Vinsælustu íslensku áfangastaðirnir 2021

Þetta voru vinsælustu áfangastaðirnir árið 2021.
Þetta voru vinsælustu áfangastaðirnir árið 2021. Samsett mynd

Íslendingar voru duglegir að ferðast innanlands á árinu 2021. Þá voru fjallgöngur sérlega vinsælar á meðal þeirra sem ekki skelltu sér í sólina í útlöndum. Norður- og Austurland voru sérlega vinsælir áfangastaðir sumarið 2021, enda var besta veðrið þar í júlí og ágúst. 

Stórurð

Einn vinsælasti viðkomustaður á landinu í ár var án efa Stórurð á Austurlandi. Það var greinilegt á Instagram sem og á öðrum samfélagsmiðlum að annar hver maður hefur nú komið að náttúruperlunni Stórurð. 

Stórurð.
Stórurð. Ljósmynd/Helgi Magnús Arngrímsson

Sky Lagoon

Enn og aftur voru heitar laugar gríðarlega vinsælar á meðal íslenskra og erlendra ferðamanna. Á þessu ári var Sky Lagoon í Kópavogi opnað og er strax á fyrsta árinu orðið einn vinsælasti baðstaður landsins. Þá skelltu margir sér norður í sólina og fóru í sjóböðin á Húsavík og jarðböðin í Mývatnssveit. 

Flateyri

Heitasta djammið var á Flateyri í Önundarfirði í sumar en þar opnaði Vagninn dyr sínar í sumarbyrjun. Margir lögðu leið sína í fjörðinn fagra, bæði til að njóta þess að vera fjarri ys og þys mannlífsins og einnig til að gæða sér á góðum mat. 

Flateyri.
Flateyri. mbl.is

Hótel Sigló

Hótel Sigló á Siglufirði er orðið að einu þéttbókaðasta hóteli landsins og eru nú að verða fáir sem eiga eftir að upplifa ævintýri á Siglufirði. Siglufjörður hefur verið vinsæll áfangastaður bæði að vetri til og á sumrin.

Hótel Sigló.
Hótel Sigló. mbl.is/Bjarni Helgason
mbl.is