Snæddu á sama stað og Kate Moss

Kate Moss kann að meta góða veitingastaði.
Kate Moss kann að meta góða veitingastaði. AFP

Ertu á leiðinni til Lundúna? Af hverju ekki að borða á veitingastað þar sem Kate Moss borðaði á afmælinu sínu? Fyrirsætan heimsþekkta borðaði á veitingastaðnum Scott's þegar hún átti afmæli á dögunum. 

Moss fagnaði 48 ára afmæli sínu hinn 16. janúar með því að fara út að borða á hinum sívinsæla sjávarréttastað Scott's. Með Moss var dóttir hennar, hin 19 ára gamla Lila Grace, og kærasti hennar, Nikolai von Bismarck, sem er töluvert yngri en afmælisbarnið. 

Scott's er til húsa í Mayfair í Lundúnum, ekki langt frá Hyde Park. Staðurinn er þekktur fyrir að bera fram fínar ostrur, kavíar, skelfisk og annað sjávarfang af bestu gerð. Scott's var upphaflega opnaður árið 1851 sem ostrupakkhús af ungum fisksala sem hét John Scott. Fljótlega þróaðist pakkhúsið í sjávarréttaveitingastað og ostrubar. Er staðurinn sagður einn af fimm elstu veitingastöðum í Lundúnum. Veitingastaðurinn hefur verið í götunni Mount Street í Mayfair-hverfinu síðan árið 1967.

Moss er ekki fyrsta stjarnan sem borðar á staðnum. Rithöfundurinn Ian Fleming, höfundur James Bonds, var reglulegur gestur á Scott's á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar. Hann er sagður hafa uppgötvað þurran Martini „hristan en ekki hrærðan“ á staðnum. 
mbl.is