Dagatalið löngu orðið fullt

Að ná tindi Hvannadalshnjúk ásamt fjölda kvenna var hápunktur ársins …
Að ná tindi Hvannadalshnjúk ásamt fjölda kvenna var hápunktur ársins hjá Edith Gunnarsdóttur.

Edith Gunnarsdóttir jógakennari og fjallaleiðsögumaður byrjaði að stunda fjallgöngur með móður sinni fyrir mörgum árum. Þær mæðgur smituðust af fjallabakteríunni og eftir fyrstu fjallgönguna var ekki aftur snúið. Í dag blandar hún saman fjallgöngum og jóga sem hún segir skapa hið fullkomna jafnvægi. 

Edith er löngu búin að skipuleggja ferðaárið sitt en hún ætlar meðal annars í jógaferð í Þórsmörk, dagsferð á Grænahrygg og gönguskíðaferð á Vatnajökli.

Hvenær heillaðist þú fyrst af fjallgöngum?

„Gaman að segja frá því að ég byrjaði í fjallgöngum með mömmu. Fyrir mörgum árum þá ákvað saumaklúbburinn minn að fara Fimmvörðuhálsinn með FÍ og mamma fékk að fara með. Engin af okkur hafði verið í útivist af einhverju ráði. Eftir ferðina þróaðist það þannig að engin í saumaklúbbnum fékk fjallabakteríuna nema ég og mamma og þá var ekki aftur snúið, ég og mamma vorum óstöðvandi og skráðum okkur í hvert fjallaverkefni af fætur öðrum hjá FÍ og toppuðum við hæstu fjöll og jökla landsins saman. Mér þykir ótrúlega vænt um að hafa byrjað þetta áhugamál með mömmu, við erum búnar að upplifa svo brjálæðislega skemmtilegan tíma saman, erum ennþá að bæta í minningarbankann og það er ómetanlegt. Það er aldrei of seint að byrja og flest geta stundað fjallgöngur.“

Á tindi Snæfellsjökuls.
Á tindi Snæfellsjökuls.

Hvað hefur það gefið þér að ganga á fjöll?

„Fjallgöngur gera lífið einfaldlega betra. Veita manni mikið frelsi, vellíðan og ánægju og ég tala nú ekki um hvað það er heilsueflandi. Maður á oftast góða stundir á fjöllum og kynnist frábæru fólki. Ég hef eignast ómetanlegar vinkonur sem vinna einnig með mér hjá Ferðafélaginu. Síðan eru margir úr fjölskyldunni að stunda fjallgöngur og úr varð að við stofnuðum hópinn Fjallafjölskyldan og við skipuleggjum saman ferðir á hverju ári um fjöll og firnindi.“

Hvenær fórstu fyrst að blanda saman jóga/slökun og fjallgöngum?

„Þegar ég fór í fyrsta jóganámið mitt fékk ég þessa hugmynd um hvað það væri frábært að blanda saman jóga og fjallgöngum. Þetta er svona eins og ying og yang, fullkomið jafnvægi.
Ég hef sjálf reynslu af því að vera í mjög slæmi formi. Ég lenti í bílveltu sem hafði þær afleiðingar að stoðkerfið mitt hrundi alveg. Ég var með brjósklos bæði í bak og hálsi, klemmdar taugar, mikla verki, komin með vefjagigt og svefninn í rugli. En með því að stunda jóga og fjallgöngur náði ég frábærum bata og hef aldrei verið í betra formi. Ég horfi oft til baka og hugsa hversu magnað þetta ferðalag er búið að vera. Að vera verkjalaus, ekkert brjósklos, þurfa ekki að taka verkjalyf og sofa eins og barn. Ég tala nú ekki um að fá tækifæri til að vinna við áhugamálin mín, fjallgöngur og jóga það eru forréttindi. Mér finnst ég aldrei vera í vinnunni.“

Í Stóru Laxárgljúfrum.
Í Stóru Laxárgljúfrum.

Hverju bætir það við gönguna að stunda jóga eða slökun í fjallgöngum?

„Við þurfum að hlúa að andlegri vellíðan alveg eins og líkamlegri. Við erum alltaf að, en gefum okkur ekki tíma til að vera og finna og upplifa kyrrðina. Að vera hér og nú í því sem við erum að gera hverju sinni. Oft er talað um að við séum ekki „Human being heldur Human doing“ og því þurfum við að breyta. Líf okkar samanstendur af hugsunum og hugsanir verða að gjörðum. Þú verður það sem þú hugsar, þess vegna skiptir miklu máli að við séum meðvituð um hugsanir okkar og temjum okkur aðferðir til að losna undan erfiðum hugsunum sem hafa áhrif á líðan okkar og geta valdið streitu og kvíða. Jóga hjálpar okkur að ná tökum á huganum og þjálfar okkur í að vera hér og nú. Það er t.d tvennt ólík að stunda jóga og hugleiðslu úti en inni, þegar maður er úti þá finnur maður svo mikinn kraft úr náttúrunni. Þess vegna er er alveg magnað að staldra við í nátttúrunni og gera jóga, það verður svo miklu meiri tenging og kraftur. Ég tala nú ekki um hvað það er róandi að staldra við og hlusta á náttúruna. Jóga snýst ekki um liðleika eða að komast í fullkomnar jógastöður heldur ferðalagið alveg eins og með göngurnar. Með því að stunda fjallgöngur og jóga erum við að hlúa að andlegri og líkamlegri vellíðan og það hjálpar okkur að halda jafnvægi.“

Við upptök Rauðufossakvíslar.
Við upptök Rauðufossakvíslar.

Hvaða verkefni ert þú með á vegum Ferðafélagsins í ár?

„Ég er með tvö fjallaverkefni: FÍ Heilsugöngur og FÍ Göngur og gaman. Heilsugöngur hefur það markmið að bæta andlega og líkamlega heilsu, draga úr streitu, auka þolið, fræðast um útivist og þar erum við að njóta en ekki þjóta. Við göngum einu sinni í viku og förum síðan einu sinni í viku í jóga nidra djúpslökun. Það verkefni er frábært fyrir byrjendur en einnig lengra koma sem þurfa jafnvel að hægja aðeins á sér og draga úr streitu. Það getur skipt öllu máli að vera í svona lokuðu verkefni þegar maður er nýr í útivist, meiri líkur á að maður fari út að ganga og það skiptir ekki máli hvernig veðrið er, aðhald og fræðsla og það skiptir máli að fara ekki ekki of hratt af stað í byrjun. Ég er með frábært teymi með mér sem hafa öll mikla reynslu á þessu sviði.

Göngur og gaman hefur það markmið að ganga á ákveðnum svæðum, fræðast um land og sögu. Það er mjög áhugavert og skemmtilegt að vera alltaf að ganga á ákveðnu svæði, þátttakendur fara að þekkja svæðið betur og kynnast jafnvel gönguleiðum sem þau höfðu ekki hugmynd um. Þetta verkefni flokkast sem meðal erfitt fyrir fólk með einhverja reynslu á fjallgöngum, alls ekki erfið fjöll og megináherslan er að hafa gaman og njóta. Við erum á tveimur svæðum þessa vorönnina. Ölfus og Grímsnes og við endum það verkefni á ævintýralegu tindahoppi í Vestmannaeyjum þar sem markmiðið er að ganga á alla 7 tindana. Síðan er það Hvalfjörður og Kjósin og við endum það verkefni á því að ganga hina sívinsælu og skemmtilegu þjóðleið um Síldarmannagötur sem endar á grillveislu í Skorradal.“

Hvernig ferðalögum ert þú hrifnust af?

„Það sem stendur alltaf upp úr eru ferðirnar með með Fjallafjölskyldunni minni, en fast á eftir eru það ferðalög með allt á bakinu og sofa í tjaldi. En núna hafa utanbrautar gönguskíðin verið að koma sterkt inn, ganga með púlku og sofa í tjaldi yfir vetrartímann. En síðan þykir mér alltaf ofur vænt um jógaferðirnar. Það er eiginlega ekki hægt að velja, þetta er allt svo skemmtilegt, það er bara alltaf svo gaman að fara út að „leika“ hvort sem það er með þátttakendum í fjallaverkefnunum mínum, sumarleyfisferðum eða einkaferðir með fjölskyldu og vinum.“

Gong tónheilun í Ingólfsfirði.
Gong tónheilun í Ingólfsfirði.

Hvert var eftirminnilegasta ferðalagið sem þú fórst í á síðasta ári?

„Margar ferðir standa upp úr og erfitt að gera upp á milli. En styrktargangan á „Kvennadalshnúk“ sem Sirrý stóð fyrir í maí á síðasta ári gleymist seint. Mér var boðið að vera ein af mörgum leiðsögukonum sem fóru með flottan hóp kvenna á hæsta tind Íslands. Magnað að vera ein af 126 konum sem toppuðu Kvennadalshnúk þennan dag, þvílíkur kraftur og gleði sem einkenndi þessa ferð. Þegar margar konur koma saman þá gerast magnaðir hlutir. Þar fyrir utan standa upp úr ferðir með Fjallafjölskyldunni minni bæði á Snæfellsjökul, Víknaslóðir og Vestfirði.“

Ertu byrjuð að plana ferðalög ársins 2022?

„Dagatalið er löngu orðið fullt fyrir árið 2022. Þegar fjallaverkefnin hjá FÍ klárast þá taka sumarleyfisferðirnar við, Heilsu- og göngudagar á Ströndum, jógaferð í Þórsmörk, dagsferð á Grænahrygg og dagsferð um Stóru Laxárgljúfur sem eru ein stórfenglegustu gljúfur landsins. En þegar maður vinnur við leiðsögn er nauðsynlegt að skipuleggja ferðir á þá staði sem manni langar að fara sjálfur. Þar stefni ég á gönguskíðaferð á Vatnajökli, Strútsstíg og Hornstrandir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert