Hallgrímur toppaði hæsta eldfjall heims

Hallgrímur Kristinsson á tindi Ojos del Salado föstudaginn 4. mars.
Hallgrímur Kristinsson á tindi Ojos del Salado föstudaginn 4. mars.

Fjallagarpurinn Hallgrímur Kristinsson náði tindi Ojos del Salado í Chile föstudaginn 4. mars síðastliðinn. Ekki nóg með að Hallgrímur hafi náð tindum sem er hæsta fjall Chile og hæsta eldfjall jarðar, þá hafði hann nokkrum dögum áður náð tindi Pico de Orizaba sem er hæsta fjall Mexíkó. Ojos del Salado er í 6.893 metra hæð yfir sjávarmáli en Pico de Orizaba í 5.636.

„Ég er búinn að vera að hugsa um að taka „twofer“ á þessi fjöll í um 4–5 ár. „Twofer“ er í raun þegar þú klífur eitt fjall og notar hæðaaðlögunina af því til að stytta tímann til að klífa næsta fjall. Ég sá sem sagt fyrir mér að klífa hæsta fjall Mexíkó og fara svo beint yfir til Chile og kljást vð þeirra hæsta fjall,“ segir Hallgrímur í viðtali við ferðavef mbl.is. 

Ferðina ætlaði hann að fara fyrir rúmum tveimur árum en vegna heimsfaraldursins setti hann hana á ís. Hann sá sér svo leik á borði nú í upphafi árs og skellti sér í draumaferðina með skömmum fyrirvara, en það spillti ekki ferðinni því hann var löngu búinn að skipuleggja hana. Með honum í för var sambýliskona hans Ólöf Pálsdóttur, en hún fór þó ekki á tindana.

„Pico de Orizaba, hæsta fjall Mexíkó og hæsta eldfjall Norður-Ameríku, hefur verið á dagskrá hjá mér í einhver átta ár, eða frá því að ég sá það út úr flugvél á leið til Mexíkó. Þetta er svakalega tignarlegt fjall, svona keila með jökli sem stendur upp úr hálendi Mexíkó, og hreinlega kallar á mann þegar maður sér það,“ segir Hallgrímur. 

Ojos del Salado hefur honum einnig verið hugleikið í nokkur ár en þó ekki jafn lengi og Pico De Orizaba. „Ég þekki til nokkurra Íslendinga sem hafa klifið Aconcagua, hæsta fjall Suður-Ameríku, og hæsta fjall jarðar utan Himalajafjallanna, en það er eins og allir séu að eltast við sömu spýtuna. Það þarf ekki alltaf að klífa það hæsta eða besta. Ojos del Salado er vissulega tæplega 70 metrum lægra en Acongagua og er því næst hæsta fjall heimsálfunar en engu að síður merkilegt fyrir þá staðreynd að það er hæsta eldfjall jarðar. Það var í raun sú staðreynd sem heillaði mig enda mjög hrifinn af eldfjöllum,“ segir Hallgrímur og bætir við að það hafi ekki skemmt fyrir að svo virðist sem enginn annar Íslendingur hafi reynt við tindinn á undan honum. 

Hallgrímur kominn niður af tindinum og ofan í gíginn. Bak …
Hallgrímur kominn niður af tindinum og ofan í gíginn. Bak við hann má sjá klettabeltið sem þarf að klífa til að komast á tindinn.

Besta æfingin að ganga á fjöll

Hallgrímur er almennt í góðu fjallaformi, hann hefur verið á fjöllum frá 12 ára aldri og verið í yfir 20 ár í Flugbjörgunarsveitinni í Reykjavík. Þar að auki stundar hann fjölbreytta líkamsrækt, hleypur, hjólar, lyftir og gengur á fjöll. 

„Besta leiðin til að æfa sig fyrir fjöll er auðvitað að ganga á fjöll. Svo ég reyni að „hlaupa“ reglulega á Helgafellið í Hafnafirði og stundum Úlfarsfellið eða mismunandi leiðir á Esjuna. Þess fyrir utan fer ég í ræktina, hleyp, hjóla og hef auk þess stundað fjallaskíði í yfir 30 ár. Rétt fyrir ferð minnkaði ég lyftingar, því stórir vöðvar hjálpa ekkert mikið í mikilli hæð því þeir draga til sín súrefni, en jók við „cardio“ æfingar.“

Færðin á höfuðborgarsvæðinu hjálpaði ekki mikið til rétt fyrir ferðina þar sem mikil snjókoma var, svo Hallgrímur sleppti fjöllunum og hljóp og hjólaði í staðin því eins og hinn þrautreyndi björgunarsveitarmaður segir: „Þegar maður æfir einn er stundum skynsamlegt að vera heima ef það er snjómikið í fjöllum“.

Undirbúningnum lauk svo með tólf ferðum upp og niður himnastigann í Kópavogi þegar allt var á kafi í snjó. 

Á tindi Pico del Orizaba.
Á tindi Pico del Orizaba.

Einir á tindinum

Það er ekki einfalt mál að klífa svo háa tinda eins og Ojos del Saladó og Pico de Orizaba. Þá þurfa göngugarpar að aðlagast þunnu loftinu í slíkum hæðum og tekur það tíma. Hallgrímur eyddi níu dögum í hæðaraðlögun í Mexíkó áður en hann hélt á tindinn. 

„Eftir að hafa eytt samtals um 18 dögum í hæðaraðlögun í bæði Mexíkó og Chile leið mér mjög vel fyrir toppadag Ojos Del Salado. Ég hafði farið í yfir 6.100 metra og leið eins og ungabarni með nýja bleyju. Ég hef sjaldan verið jafn vel aðlagaður hæðinni að mér fannst,“ segir Hallgrímur. 

Hallgrímur var í för með leiðsögumanninum Cristian sem er ættaður frá Chile. Viku áður en þeir stefndu á toppinn hafði engum hóp tekist að komast á toppinn vegna veðurs. Það var annar hópur í fjallinu, lítill hópur með Hollendingi og Bandaríkjamanni og leiðsögumanni frá Chile. 

„Skemmst er frá því að segja að í um 6.600 metra hæð fannst mér ég ganga á vegg. Síðustu 300 hæðametrarnir eru eitt það erfiðasta sem ég hef á ævi minn gert. Fróðir menn segja að vegna þess hve Atacama eyðimörkin er þurr og án alls raka, þá er mun minna súrefni þarna í tæplega 7.000 metrum en t.d. hinum megin við fjallgarðinn í Argentínu, þar sem Aconcagua er, þar sem raki flytur súrefni mun hærra upp. Þannig að 7.000 metrar eru kannski nær 8.000 metrum! Þess fyrir utan þarf að klífa um 30 metra klettahaft til að komast upp á sjálfan toppinn þegar komið er upp. Þetta tók allt saman verulega á en hafðist að lokum – þökk sé góðu líkamlegu formi. Hinn hópurinn snéri við í um 6.600 metrum og við vorum því þeir einu sem toppuðu fjallið þennan dag.“

Hallgrímur í fullum skrúða að hefja atlöguna að tindinum klukkan …
Hallgrímur í fullum skrúða að hefja atlöguna að tindinum klukkan 2 um nótt, í -25 gráðum.

Einstök tilfinning

Hallgrímur staldraði stutt við á tindinum en segir tilfinninguna einstaka. „Í þessu tilviki var ég svo meðvitaður um hversu mikilli orku ég hafði eytt við það að komast á tindinn að ég ákvað í raun að halda ekki almennilega upp á það fyrr en ég væri komin niður. Það er löng leið niður. Eftir að við komum niður kom svo í ljós að við hefðum náð að toppa, og fara aftur niður í efstu búðir, á rúmlega 12 tímum sem telst víst einkar gott,“ segir Hallgrímur. Leiðsögumaðurinn Cristian sagði að síðast þegar hann fór á toppinn hefði það tekið 18 klukkustundir. 

Í Atacama eyðimörkinni í kringum 4.500. Á bakvið hann er …
Í Atacama eyðimörkinni í kringum 4.500. Á bakvið hann er Ojos del Salado.

Toppað í fimm heimsálfum

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Hallgrímur klífur fjöll sem eru í yfir 5.000 metra hæð. Hann á að baki farsælan feril sem spannar yfir tvo áratugi og hefur klifið tinda yfir 5.000 metra hæð í fimm heimsálfum. 

„Ég held að það sé nokkuð góður árangur ef horft er til þess að ég hef aldrei komið til Himalajafjalla, en þar liggja allir hæstu tindar heimsins. Það er svo sem búið að vera á dagskráni að koma sér þangað einn góðan veðurdag en hefur dregist, þá aðalega vegna þess að unnusta mín veiktist fyrir nokkrum árum og fyrir hana getur það hreinlega verið hættulegt að færa í hæð. Ég á erfitt með að ferðast án hennar og því bíða Himalajafjöllin enn um sinn,“ segir Hallgrímur.

„Í einni af aðlögunarferðum okkar í Mexíkó klifum við Iztaccíhuatl …
„Í einni af aðlögunarferðum okkar í Mexíkó klifum við  Iztaccíhuatl  sem er 5.200 metra hátt. Það er „tvíburi“ við Popocatépetl („the Smoking Mountain“) og á niðurleið sáum við að „popo“ var að „reykja“ úr iðrum sínum. Myndin er tekin í c.a. 5.000 metra hæð á Itza.“

Ætlar ekki að setjast í helgan stein

Hallgrímur er ekki saddur. Hann verður fimmtugur í maí og segir það ánægjulegt að hafa náð á þessa tvo tinda fyrir það. „Ég ætlar mér þó ekki að setjast í helgan stein eftir að ég kemst á sextugsaldrinn og held áfram með langtímaplanið – þó ég vilji ekki gefa upp of mikið að svo stöddu hvað það er.“

Önnur og mikilvægari verkefni bíða Hallgríms þegar heim kemur. „Fyrst og fremst er að giftast henni Ólöfu. Við erum á þriðju tilraun að láta pússa okkur saman, enda hefur það gengið illa undanfarin tvö ár vegna Covid. Við vonumst til að ná því nú í júní,“ segir Hallgrímur. 

Í sumar ætlar Hallgrímur einnig að koma á koppinn zipline ofan úr Kömbunum og niður í nýja þjónustuhúsið í Reykjadal. „Það verður ein besta afþreying sem ísland mun bjóða upp á og slær líklega Ojos del Salado út í spennu og skemmtun!“

Hæðaraðlögun í Mexíkó.
Hæðaraðlögun í Mexíkó.
mbl.is

Bloggað um fréttina