Skíðaði niður brekkurnar á sundfötunum

Didi Lilova er augljóslega engin kuldaskræfa.
Didi Lilova er augljóslega engin kuldaskræfa. Skjáskot/Instagram

Búlgarski áhrifavaldurinn Didi Lilova birti afar sérstakt myndband af sér á samfélagsmiðlum á dögunum. Þar sést Lilova skíða niður snævi þaktar skíðabrekkur á sundfötunum einum klæða. 

Þrátt fyrir að myndskeiðið beri þess merki að ansi gott færi hafi verið á skíðasvæðinu þá getur kuldinn oft verið mikill á slíku fjalllendi. Lilova lét kuldann ekki bíta á sig heldur renndi hún sér niður brekkur Borovets-svæðisins í Ríla-fjöllunum í Búlgaríu á bikiníinu eins og ekkert væri eðlilegra.  

Didi Lilova er búsett á Marbella-svæðinu á Suður Spáni en hefur gert sér ferð á heimaslóðirnar til þess að stunda skíði. Miðað við myndskeiðið var þetta langt frá því að vera hennar frumraun á skíðum, en ekki er vitað hvort þetta hafi verið frumraun hennar á sundfataskíðum.

Lilova er með tæplega 15,4 þúsund fylgjendur á Instagram og 26,3 þúsund á TikTok. Þá hefur myndbandið farið um eins og eldur í sinu á hvorum miðlinum fyrir sig. Sjón er sögu ríkari.

mbl.is