Ásta ætlar að kaupa hús á eina evru

Ásta Sigurðardóttir hefur verið búsett í Frakklandi undanfarin ár. Nú …
Ásta Sigurðardóttir hefur verið búsett í Frakklandi undanfarin ár. Nú hefur hún ákveðið að færa sig um set til Ítalíu. mbl.is/Instagram

Ásta Sigurðardóttir, hönnuður og jógakennari, er stödd á Sikiley þessa dagana en hún hefur búið á frönsku riveríunni síðastliðin þrjú ár í húsi á landeign fallegrar villu með þjónustufólki og öllu því sem hægt er að hugsa sér. Hún er stödd á Ítalíu til að kynna sér hvaða hús eru fáanleg fyrir eina evru, en bæjarfélög á Ítalíu reyna nú í auknum mæli að selja yfirgefin hús á þessu verði til að draga að framtakssama kaupendur. 

„Þeir einstaklingar sem festa kaup á eign fyrir eina evru skuldbinda sig til að klára að gera hana upp á næstu þremur árum. Þá þurfa nýir eigendur að leggja fram innborgun sem þeir fá endurgreidda að lokum endurbótum. 

Ekki er krafist að nýir eigendur setjist að í bæjunum en ef margir hafa áhuga á eigninni þá fær sá forgang sem ætlar að búa á staðnum,“ segir Ásta. 

Húsin sem hún er að skoða um þessar mundir eru á Cammarata á Sikiley, bærinn er í 700 metra hæð fyrir ofan sjávarmál og er einstaklega fallegur að hennar mati.  

Ásta bjó áður í Frakklandi, þá starfaði hún fyrir fjárfesti sem persónulegur aðstoðarmaður, vinnan fól meðal annars í sér að halda utan um rekstur villu hans, sem er á besta stað í Frakklandi að hennar mati.  

„Ég var stödd í Frakklandi að kenna jóga yfir sumarið og sótti um þetta starf eftir að ég sá það auglýst. Villan sem ég starfaði í var stór og verkefnin í henni voru mörg. Það var starfsfólk að sinna sundlauginni, garðinum og svo þjónustufólk sem sá um matargerð og þrif svo eitthvað sé nefnt.“

Þar sem Ásta tók ákvörðun nýverið um að hætta í vinnunni langaði hana að færa sig um set og skoða umhverfið á Ítalíu. 

„Ég er í raun og veru hrifnari af Ítalíu en Frakklandi og er alveg heilluð af þessu prógrammi að bjóða fólki hús á „spottprís“, sem taka þarf í gegn. Það eru mismunandi reglur í hverjum bæ um þessi mál, en ég er að leita mér að húsi þar sem ég gæti verið með jógastúdíó í kjallaranum og svo búið á efri hæðinni. Þar sem ég er hönnuður þá langar mig að gera húsið mitt fallega upp en finna eign sem er með huggulegum upprunalegum flísum sem setja sjarma á eignina.“

Það er hægt að fylgjast með þessu ferðalagi hennar á Instagram og geta Íslendingar séð með eigin augum, hvernig húsnæði er verið að bjóða á eina evru. 

Hvernig er veðrið á Sikiley núna?

„Það er vetur hér uppi í fjöllum og hitinn er í kringum níu gráður, svo það er úlpuveður í dag, en það voru 12 gráður í gær, sól og fallegt veður, þó það hafi verið svolítið kalt.“

Þetta er í fjórða sinn sem Ásta flytur frá Íslandi. Fyrst fór hún til Bandaríkjanna, þá til Danmörku. Eitt sinn bjó hún í Svíþjóð og svo bjó hún eins og fyrr sagði í Frakklandi. 

„Ég vil hvetja alla til að opna hjarta sitt og prófa eitthvað nýtt í lífinu. Að vera ekki hrætt við að stökkva í djúpu laugina og finna sér ævintýri að upplifa.“

Lífið er eitt stórt ferðalag að mati Ástu. 

„Það jafnast fátt á við að kynnast nýju fólki og nýjum menningarheimum. Ég hef lengi verið í því sem kallast „CouchSurfing“, þar sem hægt er að gista á sófanum hjá fólki á ferðalögum gjaldfrjálst. Í gegnum þennan gistimöguleika hef ég sofið á dýnu á gólfi í lítilli íbúð en einnig gist í dásamlegu herbergi í 400 fermetra húsi á besta stað í borginni sem ég var að heimsækja. Þannig að ævintýrin gerast á ferðalögum, það er ekki spurning.“

Hvaða staðir eru í uppáhaldi hjá þér núna?

„Þar sem ég er búin að vera í Frakklandi, þá verð ég að nefna Cap Ferrat, sem er eitt dýrasta svæðið á frönsku riveríunni. Þar eru einstaklega fallegar gönguleiðir og dásamleg hótel. Eins má ekki gleyma að nefna alla fallegu bæina í kringum frönsku riveríuna, þar sem hægt er að setjast inn á veitingahús og drekka eðalvín á 2 evrur. 

Það er alltaf gaman að vera í Mónakó líka, það er ævintýralegt þar, góðir veitingastaðir og flottar búðir.

Ég er persónulega hrifnari af Ítalíu en Frakklandi og því langar mig að finna hús hér. Það er skemmtilegra að ferðast um Ítalíu að mínu mati, fólkið er hlýlegra og skemmtilegra, þar sem flestir eru léttir og kátir, sem er ekki alveg það sem ég get sagt um blessaða Frakkana.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert