Hvernig ber að varast falsaðar umsagnir?

Áður en af stað er farið er alltaf gott að …
Áður en af stað er farið er alltaf gott að kynna sér reynslu annarra. Fyrirtæki eins og Tripadvisor státa sig af miklum fjölda umsagna sem hægt er að stóla á.

Ferðamenn treysta á síður eins og Tripadvisor til þess að velja rétt þegar kemur að hótelum og öðrum upplifunum erlendis. En ekki er allt satt sem þar kemur fram. Sumir sérhæfa sig í lygum.

Talið er að af þeim 26 milljón umsagna sem sendar eru inn til Tripadvisor eru um ein milljón falsaðar. Hvernig kemur maður auga á falsaðar umsagnir?

Umsagnirnar fara alltaf í gegnum ákveðna síu og tölfræðin segir að um 3% þeirra er sjálfkrafa eytt og 5% þeirra fara áfram til frekari skoðunar. Tripadvisor segist hafa komið í veg fyrir 67% falsaðra umsagna komist nokkurn tímann á netið fyrir sjónar almennings. Það þýðir hins vegar að um 33% hafa sloppið í gegn og uppgötvast ekki fyrr en síðar. Þetta kemur fram í umfjöllun The Times.

Vilja koma höggi á keppinauta

Til eru mörg fyrirtæki sem sérhæfa sig í að búa til falsaðar umsagnir fyrir fyrirtæki sem ýmist berjast í bökkum eða vilja koma höggi á keppinauta sína. Blaðamaður The Times hafði samband við slíkt fyrirtæki eftir stutta netleit og fyrirtækið bauðst til þess að skrifa 50 umsagnir á Tripadvisor fyrir 220 pund. Fyrirtækið lagði til að hann sendi þeim gróft uppkast af því sem átti að koma fram í umsögninni og hann myndi þá aðlaga undir ýmsum nöfnum frá ólíkum IP tölum.

Chris Emmins rekur fyrirtækið KwikChex sem sérhæfir sig í að koma augu á svindlara. Hann segist oft vera hissa hvað auðvelt er að koma fölsuðum umsögnum í gegnum síur síðanna.

Málfarið stundum of vandað

„Allar síður eins og Tripadvisor ýkja hversu vel þau geta komið í veg fyrir falsaðar umsagnir. Svindlararnir eru oftast staðsettir á Indlandi eða Indónesíu og nota gervigreind til þess að komast yfir tungumálahindrunina. Kaldhæðnin er samt sú að umsagnirnar eru næstum of vel skrifaðar. Miklu betra orðalag en finna má í alvöru umsögnum.“

„Þetta eru ekki bara atvinnusvindlarar sem eru að búa til gervi umsagnir heldur geta þetta verið fyrrverandi starfsmenn eða samkeppnisaðilar sem búa til eða kaupa pakka af neikvæðum umsögnum.“

Hvað er til ráða?

„Sem neytandi er best að taka sem minnst mark á fimm stjörnu umsögnum og einnar stjörnu umsögnum. Sérstaklega ef þau eru birt með skömmu millibili. Lesið alltaf tveggja, þriggja eða fjögurra stjörnu umfjöllun. Og takið eftir persónulegum upplifunum og lofum. Hundsið til dæmis almennt orðalag eins og til dæmis: „Forðist þennan stað, slæm þjónusta!“ eða „Frábær ferð, bókið strax!“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert