Fáðu vítamínsprautu fyrir minni peninga

Hér má sjá bæinn Puerto Rico á Kanaríeyjum.
Hér má sjá bæinn Puerto Rico á Kanaríeyjum. Mildiadis Fragkidis/Unsplash

Á meðan vetrarlægðirnar mokast yfir landið er freistandi að komast í sól og sumaryl á suðrænum slóðum. Ein af þeim sólarperlum sem auðvelt er að ferðast til og draga andann á er eyjan Gran Canaria eða Kanaríeyjar eins og hún er yfirleitt kölluð hérlendis. Þessi eyja tilheyrir spænska eyjaklasanum undan norðvesturströnd Afríku líkt og Tenerife. Kanaríeyjar er ekki stór eyja en hún býr yfir mikilli náttúrufegurð og heilmikilli skemmtun. Höfuðborg Kanaríeyja heitir Las Palmas og er mjög skemmtileg. Flugfélagið Play flýgur til Kanaríeyja alla miðvikudaga og svo bjóða ferðaskrifstofur eins og Úrval Útsýn upp á ódýrar pakkaferðir á þessa rjúkandi sólareyju. 

Á syðsta hluta eyjunnar eru einhverjir vinsælustu sumardvalarstaðir Evrópubúa, svo sem Playa del Inglés, Puerto Rico, Maspalomas og San Augustín. Á norðurströndinni, í aðeins um klukkutíma akstursfjarlægð, er höfuðborgin Las Palmas en miðja eyjarinnar er skógi vaxið fjalllendi. Það mætti halda að þessi eyja hafi verið sérhönnuð fyrir manneskjur því hér eru aðstæður eins og best verður á kosið frá náttúrunnar hendi. Hitastigið lónar um og yfir 20°C, andvarinn frá sjónum kælir hitann frá sólinni og meðfram allri eyjunni eru unaðslegar strendur og tær sjór.

Þessi mynd er tekin á ströndinni við Las Palmas.
Þessi mynd er tekin á ströndinni við Las Palmas.

Á suðurströndinni eru ótal gistimöguleikar. Þeir sem sækjast í menningu, verslanir og strandlíf ættu án efa að geta fundið eitthvað við sitt hæfi í borginni Las Palmas. Meðfram borginni er falleg 3,5 km strandlengja Las Canteras strandar. Las Canteras er skipt upp í minni hluta sem heimamenn nota ýmist í vatnasport eða afslöppun eftir aðstæðum. Nyrsti hlutinn kallast Playa Grande eða „Stóra ströndin“. Hún er breið, stór og sjórinn lygn þökk sé kóralrifi sem heldur öldunum í skefjum. Hér er líka nóg af fiskum og litríku lífríki sem er dásamlegt að fylgjast með af vindsænginni eða bara á kafi með sundgleraugun. Flestir fjárfesta í loftpípu til að snorkla og eyða sem mestum tíma við að skoða litríka fiskana og mjúkan sandinn á botninum. Það er ástæða fyrir því að strendur Las Palmas eru ítrekað valdar bestu borgarstrandir í heimi.

Á Kanaríeyjum er líka margt í boði fyrir þá sem þurfa að komast af sandinum. Þar eru fjölmargir golfvellir og þar eru líka góðar hjólaleiðir fyrir þá sem dýrka að hjóla í hita og sól. Á eyjunni eru dýragarðar, vatnagarðar og söfn. Þeir sem eru með bílpróf geta keyrt um fjallaþorp og upplifað skemmtilega stemningu á veitingastöðum innfæddra þar sem maturinn kostar brot af því sem hann kostar við ströndina. Á eyjunni eru líka fjölmargar gönguleiðir fyrir þá sem kunna að meta fjallgöngur og vilja hreyfa sig mikið. 

Það besta við Kanaríeyjar er líklega þessi frábæra blanda af sólarfríi á ströndinni í bland við náttúrufegurð fjallanna og sjarmerandi miðborgarstemningu. Ef það er eitthvað sem gæti hresst þig við á þessum tíma ársins þá er það líklega það að komast í sandala, sjó og fá sól í andlitið. Það eina sem fólk þarf að muna eftir er sólarvörnin og svo er allt skemmtilegra ef fólk er í góðu skapi. 

Á milli ensku strandarinnar og Maspalomas er eyðimörk sem er …
Á milli ensku strandarinnar og Maspalomas er eyðimörk sem er mjög heillandi. Quinten Braem/Unsplash
Unsplash
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert