Brotna niður í návist fegurðar

Fæðing Venusar vekur hjá fólki miklar tilfinningar. Góðar og slæmar.
Fæðing Venusar vekur hjá fólki miklar tilfinningar. Góðar og slæmar. Unsplash.com/Elena Popova

Sveittir lófar, ör hjartsláttur og óþægindi í maga eru einkenni sem margir ferðamenn hafa fundið fyrir þegar þeir heimsækja Flórens. Fegurðin er svo yfirþyrmandi að fólk finnur fyrir líkamlegum einkennum.

„Stendhal-heilkennið er sagt vera sálrænt ástand sem ferðamenn hafa upplifað í Flórens. Heilkennið er nefnt í höfuðið á rithöfundinum Marie-Henri Beyle, sem skrifaði undir nafninu Stendhal. Árið 1817 lýsti hún ferðalagi sínu til Flórens. „Ég var í eins konar alsæluástandi ... Svo þyrmdi yfir mig og hjartslátturinn varð afar hraður ... lífsins brunnur innra með mér þornaði upp og ég gekk um með stöðuga hræðslu um að falla til jarðar,““ segir í umfjöllun BBC.

Heilkennið var svo nánar rannsakað með klínískum hætti af geðlækninum Graziellu Magherini árið 1989. Hún rannsakaði 106 sjúklinga, allt ferðamenn, sem upplifðu svima, hjartsláttatruflanir og ofskynjanir eftir að hafa skoðað listaverkin í borginni. „Þetta voru eins konar ofsahræðsluköst vegna þessara miklu listaverka,“ sagði Magherini árið 2019.

Flórensbúar eru enn að sjá tilvik um þetta heilkenni og er þetta orðin hálfgerð goðsögn þar í bæ. Alltaf þegar svona tilvik koma upp ratar það í fréttirnar. 

„Það koma um það bil tíu til tuttugu slík tilvik á ári. Þetta er fólk sem er mjög viðkvæmt og hefur kannski verið að bíða alla sína ævi eftir að koma til Ítalíu. Þessi frægustu listaverk eins og til dæmis Fæðing Venusar eftir Botticelli eru yfirþyrmandi. Margir missa fótanna. Ég hef oft séð fólk byrja að gráta fyrir framan þessi verk,“ segir Simonetta Brandolini, formaður samtakanna Vina Flórens.

„Fæðing Venusar er sérstaklega áhrifamikið. Það hefur að minnsta kosti einn fengið flogakast fyrir framan verkið og annar fékk hjartaáfall,“ segir Eike Schmidt, stjórnandi Uffizi-safnsins.

Ekki eru þó allir sammála um ágæti Stendhal-heilkennisins, sem ekki er viðurkennt af læknasamtökum. Margir hafa bent á að aðrir þættir gætu haft áhrif á líðan fólks á söfnum eins og til dæmis mannmergð og innilokunarkennd og valdið vanlíðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert