Ferðast um Suður-Spán á gömlum sjúkrabíl

Hjónin Íris og Árni kynntust á Svínafellsjökli.
Hjónin Íris og Árni kynntust á Svínafellsjökli. Ljósmynd/Aðsend

Hjónin og leiðsögumennirnir Árni Stefán Haldorsen og Íris Ragnarsdóttir Pedersen eru miklar fjallageitur. Bæði brenna þau fyrir útivist og ævintýri og segja þau að fjallaklifur hafi verið þeirra sameiningartákn síðan þau kynntust og hófu búskap saman. Fyrstu kynni Árna og Írisar áttu sér stað í Skaftafelli þegar þau unnu sem leiðsögumenn hjá fyrirtækinu Íslenskir fjallaleiðsögumenn árið 2015. 

„Það var ekki aftur snúið,“ segir Árni. 

„Við kynntumst eiginlega á Svínafellsjökli,“ bætir Íris við. 

„Já, við áttum mjög gott augnablik saman uppi á Svínafellsjökli,“ segir Árni en hvorugt þeirra fer nánar út í þá sálma.

Hjónin hafa nánast verið óaðskilin síðan og byggðu sér hús í Svínfelli í Öræfum árið 2018, sem gerir sögu þeirra enn skemmtilegri.

„Við búum eiginlega bara í mekka fjallamennskunnar á Íslandi,“ segir Íris. „Þá er auðveldara að vita hvernig aðstæður eru og svona. Við erum farin að þekkja þetta eins og lófann á okkur. Það er alltaf jafn gaman að geta kynnt fólki fyrir þessu svæði,“ segir hún jafnframt.

Klifurkettirnir í El Chorro á Suður-Spáni.
Klifurkettirnir í El Chorro á Suður-Spáni. Ljósmynd/Aðsend

Tindaborg í Öræfum

Þau Árni og Íris þekkja það vel að ganga og klifra fjöll. Sú iðja hefur lengi verið þeirra ær og kýr og ákváðu þau bæði að búa sér til starfsvettvang út frá aðal áhugamálum sínum. Hjónin reka fjallaleiðsögufyrirtækið Tindaborg sem starfrækt er í Svínafelli í Öræfum.

„Við vinnum bæði sem leiðsögumenn á jöklum og fjöllum og kennum líka mikið á okkar vegum og í Fjallamennskunámi FAS. Tindaborg er í rauninni bara lítið ferðaþjónustufyrirtæki sem við rekum saman og bjóðum upp á jöklagöngur og ísklifur og allt mögulegt,“ segir Árni.

„Við erum með námskeið fyrir almenning sem vilja læra sitthvað um jöklaferðir eða fjallamennsku almennt. Tindaborg er ekki endilega hugsað fyrir erlenda ferðamenn heldur líka fyrir fólk sem vill gera eitthvað fyrir sig og læra meira um göngur, fjallamennsku og klifur. Þetta er í rauninni frábær vettvangur fyrir okkur til að bjóða upp á allt það sem okkur þykir skemmtilegt að gera,“ segir Íris og hlær. 

Ferðaþjónustufyrirtækið Tindaborg sérhæfir sig í alls kyns jökla- og fjallaferðum en einnig býður fyrirtækið upp á undirbúningsnámskeið með margvíslegum sniðum, bæði fyrir grunn og framhald. „Í krafti smæðarinnar er hægt að gera svo margt skemmtilegt og fjölbreyttara en stærri ferðaþjónustufyrirtæki hafa svigrúm til að bjóða upp á,“ segir Árni. 

Íris að klifra Parley 6a+ rétt utan við Calp.
Íris að klifra Parley 6a+ rétt utan við Calp. Ljósmynd/Aðsend

Ferðast um Suður-Spán á sjúkrabíl

Árni og Íris hafa farið í fjöldamargar klifurferðir bæði hérlendis og erlendis. Um þessar mundir eru þau stödd á Spáni þar sem þau berja ævintýraleg fjalllendi augum á suðrænum slóðum. Ólíkt því sem þau eru vön hér heima. Þau segja upplifunina að klífa fjöll í heitu loftslagi vera stórkostlega en ekkert jafnist þó á við heimaslóðirnar.   

„Við erum núna í þorpi sem heitir El Chorro og er staðsett rétt fyrir norðan Málaga á Suður-Spáni,“ segir Árni. 

Í smábænum El Chorro búa um það bil 500 manns miðað við tölur frá alþjóðlegu upplýsingaveitunni Cybo. Alls eru 238 karlkyns einstaklingar skráðir til heimilis í El Chorro um þessar mundir og 235 kvenkyns. Smábærinn El Chorro hefur lengi vel verið þekktur fyrir stórbrotna náttúru og verið einn vinsælasti staður Spánar til fjalla- og klettaklifurs. Þá hefur náttúran einnig verið mikið aðdráttarafl fyrir göngufólk, fjallahjólafólk og annað útivistarfólk sem þyrstir í ævintýri og adrenalín. 

Húsbíll þeirra Írisar og Árna er gamall sjúkrabíll sem gerður …
Húsbíll þeirra Írisar og Árna er gamall sjúkrabíll sem gerður hefur verið upp. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta er í fyrsta skipti sem við förum í svona húsbílaferð en við keyptum okkur gamlan sjúkrabíl sem við breyttum í húsbíl á fjórum dögum rétt fyrir þessa ferð. Þetta voru svona „last-minute“ kaup hjá okkur um mánaðarmótin október/nóvember þannig það þurfti að hafa hraðar hendur,“ segir Árni en þau Íris hafa dvalið um nokkurt skeið í gamla, nýuppgerða sjúkrabílnum á fallegu tjaldsvæði sem El Chorro býður upp á. „Við ætluðum bara að vera á jeppa og með tjald en svo duttum við inn á þennan sjúkrabíl og létum þar með slag standa,“ útskýrir hann.  

„Þetta ferðalag hefur einkennst svolítið af sportklifri. Þá erum við að klifra meira í klettum þar sem búið er að koma fyrir járnboltum sem svona maður frstir sig í á leiðinni og notar sem tryggingu. Sportklifurleiðir eru oft 10-40 metrar þannig við erum að klifra kannski 30 metra upp og koma svo aftur niður,“ segir Íris.

„Við höfum líka tekið svona fimm til sex stærri fjölspannaleiðir sem eru hærri leiðir,“ bætir Árni við. „Þær eru allt að 300 metra langar og því þarf að klifra þær í mörgum spönnum. Ein spönn er því á milli stansa, eða á milli stoppa,“ útskýra þau.

Árni vílar hvorki hæð né lengd fyrir sér.
Árni vílar hvorki hæð né lengd fyrir sér. Ljósmynd/Aðsend

Búnaðurinn meira virði en sjúkrabílinn 

„Við ætlum að koma við hjá vini okkar sem er alþjóðlegur fjallaleiðsögumaður og fara á fjallanámskeið hjá honum núna í ferðinni. Þá verðum við ekki lengur í veðursældinni, þá tekur við meira vetrarklifur, eins og við þekkjum vel,“ segir Íris. 

Vinur þeirra Árna og Írisar heitir Roger Matorell og er búsettur við Pýreneafjöllin á Spáni. Fjalllendið er mitt á milli landamæra Spánar og Frakklands og skilur fjallagarðurinn því löndin að. Veruleg snjókoma þekkist vel við fjalllendið enda um mikla hæð að ræða.

„Við höfðum samband við Roger og báðum hann um að setja eitthvað skemmtilegt saman fyrir okkur í snjónum og ísnum. Við sjáum það fyrir okkur að fara á fjallaskíði líka þannig við erum með smekkfullan bíl af alls konar búnaði. Enda ætluðum við okkur að fá mikið úr þessari ferð,“ segir Íris. „Allur þessi búnaður er sennilega mun meira virði en sjúkrabíllinn sjálfur,“ segir hún og hlær.

Hjónakornin föst í línum.
Hjónakornin föst í línum. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta er mjög frjálslegur ferðamáti,“ segir Árni. „Það er oft svo skemmtilegt að vera ekki með neitt sérstakt plan og geta bara stoppað þar sem maður vill þegar maður vill. Og líka þegar maður sér eitthvað fallegt eða skemmtilegt.“

Ferðalagið var lítillega planað hjá Írisi og Árna en þó höfðu þau haft það í huga að þessi tími ársins væri hentugastur fyrir þau til að leggja land undir fót. 

„Þetta var planað aðallega út frá vinnunum okkar,“ segir Árni.

Já, og aðallega út frá veðrinu. Í nóvember, desember og janúar er oft leiðinlegt veður heima á Íslandi. Veðurfarslega var þetta því hentugast fyrir okkur því vinnan okkar fer oftast fram utandyra,“ segir Íris. „Svo áttum við líka alltaf eftir að fara í brúðkaupsferð!“

Íris og Árni giftu sig í miðjum heimsfaraldri en brúðkaupið fór fram í hálfgerðri kyrrþey sökum þess. 

„Þetta er því eiginlega bara svona hálfgerð brúðkaupsferð. Við giftum okkur fyrir einu og hálfu ári síðan og höfum ekki getað gert neitt útaf Covid. Það er því bara fínt að geta slegið tvær flugur í einu höggi og fara í fjallamennsku brúðkaupsferð á sjúkrabílnum,“ segir Íris og þau Árni hlæja dátt að lokum.  

mbl.is