Var bara miðaldra karl sem horfði á Netflix

Bjarni á Bláhnjúk.
Bjarni á Bláhnjúk. Ljósmynd/Aðsend

Fyrir fjórum árum var Bjarni Sv. Guðmundsson verkefnastjóri bara ósköp venjulegur miðaldra karlmaður sem fannst þægilegt að sitja í sófanum og horfa á Netflix. Að ganga upp að Steini var ekki auðvelt fyrir hann. Í kjölfar þess að hann fór fyrir hálfgerða tilviljun á fjallgöngunámskeið með vini sínum breyttist hins vegar lífið. Í dag er Bjarni fullur af enn meiri lífsgleði en áður, gengur á fjöll og stefnir á gönguferð til Nepal í vor. 

Bjarni er 51 árs og hefur sjaldan verið í betra formi, það hefur hins vegar ekki alltaf verið þannig. „Vinur minn spurði mig hvort ég vildi ekki koma á fjallgöngunámskeið eftir áramót fyrir um fjórum árum. Jú, jú, ég var alveg til í það. Ég var bara eins og einhver miðaldrakarl, feitur og í engu formi,“ segir Bjarni. Hann langaði alltaf til þess að byrja að hreyfa sig, byrjaði af og til í ræktinni eins og margir en skammtímahugsunin réði alltaf för. 

Lífið breyttist óvart

„Ég hef sagt það við Tomma hjá Af stað að þetta breytti lífi mínu bara óvart. Að fara á Hvannadalshnjúk um vorið hafði svo mikil áhrif á mig,“ segir Bjarni um áhrif námskeiðsins sem lauk með göngu á Hvannadalshnjúk. „Þetta breytir sjálfsmyndinni. Sjálfsmyndin tekur kipp og maður getur og gerir í staðinn fyrir að vera einhver miðaldra karl upp í sófa að horfa á Netflix.“

Félagarnir á Hvannadalshnjúki.
Félagarnir á Hvannadalshnjúki. Ljósmynd/Aðsend
Skýjum ofar á Hvannadalshnjúki.
Skýjum ofar á Hvannadalshnjúki. Ljósmynd/Aðsend

Þegar Bjarni byrjaði á námskeiðinu eftir áramót fannst honum ekki sjálfsagt að hann gæti toppað Hvannadalshnjúk um vorið. „Ég efaðist um það af því þarna var ég ekki í góðu formi. Ég notaði Esjuna mjög mikið til að æfa mig. Bara það að fara upp að Steini á þessum tíma var fjarlægt markmið. Tommi sagði við okkur að við mættum fara með ef við næðum að fara upp að Steini á klukkutíma. Ég var að rembast við það í aðdragandanum og þá hitti ég gamlan mann upp á Steini. Hann var rúmlega sjötugur og hann var að fara í einhverja göngu á Grænlandi. Hann sagði að sá sem leiddi ferðina hefði sagt að hann mætti ekki koma með nema hann færi upp að Steini á rúmlega klukkutíma. Hann var svo glaður og ánægður og spjallaði við mig af fyrra bragði. Þetta var svona áminning að ef þessi karl gæti þetta þá hlyti ég að geta þetta. Það hvatti mig áfram,“ segir Bjarni og sat það sérstaklega í honum hvað maðurinn var glaður. 

Sumarganga að Grænahrygg.
Sumarganga að Grænahrygg. Ljósmynd/Aðsend

Er alltaf með jákvæð markmið

Auk þess að öðlast nýtt áhugamál hefur Bjarni eignast nýjan vinahóp. „Frá því að þetta var fyrir um fjórum árum síðan hef ég farið með þeim hjá Af stað í alveg milljón ferðir. Þetta er allt ótrúlega flott og skemmtilegt fólk. Maður er búinn að læra ótrúlega mikið og líka uppgötva landið sitt. Þetta er bara of gott til þess að vera satt,“ segir hann. 

Áttu þér uppáhaldsgönguleiðir?

„Landmannalaugar og Kerlingarfjöll standa upp úr sem göngusvæði. Þetta eru fallegustu svæði á jörðinni. Ég fór með þeim í Kerlingarfjöll á þrjá toppa í sumar. Þetta er svo stórkostlegt svæði að það hálfa væri nóg,“ segir Bjarni. 

Gengið í Landmannalaugum.
Gengið í Landmannalaugum. Ljósmynd/Aðsend
Kerlingarfjöll.
Kerlingarfjöll. Ljósmynd/Aðsend

„Ég var alltaf hress í eðli mínu en ég held að ég sé miklu hressari núna. Ég geri miklu meira en ég gerði. Það hjálpar sérstaklega í þessu skammdegi. Þetta er bara geðlyf, það er ekkert flóknara. Ég er svona frekar aktívur að eðlisfari, í vinnu og allt þetta. Ég verð bilaður ef ég er ekki að gera eitthvað núna. Áður var maður kannski meira að deyfa sig með því að fara upp í sófa eða fara út í sjoppu að kaupa bingókúlur. Það sem mér finnst merkilegast er að ég á alltaf markmið sem ég er að vinna að. Núna var ég að koma úr Crossfit í Crossfit Kötlu. Ég er að fara að hlaupa í vor, ég er að æfa mig fyrir það. Ég er að fara með Tomma og þeim til Nepal í apríl, ég er að æfa mig fyrir það. Ég er að fara hlaupa uppi á hálendi í sumar. Lífið mitt er svo jákvætt markmiðadrifið. Það snýst ekki bara allt um vinnuna. Áður fyrr voru markmiðin vinnan eða þegar börnin voru yngri að ala þau upp,“ segir Bjarni. 

Tommi hjá Af stað fer yfir gönguplan. Bjarni hefur farið …
Tommi hjá Af stað fer yfir gönguplan. Bjarni hefur farið í margar ferðir með Tomma. Ljósmynd/Aðsend

Fjallgöngur eru yngingarmeðal

Bjarni er búinn að læra að klæða sig. Í stað þess að fara í úlpu veit hann að hann á að vera í nokkrum lögum svo hann getur farið í og úr fötum. Hann er einnig búinn að læra að næra sig. „Ég er búinn að missa tæp 18 kíló án þess að vera í megrun. Samt er ég sterkur. Í heildina er ég búinn að læra nýjan lífstíl. Engin kvöð, ekkert erfitt eða leiðinlegt. Þetta er bara geggjað. Maður er bara opna meira og meira á allskonar hluti. Þetta er yngingarmeðal.“

Þórsmörk snemma morguns.
Þórsmörk snemma morguns. Ljósmynd/Aðsend

Bjarni finnur mun á meltingunni sinni eftir að hann byrjaði að ganga á fjöll. „Þegar þú ert að labba ertu að nudda meltingarveginn. Þetta er bara þekkt að ef þú hreyfir þig á aktívan hátt eins og að fara í fjallgöngu þá er meltingin öll betri. Þú getur bara rétt ímyndað þér að ef þú situr í sófanum og borðar eitthvað á móti því að fara út og hreyfa þig. Þetta er tvennt ólíkt.“

Bjarni mælir með því að gefa fjallgöngum séns og skrá sig á fjallgöngunámskeið. Hann segir mikið meira en nokkrar gönguferðir fylgja í pakkanum. „Maður lærir og verður bara svo miklu hressari, skemmtilegri og heilbrigðari og kynnist líka fleira fólki,“ segir Bjarni að lokum. 

Á Snæfellsjökli.
Á Snæfellsjökli. Ljósmynd/Aðsend
Á Sólheimajökli.
Á Sólheimajökli. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert