Draugalegasta hótelið í Bandaríkjunum

Skirvin Hilton í Oklahoma er sagt vera reimt.
Skirvin Hilton í Oklahoma er sagt vera reimt. Ljósmynd/Skjáskot

Skirvin Hilton-hótelið í Oklahómaborg í Bandaríkjunum er tignarlegt hótel byggt í art deco-stíl fyrir einni öld. Margar sögur hafa verið á kreiki um reimleika og vafasama fortíð hótelsins.

Sagt er að á hótelinu gangi þernan Effie aftur. Hún stökk til bana, ólétt eftir stofnanda hótelsins, WB Skirvin. Þeir sem gist hafa á hótelinu, eins og til dæmis ýmis körfuboltalið NBA-deildarinnar, hafa kvartað undan einkennilegum hljóðum á nóttunni eins og til dæmis braki og brestum, gráti og kvalafullum veinum.

„Þetta er ein helsta draugasaga borgarinnar ef ekki í öllu héraðinu. Það hafa meira að segja ýmsir frægir sagst heyra í draugagangi hér,“ segir Steve Lackmeyer, höfundur bókar um hótelið alræmda.

„Fólk hefur minnst á að ljósin flökti eða að hurð skelli óvænt,“ segir Don Jackson, markaðsstjóri hótelsins. „Það eru ýmsar sögur á kreiki en við viljum forðast að vekja athygli á þeim þar sem ekkert hefur verið sannað í þessum málum.“

Þá hafa nokkrir séð skrifuð orðin „Hjálp“ í móðu á spegli baðherbergisins. „Já, við höfum heyrt af því,“ segir Jackson.

Burtséð frá öllum draugagangi á hótelið sér skrautlega sögu. Fyrsti hótelstjórinn var sagður hafa skotið sig árið 1913 en síðar var það rannsakað sem morð. Þá hafa ýmsir sögufrægir einstaklingar gist þarna eins og til dæmis Dwight Eisenhower, Harry Truman, Elvis Presley og Ronald Reagan.

Hægt er að lesa meira um hótelið í pistli BBC.

mbl.is