Fjögur ferðaráð frá sérfræðingum

Vinsælt er að sigla til Santorini en hún er 100 …
Vinsælt er að sigla til Santorini en hún er 100 kílómetra norðan við Krít. Ljósmynd/Thinkstock

Sérfræðingar í ferðaiðnaðinum gáfu lesendum CNBC nokkur góð ráð um ferðalög. 

Til að ferðalagið gangi eins og í sögu

„Skipuleggðu ferðalagið líkt og um sögu væri að ræða, með byrjun, miðju og endi. Bókaðu til dæmis bestu hótelin við endalok ferðar þannig að ferðalagið endi á háu nótunum. Fyrir byrjunina og endinn skaltu skipuleggja ferðalagið þannig að allt gangi sem best. Sjáðu til þess að þú hafir bókað leiðina til og frá flugvellinum þannig að hún gangi sem best. Maður vill kannski ekki þurfa að læra á almenningssamgöngur í nýju og ókunnugu landi eftir langt flug,“ segir Sarah Groen, stofnandi lúxusferðafélagsins Bell & Bly Travel Design.

Veldu þér eyju af kostgæfni

„Ef þú ætlar þér að flakka um grísku eyjarnar skaltu hafa það í huga að Grikkir kjósa frekar að halda sig við eina eyju í stað þess að troða öllu inn í eina ferð. Þú getur valið eyju með því að hugsa í þemum. Santorini er með fallegt útsýni en strandir eru betri á Mykonos. Þá státa eyjur á borð við Tinos og Syros af mikilli matarmenningu og hótelin þar eru ódýrari en t.d. á Mykonos. Þá er mikið um að vera á Krít en þar þyrfti maður helst að vera á bíl,“ segir Anthony Grant, rithöfundur búsettur á Grikklandi.

Fljúga á morgnana

„Veldu flug árla morguns, það er ekki jafn þéttsetið. Þá skaltu forðast að taka síðasta flug dagsins, sérstaklega á vetrarmánuðum, til þess að draga úr hættu á að missa af tengiflugi eða að flug frestist eða seinki vegna veðurs. Hafðu alltaf handfarangur til þess að sleppa við að standa í röð og þurfa að bíða eftir farangri,“ segir Anna Brown hjá Expedia US.

Að ferðast með börn

„Gættu þess að skipuleggja alltaf smá tíma fyrir börnin að slaka á og gera ekki neitt. Þau vilja ekki alltaf vera á ferðinni. Stundum er nauðsynlegt að búa til tíma til þess að sitja, slaka á og leika sér með börnunum. Pakkaðu einhverju af leikföngum til þess að hafa ofan af fyrir þeim á meðan þú talar við fullorðna fólkið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert