Borgin þar sem þú færð ekkert kjöt

Indland státar af fjölbreyttri matarmenningu þar sem grænmetisréttir eru hvað …
Indland státar af fjölbreyttri matarmenningu þar sem grænmetisréttir eru hvað vinsælastir. Unsplash/Ditta

Varanasi á Indlandi er ein helgasta borg Indlands þar sem hindúatrú er ríkjandi. Borgin hefur ákveðna sérstöðu þar sem hvergi er boðið upp á kjötrétti. Indverski guðinn Shiva er sagður hafa stofnað borgina Varanasi. Hann var talinn grænkeri og hafa íbúar borgarinnar því fylgt ströngu grænmetismataræði. 

„Allir í fjölskyldunni hafa verið grænmetisætur svo kynslóðum skiptir. Við drekkum ekki einu sinni vatn á heimili þar sem egg eru borðuð,“ segir einn íbúi Varanasi í viðtali við pistlahöfund BBC.

Áður fyrr gátu ferðamenn pantað kjötrétti á veitingastöðum í Varanasi en árið 2019 bönnuðu yfirvöld sölu og neyslu á kjötafurðum innan 250 m radíuss frá öllum hofum og helgum stöðum í Varanasi. Veitingastaðir brugðust vel við og fóru að leggja aukna áherslu á alls kyns grænmetisrétti sem fylgt höfðu fjölskyldum þeirra öldum saman. Nokkuð sem ferðamenn höfðu aldrei fyrr kynnst.

Fram til þessa hefur matarmenning borgðarinnar verið vel geymt leyndarmál en nú hafa ferðamenn og áhugafólk um grænkerarétti valið að fara þangað til þess að upplifa einstaka grænmetisrétti sem sagðir eru ljúffengir.

Michelinkokkar víðs vegar um heiminn hafa reynt að endurskapa réttina sem finna má í Varanasi. Eins og til dæmis vrat ke kuttu-bókhveitipönnukökur sem bornar eru fram í hofum borgarinnar. Þá eru pönnukökur úr kjúklingabaunum og tómatsalat einnig vinsælir réttir. 

Það sem vekur athygli er að ayurvedísk fræði eru í hávegum höfð í allri matargerð í Varanasi og ekki má notast við lauk eða hvítlauk þar sem það er talið vekja reiði og kvíða innra með manni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert