar nærumhverfi sem hægt er spreyta sig á þegar færi gefst,“ segja þau.

Ferðaskrifstofan býður svo upp á ferðir fyrir hópa, einstaklinga, byrjendur og lengra komna. „Árið 2022 munum við bjóða upp á aragrúa dagsferða, jöklaferða og námskeiða í bland við sérstakar ferðir erlendis og ýmislegt fleira. Einnig sérsníðum við gönguhópa að fyrirtækjum og starfsmannafélögum en mikill vöxtur hefur verið í því undanfarið.“

Adda og Arnar segja að þeirra sérhæfing felist sérstaklega í kennslu og ráðgjöf til þeirra sem eru að stíga sín fyrstu, önnur eða þriðju skref í útivist. „Við njótum þess öll hjá Af stað að safna að okkur fróðleik og reynslu sem við deilum með okkar fólki. Það er mikil ánægja fólgin í að sjá sömu andlitin aftur og aftur og þegar fólk kemur jafnvel sjálft með hugmyndir að verkefnum fyrir sig eða sína vinnustaði.“

Arnar segist fá mikla ánægju út úr því að sjá og heyra fólk gleðjast yfir því að ná markmiðum sínum og njóta náttúrufegurðar staða sem það hefði líklega ekki heimsótt á eigin vegum. „Ég tala eflaust fyrir fleiri þegar ég segi að staðir sem leiðsögumenn hafa kannski séð ítrekað, endurheimta gjarnan mikilfengleikann í hópi fólks sem upplifir þá í fyrsta sinn. Að hjálpa fólki að njóta öruggrar útivistar er óhemju gefandi, manni finnst maður vera að gera gagn þegar fólk kemur til manns og þakkar fyrir litla hluti sem reyndust vel, til dæmis ábendingar varðandi notkun göngustafa eða aðstoð við val á fatnaði. Í raun er fátt sjálfsagt á fjöllum og það gefur mér mikið að geta auðveldað fólki sína vegferð með því að deila einföldum fróðleik á jafningjagrundvelli.“

Adda tekur í sama streng.

„Það er magnað að fylgjast með fólki stíga sín fyrstu skref í fjallgöngum, jafnvel sitt allra fyrsta skref á fjalli og nokkrum mánuðum síðar ná þau markmiði sínu og standa á hæsta tindi landsins. Frá þessu fyrsta skrefi og þar til við náum því hæsta kennum við fólki grunninn í fjallamennsku eins og göngutækni, öndunartækni og hvernig best er að klæða sig fyrir þær aðstæður sem við tökumst á við. Veðrið á Íslandi getur verið óútreiknanlegt og því þurfum við að vera undir ýmislegt búin. Bæði hvað varðar útbúnað en ekki síður andlega. Fjallgöngur reyna heilmikið á andlegu hliðina okkar, á þrautseigju og seiglu. Þetta er stundum barátta við eigin hugsanir þegar mann langar ekkert meira en að gefast upp en yfirleitt er fátt annað í stöðunni en að setja undir sig hausinn og halda áfram. En að sjá sigurvímuna og glampann í augunum á þreyttum göngufélögum þegar komið er aftur í bílana er alltaf jafn skemmtilegt. Það er gaman að hjálpa fólki að ná markmiðum sínum, leiðbeina því og hvetja áfram. Kenna tæknina og veita því verkfærin sem þarf til þess að halda áfram og stefna lengra. Finna þegar fólk sigrast á sjálfu sér.“

Arnar fær heilmikið út úr því að kenna og sýna …
Arnar fær heilmikið út úr því að kenna og sýna fólki náttúru Íslands. Ljósmynd/Aðsend

Ekki hlaupa til og kaupa allt það dýrasta

Hvað þarf til þess að koma sér af stað?

„Til að koma sér af stað í útivist að sumarlagi þarf í raun ósköp fátt. Það fyrsta sem allir ættu þó að eignast eru góðir gönguskór. Þeir eru meðal hluta sem við getum því miður ekki fengið lánaða þar sem flestir skór laga sig að fæti eigandans og hafa tilhneigingu til að særa aðra fætur þrátt fyrir að stærðin sé rétt. Næst á listanum eru góð ullarnærföt en þau gagnast árið um kring. Annan fatnað, svo sem dún- eða gerviefnajakka fyrir einangrun og skeljakka fyrir vind- og vatnsheldi, má oft hreinlega fá lánaða hjá vinum og ættingjum í upphafi. Við fjárfestum svo í eigin búnaði eftir því sem fram líða stundir. Þriðja sem allir þurfa er einhverskonar bakpoki. Í fyrstu göngum sínum notast margir við einfalda og létta poka sem flestir eiga inni í skáp, en um leið og göngurnar lengjast er nauðsynlegt að huga að því að bakpokinn dreifi þyngd sinni og sitji vel á mjöðmum í stað þess að hanga þungt á herðum.“

Adda er sammála Arnari um að það sé alls ekki mikilvægast að eiga það dýrasta og flottasta í útivistarfatnaði. Það sem er hins vegar nauðsynlegt að gera til þess að koma sér af stað er að mæta á staðinn. „Skuldbindingin um að eiga að mæta á ákveðið bílastæði á ákveðnum tíma þar sem leiðsögumaður bíður þín og segir þér hvert þú átt að fara er líka eitthvað sem þarf til þess að koma sér af stað.“

Fleiri gönguleiðir en upp að Steini

Hvert mæli þið með að gönguþyrstir fari?

„Ég get mælt með til dæmis stóra hringnum í kringum Kerlingarfjöll fyrir bakpokaferðalanga (tveir til þrír dagar), að heimsækja Snæfellsjökul í miðnætursólinni er eitthvað sem allir ættu að upplifa, Hrútfjallstindar eru mikil en ótrúlega gefandi áskorun, en þeir sem eru komnir styttra ættu til dæmis að íhuga að eyða góðu sumarkvöldi á Móskarðshnúkum,“ segir Adda.

„Ég mæli alltaf með því að þeir sem eru komnir með nóg af því að ganga upp að Steini á Esjunni geri sér ferð á Kerhólakamb. Það er frábær leið sem býður upp á stórfenglegt út-sýni og er vandræðalega fáfarin þó bílastæðið sé í örfárra mínútna akstursfjarlægð frá stæðinu við Esjustofu. Leiðin er ögn meira krefjandi en upp að Steini en verðlaunin eru vel þess virði,“ segir Arnar og heldur áfram. „Fyrir þá sem eru lengra komnir mæli ég með uppáhalds tindunum mínum í nágrenninu, Heiðarhorni á Skarðsheiði og Syðstu-Súlu í Botnssúlum. Báðir tindarnir ná yfir 1.000 metra og innihalda örlítið brölt, en eru annars ótrúlega auðfarnir miðað við hversu stórfenglegt útsýni við fáum í verðlaun. Falleg sumarkvöld á toppi annars hvors gleymast seint.“

Fjallgöngur besta æfingin fyrir Hvannadalshnúk

Þarf maður að vera í ótrúlega góðu fjallgönguformi til þess að komast á Hvannadalshnúk?

„Til að ganga á Hvannadalshnúk er vissulega nauðsynlegt að vera í góðu líkamlegu formi. Langflestir geta þó þjálfað sig nægilega vel á þeim 17 vikum sem Hnúks-Áskorunin okkar og GG Sports stendur yfir, frá 22. janúar til 14. maí. Það er gömul saga og ný að besta þjálfunin fyrir fjallgöngur er einfaldlega að fara í sem flestar fjallgöngur en sé fólk að koma úr algjörri kyrrsetu er best að byrja varlega og leyfa líkamanum að venjast auknu álagi smám saman. Fyrstu vikurnar hjá okkur fara til dæmis í fræðslu sem síðan er nýtt jafnóðum á lægri fjöllum í kringum höfuðborgarsvæðið. Fjöllin hækka svo smám saman og göngurnar lengjast samhliða. Á síðustu vikunum fyrir brottför fá þátttakendur þjálfun í notkun jöklabúnaðar ásamt þjálfun í því hvernig skuli haga göngu í jöklalínu. Að öllu þessu undangengnu ætti ekkert að koma á óvart þegar á hólminn er komið og þátt-takendur geta einbeitt sér að því að njóta þeirrar mögnuðu upplifunar sem ganga á Hnúkinn óneitanlega er.

Þó Hvannadalshnúkur sé mikil áskorun er gott að nefna að gangan er ekki tæknilega flókin. Stóra málið er að hún er lengri en flestir hafa lagt á sig og reynir því mikið á þol og úthald, ekki síst andlegt. Það hefur þó sýnt sig að með góðum undirbúningi, á borð við þann sem við bjóðum upp á, er verkefnið á allra færi,“ segja Arnar og Adda.

Markmiðið er alltaf að komast heil heim.
Markmiðið er alltaf að komast heil heim. Ljósmynd/Aðsend

Markmiðið að komast heil heim

Hvaða hluti þarf maður að vera með þegar maður fer í göngu?

„Paprika eða mangó í nesti er algjört leynitrix á fjöllum,“ segir Adda.

„Ef við undanskiljum hið nokkuð augljósa á borð við viðeigandi fatnað og rötunartæki á borð við kort og áttavita auk GPS-tækja, þá eru eftirfarandi hlutir ómissandi í pokann: Hleðslubanki: Á tímum þegar síminn okkar er orðinn hluti af öryggistækjum á fjöllum er nauðsynlegt að vera viss um að hann nýtist okkur eins lengi og þarf. Margir símar hafa tilhneigingu til að slökkva á sér í miklum kulda en til að kveikja á þeim aftur nægir yfirleitt að koma þeim í hleðslu. Auk þess nota flestir símann sem myndavél og hver vill standa myndavélalaus á dýrðlegum tindi?“ Segja þau og bæta einnig við þremur atriðum sem eru algjörlega ómissandi:

„Göngustafir: kostir göngustafa eru ótvíræðir, sérstaklega í miklum halla eða á sleipum stígum. Jafnvel einn stafur er ólýsanlega mikið betri en enginn. Að geta bætt við sig auka „fæti“ gerir gæfumuninn í erfiðum aðstæðum auk þess sem álag á hné og liði minnkar stórlega sé stöfunum rétt beitt.

Höfuðljós: Við ættum alltaf að taka einhverskonar ljós með okkur á þeim árstíma sem dimmir á kvöldin og nóttunni, jafnvel þó ætlunin sé að vera kominn heim fyrir myrkur. Einföld höfuð- eða handljós þurfa ekki að kosta mikið en auka öryggi okkar til muna.

Síðast en alls ekki síst er Plan B: Allir ættu að pakka hugrekkinu til að breyta ferðaáætlun eða snúa við ef aðstæður eru ekki eins og reiknað var með. Þetta gildir jafnt á Helgafelli í Hafnarfirði sem og lengri jöklaferðum. Margir halda að markmið hverrar göngu sé fjallstoppurinn en það er misskilningur. Okkar stærsta og í raun eina markmið er að koma heil heim,“ segja þau að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert