Fór smituð um borð í flugvél

Konan játaði í miðju flugi að vera jákvæð fyrir kórónuveirunni.
Konan játaði í miðju flugi að vera jákvæð fyrir kórónuveirunni. Ljósmynd/JUNG YEON-JE

Flugfarþegi segir farir sínar ekki sléttar af ferðalagi sem hann var nýverið á eftir að hann rak augun í skilaboð sem farþegi í sætaröðinni fyrir framan hann sendi á vini og vandamenn.

„Konan sem sat fyrir framan mig í fluginu var að senda snapchat-skilaboð á vini sína og játaði að hún væri smituð af Covid,“ sagði farþeginn þegar hann deildi sögu sinni á tjáskiptamiðlinum  Reddit.

Samkvæmt frétt frá Daily Star náðist mynd af skilaboðunum sem konan sendi og voru þau á þessa leið: „Við erum með Covid – suss,“ stóð í skilaboðunum og bað konan móttakendur skilaboðanna að halda smitinu leyndu.  

„Hún sagðist hafa breytt fluginu og ákveðið að fara heim degi áður en planið var út af veikindunum. Er þetta bara löglegt?“ spurði farþeginn og sagðist hafa verið skítsmeykur um að smitast af konunni í fluginu. Notendur Reddit-miðilsins urðu margir hverjir mjög hissa á framferði konunnar og skildu ekkert í því að farþeginn skyldi ekki klaga hana.

„Þú hefðir átt að segja eitthvað. Klaga í flugfreyjurnar og gera eitthvað í málunum,“ sagði einn en það var orðið of seint að fara að hans ráðum. „Fólk sem veit að það er með Covid og gerir engar ráðstafanir, það er svo mikið að hjá því fólki. Hugsar bara um sjálft sig,“ sagði annar og blótaði konunni í sand og ösku.  

Öðrum notendum fannst farþeginn gera of mikið mál úr þessu og voru vissir um að konan hefði einungis verið að grínast með þessum skilaboðum.

„Fólk vill ekki missa af fluginu sínu eða festast einhvers staðar út af Covid,“ benti einn notandinn á. „Ég sakna þeirra daga þegar fólk hugsaði bara um sín eigin mál, ekki annarra,“ sagði annar. „Æ, það eru hvort sem er allir smitaðir þessa dagana.“

mbl.is