Hægir á ellinni með útivist

Hjónin Rósa Sigrún Jónsdóttir og Páll Ásgeir Ásgeirsson á fjöllm.
Hjónin Rósa Sigrún Jónsdóttir og Páll Ásgeir Ásgeirsson á fjöllm.

Páll Ásgeir Ásgeirsson starfar við leiðsögn hjá Ferðafélagi Íslands. Í vetur stofnaði hann nýjan hóp innan félagsins ásamt eiginkonu sinni. Hópurinn er fyrir fólk sem er komið yfir miðjan aldur og þarf ekki að sigra sjálft sig heldur njóta útivistar. 

„FÍ Rannsóknarfjelag var sett á laggirnar í vetur á vegum Ferðafélags Íslands. Þetta er gönguhópur sem hefur það að leiðarljósi að ferðalagið sé mikilvægara en áfangastaðurinn. Við viljum rannsaka söguna sem er fólgin í landinu og fletta hulunni af henni. Ísland er ekki ríkt af sýnilegum fornminjum en gegnum sögu fólksins sem lifði í landinu er hægt að skyggnast til baka. Rannsóknarfjelagið kannar þannig söguslóðir, gamlar leiðir, náttúrufyrirbæri og hvað eina sem vekur áhuga okkar.

Við vildum laða að okkur fólk sem er vant útivist og hefur stundað hana sem lífsstíl en er búið að fara á Hnúkinn, hjóla Jaðarinn og ganga Fossavatn og er til í að taka því ögn rólegar. Okkur sýnist á þátttökunni að það hafi tekist. Í hópnum eru flestir komnir svolítið yfir miðjan aldur en eru enn í góðu formi og vilja halda því þannig,“ segir Páll Ásgeir.

Páll Ásgeir Ásgeirsson.
Páll Ásgeir Ásgeirsson.

Hvernig eru göngurnar frábrugðnar öðrum göngum?

„Því er kannski best að lýsa með því að í fyrstu ferðinni gengum við kringum fjall en fórum ekki upp á það. Langflestar göngur fela í sér skýrt takmark sem oftast er fjallstoppur. FÍ Rannsóknarfjelag skilgreinir markmið sín þannig að við förum ekki upp á fjallið bara til þess að fara upp á fjallið. Við gerum það ef það þjónar tilgangi ferðarinnar og getur bætt einhverju við upplifun okkar. Í þessum göngum eins og öðrum er það aðalatriðið að vera úti með frísku og skemmtilegu fólki sem hefur áhuga á Íslandi, sögu þess og náttúru. Margt sem tengist útivist er mjög keppnismiðað og við viljum oft fara lengra og hærra en síðast því það er í eðli okkar að takast á við okkur sjálf í gegnum náttúruna. Við viljum gefa gaum að öðrum hlutum en púlsi og gönguhraða á klukkustund.“

Hvers vegna skiptir máli að stunda útivist þegar fólk er komið á eftirlaunaaldur?

„Mýmargar rannsóknir sýna að regluleg hreyfing læknar bæði líkama og sál, stuðlar að betra heilsufari. Það sem skilar bestum árangri og vellíðan er að temja sér lífsstíl eins og útivist og halda því síðan áfram eins lengi og maður getur. Í allri útivist er nefnilega aðalatriðið að vera úti. Að ganga á vit náttúrunnar í hreinu lofti með vinum sínum og félögum gefur gríðarlega mikla lífsfyllingu og er okkur afar mikilvægt af mörgum ástæðum. Maðurinn þróaðist ekki til þess að eyða ævinni inni í steinsteyptum kössum heldur til þess að hlaupa á sléttunni í vindi, regni og sól og lifa í náttúrunni og með henni. Þetta skynjum við djúpt í sálinni þegar við erum úti að leika okkur og þess vegna löðumst við að því. Vegna þess að úti í náttúrunni erum við í okkar rétta umhverfi. Þar erum við heil.“

Hvernig fékkstu sjálfur fjallabakteríuna?

„Ég ólst upp í afskekktri sveit við að elta kindur svo ég hef verið úti síðan ég var barn. Ég er ennþá úti að leika mér eins og í gamla daga. Ef það er til eitthvað sem heitir fjallabaktería þá fæddist ég með hana. Vegna verkefna við að skrifa leiðsögubækur um Ísland hef ég getað sameinað atvinnu og áhugamál. Við Rósa Sigrún Jónsdóttir eiginkona mín höfum ferðast saman í 30 ár, lengst af á eigin vegum og við rannsóknir og myndatökur vegna bókarskrifa en fyrir um það bil 14 árum fórum við að taka að okkur leiðsögn fyrir Ferðafélag Íslands. Þá varð okkur ljóst hve gefandi það getur verið að kynna land og sögu fyrir Íslendingum og fara með þá um misjafnlega þekktar slóðir.“

Hvernig tilfinning er það að eldast?

„Ég varð 65 ára í haust svo ég veit ekki vel hvort ég get svarað þessari spurningu. Það er hrein eðlisfræði að líkaminn hrörnar og eldist og það birtist á margvíslegan hátt. En hið innra finnur maður enga breytingu því það er eins og hugbúnaðurinn sé óbreyttur þótt vélbúnaðurinn gangi úr sér. Ég held samt að ég sé ekki orðinn nógu gamall til þess að svara þessu af nægri dýpt. Ég hrekk ennþá við þegar ég lít spegilinn og sé mann kominn yfir miðjan aldur því hið innra er ég nýlega fermdur.“

Ertu farinn að minnka við þig vinnu?

„Eiginlega ekki en þegar maður vinnur við það sem er áhugamál manns og lífsstíll þá hverfa skilin milli vinnu og frístunda og maður einfaldlega heldur áfram að ganga þangað til maður hættir því.“

Ertu með ráð fyrir yngra fólk, hvernig það getur undirbúið það að komast á eftirlaun?

„Ég held að besti undirbúningur fyrir seinni hluta ævinnar eins og fyrir þann fyrri sé að leggja stund á heilbrigðan og reglusaman lífsstíl. Maður eyðir fyrri hluta ævinnar í að venja sig á allskonar ósiði og svo eyðir maður seinni helmingnum í að venja sig af þeim aftur. Þarna næst einhvern tímann jafnvægi sem oftast einkennist af einföldu og reglusömu lífi.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert