Ragna ílengdist í Kaupmannahöfn

Listakonan Ragna Sigríður Bjarnadóttir á eftir að sakna Kaupmannahafnar. Myndin …
Listakonan Ragna Sigríður Bjarnadóttir á eftir að sakna Kaupmannahafnar. Myndin er frá opnun á einkasýningu hennar en sýningin ber yfirskriftina Þræðir og stendur yfir í Jónshúsi í Kaupmannahöfn. Ljósmynd/Aðsend

Ragna Sigríður Bjarnadóttir, fata- og textílhönnuður, er á leiðinni heim eftir tæp sjö góð ár í Kaupmannahöfn. Ragna er spennt fyrir nýjum tímum en á eftir að sakna þess að fara út í sumarkjól á heitum sumardögum í Danmörku. 

„Ég flutti til Kaupmannahafnar fyrir tæpum sjö árum síðan til þess að fara í mastersnám í fatahönnun og ílengdist svo í borginni,“ segir Ragna um ástæðu þess að hún flutti til Kaupmannahafnar. Hún hefur starfað sem fatahönnuður í borginni og nú síðast hjá fatamerkinu 2NDDAY. 

„Við maðurinn minn ætluðum alltaf að vera hér út i tímabundið og okkur líður eins og það sé rétti tíminn núna að koma heim. Við erum með tvö börn, þriggja og hálfs og eins árs og finnum vel fyrir því að vera ekki með fjölskyldunetið til að fá hjálp með þau. Eins söknum við mikið fjölskyldu og vina og mig var líka farið að langa til að breyta til í vinnunni hjá mér og vinna meira „freelance“ í alls konar skapandi verkefnum og hafa meiri tíma til að skapa mín eigin textíllistaverk sem ég hef verið að vinna að meðfram fullri vinnu síðustu árin. Ég er komin með nokkur spennandi verkefni í gang en hlakka mikið til að vera með báða fætur á klakanum og dýfa mér aftur í hönnunarbransann eftir þessi ár í burtu,“ segir Ragna um tímamótin. 

Á leikvelli á Íslandsbryggju.
Á leikvelli á Íslandsbryggju. Ljósmynd/Aðsend

Áttu þér uppáhaldshverfi? 

„Á meðan ég var í námi fannst mér best að vera á Vesterbro í afslappaða iðandi mannlífinu þar en við höfum lengst af búið á Amager þar sem er miklu meira pláss og meiri náttúra. Við keyptum okkur íbúð á Austur-Amager þar sem við búum eiginlega í miðjum almenningsgarði með sjö leikvelli í fimm mínútna göngufjarlægð, metró stutt frá og geggjað útsýni yfir friðað náttúrusvæði.“

Eiga Íslendingar það til að gera einhver mistök þegar þeir heimsækja gamla höfuðstaðinn?

„Kannski helst að einbeita sér of mikið að miðbænum og Strikinu. Ég mundi alltaf mæla með degi á Vesterbro og degi á Nørrebro. Mæli líka mikið með því að taka lest annað hvort á Louisiana eða Arken, bæði ótrúlega falleg listasöfn aðeins fyrir utan borgina með fallegu umhverfi.“

Á Louisiana-listasafninu.
Á Louisiana-listasafninu. Ljósmynd/Aðsend

Áttu þér uppáhaldsveitingastað og kaffihús?

„Ég er varla búin að fara mikið út síðustu tvö ár vegna heimsfaraldurs og fæðingarorlofs! Svo listinn af uppáhaldsheimsendum mat er mun lengri. En uppáhaldsbarinn minn er alltaf BRUS á Nørrebro. Nýjasti uppáhaldsveitingastaðurinn minn er palestínskur staður í slátrarahverfinu á Vesterbro (Kødbyen) sem heitir Gaza Grill. Þar fékk ég besta halloumi lífs míns um daginn. Svo var ég að prófa í fyrsta skipti mjög sætt og smá falið kaffihús sem heitir Beau Marché í miðbænum sem ég á eftir að fara oft á held ég. Uppáhalds hamborgarinn er svo Popl við íslenska sendiráðið, grænmetisborgarinn er alveg svakalegur!“

Hvað má alls ekki láta fram hjá sér fara í borginni?

„Ég á eftir að sakna svo mikið heitu sumranna í Köben. Að getað bara labbað út í sumarkjól, hjólað í fallegan almenningsgarð, hoppað útí sjó af bryggju og fengið sér svo góðan streetfood mat og setið úti langt fram á kvöld. Í Köben er svo auðvelt að hafa ekkert plan og dóla sér bara í gegnum daginn. Þar er einhvern veginn allt til alls. Svo er borgin líka einstaklega barnvæn og full af leikvöllum og alls konar skemmtilegu fyrir börn.“

Bátsferð um kanalana í miðbænum.
Bátsferð um kanalana í miðbænum. Ljósmynd/Aðsend

Hvar er best að versla í borginni?

„Ég er mjög hrifin af búðum sem selja notaðan merkjafatnað í umboðssölu, uppáhalds eru Lula Secondhand, Magnolia Secondhand og I Blame Lulu. Svo eru flestar helgar markaðir um alla borg þar sem er hægt að nálgast alls konar einstaka hluti. Það er líka mjög gaman að finna hönnunarmarkaði, til dæmis Flid Marked eða Finders Keepers þar sem hönnuðir og listamenn selja handverk sitt á staðnum.“

Hægt er að fylgjast með Rögnu og hennar verkefnum á Instgaram. 

View this post on Instagram

A post shared by Ragna Bjarna (@ragnabjarna)



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert