Sóli og Viktoría flytja til Kanarí í ellinni

Viktoría Hermannsdóttir og Sólmundur Hólm Sólmundarsson sjá fyrir sér að …
Viktoría Hermannsdóttir og Sólmundur Hólm Sólmundarsson sjá fyrir sér að flytja til Kanaríeyja þegar fara á eftirlaun.

Grínistinn Sóli Hólm og fjölmiðlakonan Viktoría Hermannsdóttir fóru til Gran Canaria í byrjun árs. Þau kunna svo vel við sig að þau ákváðu að framlengja dvölina um eina viku enda segir Sóli það ekki virðast spennandi að vera á Íslandi í augnablikinu. Sóli er heillaður að verðlaginu og sér fram á að verja ævikvöldinu á eyjunni.

„Það lítur ekkert út fyrir að það sé voðalega gaman á Íslandi þessa dagana, endalausar lægðir, en hér er tóm sæla,“ segir Sóli um ástæðu þess að þau ákváðu að framlengja um viku. Eldri börnin voru þó send heim í skólann við mismikla ánægju en upphaflega fór þau öll saman út ásamt foreldrum Viktoríu og móður Sóla.

„Við urðum eftir með litlu börnin tvö sem eru tveggja ára og sjö mánaða. Við erum í forréttindastöðu því vinnan er ekki að toga í okkur heim. Viktoría er í fæðingarorlofi og ég þurfti að fresta sýningum sem áttu að vera í Bæjarbíói í lok janúar vegna samkomutakmarkanna. Þá er svosem lítið heim að sækja þegar maður getur ekki unnið vinnuna sína. Ég tók reyndar eitt fjargigg hérna úti. Ég get alveg eins tekið þau inni á hótelberbergi í silkiskyrtunni eins og að gera það heima,“ segir Sóli. 

Sóli með börnin fimm. Eldri þrjú fóru heim til Íslands …
Sóli með börnin fimm. Eldri þrjú fóru heim til Íslands í síðustu viku en Sóli og Viktoría lengdu dvölina með yngstu tveimur.

„Við erum á Kanaríeyjum, Gran Canaria. Það eru allir á Tenerife núna en við Viktoría erum yfirleitt 10-15 árum á eftir tískustraumum. Hérna er meira um eldra fólk og við erum sjálf eldri í anda en kennitalan segir til um. Þessi staður virkaði á okkur sem rólegri staður sem er akkúrat það sem við erum að leita að í þessu tilfelli. Þetta er hinn fullkomni staður fyrir þessa tegund af fríi þar sem þú vilt fyrst og síðast slappa af.

Þetta er eins mikið frí og hægt er. Hér er auðvitað mikið um afþreyingu fyrir fjölskyldufólk. Vatnsrennibrautagarðar, tívolí og allt svoleiðis. Við fórum í allt það meðan eldri börnin voru enn með okkur úti en eftir að við urðum fjögur höfum við bókstaflega verið í fríi.“

Sóli er ekki enn þá búinn að prófa mínígofið á Kanarí en er spenntur fyrir íþróttinni. „Mér skilst að það sé mjög vinsælt hérna og sérstaklega meðal eldri borgara að hittast og spila mínígolf. Við höfum ekki farið í það en mér finnst það ótrúlega spennandi. Við Viktoría erum alveg búin að sjá það að hér munum við enda. Þegar börnin eru uppkomin munum við enda hér og örugglega miklu fyrr en fólk er að koma hingað vanalega. Við erum svo gamlar sálir að við ættum með réttu að komast á eftirlaun innan fárra ára.“

Silkislakur Sóli á ströndinni.
Silkislakur Sóli á ströndinni.

Er allt miklu ódýrara á Kanarí?

„Það er mikið lægra verð en heima. Ég er að leita eftir góðum dílum, gera góða díla. Ég er bara þannig, ég meina við erum með sjö manna fjölskyldu, maður þarf að hugsa um hverja krónu. Þá er betra að velja góða díla.“

Sóli féll fyrir silkiskyrtum á Kanarí og segist hafa gert sérstaklega góð kaup þegar hann keypti þær.

„Ég keypti þrjár silkiskyrtur úr 100 prósent silki á 100 evrur. Miðað við það sem var lagt upp með í upphafi hjá sölumanninum þá var þetta flottur díll. Hann tók reyndar fram að þetta væri sérstakt verð fyrir mig og auðvitað trúi ég því. Þess vegna get ég ekki lofað því að hver sem er geti fengið „special price”. Ég kynntist annars silkiskyrtum í gegnum afa vinar míns sem að gengur nær eingöngu í silkiskyrtum af því þær fylgja þínum líkamshita. Þær anda svo vel, þú ert ekki með þennan baksvita og þetta vesen sem þú ert að upplifa þegar þú ert í bómullinni í hitanum. Það er glórulaust að ganga í bómull í svona loftslagi. Ég átti enga silkiskyrtu en er kominn með góðan grunn fyrir komandi ferðalög og er bara í þessu,“ segir Sóli sem mælir með því að ganga með mittisveski við litríkar skyrturnar. „Það er fyrst og síðast öryggisatriði.“

Þarna er Sóli á leið að kaupa silkiskyrtur. Hann mælir …
Þarna er Sóli á leið að kaupa silkiskyrtur. Hann mælir ekki með baðmullarbolum líkt og þessum í loftslaginu á Kanarí. Mittisveskið segir hann vera algera nauðsyn.

Sóli er ekki frá því að hann sé að koma út í hagnaði eftir dvölina á Kanarí — svo gott er verðlagið. „Það er svo skemmtilegt hérna hvað menn eru sveigjanlegir í verðlagningu. Í upphafi vissi ég ekki að það væri hægt að semja um verðið hérna. Það er hægt að ná verðinu niður um 30 til 60 prósent með góðri samningatækni. Þetta er eitthvað sem þekkist ekki heima og kom mér algjörlega í opna skjöldu. Ég vil benda fólki á að hér er hægt að semja um verð í mörgum tilfellum,“ segir Sóli en segir lykilatriði að hætta að semja um leið og seljandinn verður pirraður. „Þá ertu að nálgast þolmörkin. Ég er reyndar yfirleitt hættur löngu áður en þeir pirrast því mér hugnast ekki að eiga í átakasambandi við sölumenn.“

Íslendingar eru mikils metnir hjá sölumönnum á Kanarí að sögn Sóla og meira að segja er búð á ensku ströndinni sem heitir Íslendingabúðin en er rekin af indverskum manni. „Hann heitir Harry og talar fínustu íslensku. Mig minnir að búðin hafi heitið Foto Harry þegar ég kom fyrst hingað en hann hefur nú markaðssett sig algerlega fyrir íslenskan markað á Kanarí. Hjá honum færðu raftæki á verði sem er mikið lægra en heima. Mikið lægra verð en heima.“

Þegar að blaðamaður náði á Sóla var fjölskyldan að fara í Yumbo Center sem Sóli segir afar skemmtilega verslunarmiðstöð. Tilgangurinn var meðal annars að kaupa aukatösku fyrir heimferðina fyrir varninginn sem var búið að fjárfesta í.

Þetta er í þriðja skiptið sem Sóli fer til Gran Canaria. „Hingað kom ég fyrst ellefu ára gamall ásamt föður mínum yfir páskana og svo kom ég aftur hingað í djammferð með mömmu yfir jól og áramót þegar ég var tvítugur.“ Hann segir að áfangastaðurinn eigi mikið inni þrátt fyrir að Tenerife sé töluvert vinsælli á meðal Íslendinga núna. „Ég hef trú á því að Gran Canaria fari að sækja í sig veðrið af því hér eru endalaus tækifæri og bara fyrst og síðast svakalega notaleg stemning. Play er að fljúga hingað alla miðvikudaga eins og er þannig að ég gæti vel hugsað mér að vera hér aðra hverja viku,“ segir grínistinn að öllu gríni slepptu.

Sóli með einn „grande cerveza“. Hann segir bjórinn á Kanarí …
Sóli með einn „grande cerveza“. Hann segir bjórinn á Kanarí vera á mikið lægra verði en heima.
mbl.is