Þessar stjörnur heimsóttu Ísland 2021

Emma Watson, Kaley Cuoco, Orlando Bloom og Clayton Echard komu …
Emma Watson, Kaley Cuoco, Orlando Bloom og Clayton Echard komu hingað til lands árið 2021. Samsett mynd

Þótt knattspyrnumaðurinn fyrrverandi David Beckham hafi ekki komið í sína árlegu veiðiferð til Íslands í sumar kom fjöldi annarra stjarna til landsins á síðasta ári. Ísland togar í stjörnurnar á öllum árstíðum, sama hvort það er blindbylur eða sól. 

Stórleikarinn Orlando Bloom kom til að mynda hingað til lands í maí og skellti sér á snjóbretti fyrir norðan. Hann fór einnig í skoðunarferð í Lofthelli í Mývatnssveit.

Á svipuðum tíma og Bloom brunaði niður brekkurnar var breska sjónvarpsstjarnan Trinny Woodall einnig á Tröllaskaga í skíðaferð. 

Mánaðamótin júní og júlí kom hingað til lands netflixstjarnan Tan France og eiginmaður hans Rob. Hjónin ferðuðust mikið um landið og urðu alveg heillaðir af Íslandi.

Breski sjónvarpskokkurinn Gordon Ramsey lagði einnig leið sína til Íslands í júlí en hann er mikill Íslandsvinur og ekki líða mörg ár á milli Íslandsferða hans. 

Fjöldi leikara kom einnig hingað til lands til að undirbúa tökur eða fara í tökur á stórum kvikmyndum. Þar á meðal voru Jake Gyllenhaal og Vanessa Kirby sem voru hér við undirbúning á tökum á kvikmyndinni Suddenly.

Í júlí sást svo til Emmu Watson og Michelle Yeoh en þær fóru meðal annars á veitingastaðinn Apótekið og keypti Watson listaverk af Birnu Maríu. Yeoh var hér við tökur á netflixþáttunum Witcher: Blood Original.

Á haustmánuðum komu til landsins Harry Potter-leikararnir James og Oliver Phelps ásamt Bonnie Wright en þau voru hér við tökur á ferðaþáttum.

Í nóvember kom hingað fjölmennt tökulið fyrir tökur á 26. þáttaröð The Bachelor. Í þeim hópi var meðal annars Clayton Echard, piparsveinn þáttaraðarinnar.

Greys Anatomy-leikarinn Jesse Williams gerði sér einnig ferð til Íslands í nóvember og fór hann meðal annars á tónleika Bjarkar Guðmundsdóttur í Hörpu og í Sky Lagoon. 

Tökur á annarri þáttaröð af þáttunum Flight Attendant fóru svo hér fram í desember. Í þeim tökum var aðalleikkonan Kaley Cuoco og hreifst hún sannarlega af Íslandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert