Fljúgandi fugl í farþegarýminu

Fuglinn komst til Bandaríkjanna frá Belgíu á mettíma líklegast.
Fuglinn komst til Bandaríkjanna frá Belgíu á mettíma líklegast. Ljósmynd/Getty images

Tiktoknotandinn Brooke Frazier deildi óvenjulegu myndbandi úr flugvél sem hún var farþegi í á dögunum. Á myndbandinu má sjá lítinn fugl fljúga um farþegarýmið en með einhverjum undraverðum hætti lokaðist fuglinn inni í flugvélinni áður en hún fór í loftið. 

Brooke Frazier var stödd í flugi á leið sinni frá Belgíu til Bandaríkjanna fyrr í vikunni þegar fuglinn flaug yfir hausamótunum á henni. Fuglinn gerði skyndilega vart við sig en hvorki farþegar né áhafnarmeðlimir höfðu tekið eftir honum fyrr en langt var liðið á flugferðina sem tók átta klukkustundir. 

„Þessi litli vinur stökk um borð í Belgíu og lagði leið sína til Bandaríkjanna,“ skrifaði Fraizer við myndbandið og sagði jafnframt að fuglinn hefði orðið frekar órólegur þegar leið á.

Fraizer hefur fengið mikil viðbrögð við myndbandinu. Það að hafa fugl fljúgandi um allt er ekki óskastaða margra flugfarþega. Fréttamiðillinn Daily Star greindi frá.

„Vonandi var hann bara með vegabréfið sitt klárt,“ skrifaði einn en Fraizer fullvissaði tiktoknotendur um að fuglinum væri vel borgið. Honum hefði verið sleppt lausum um leið og flugvélin var opnuð og hann flogið út í frelsið.

@totallychillfemale

lil birdy hopped on in belgium, getting off in the US but in the mean time he going crazy

♬ original sound - jwfrag
mbl.is