Bogi sjötugur í sólinni á Tenerife

Bogi Ágústsson varði afmælisdeginum á Tenerife.
Bogi Ágústsson varði afmælisdeginum á Tenerife.

Fréttamaðurinn Bogi Ágústsson eyddi sjötugsafmælisdegi sínum í sólinni á Tenerife undan ströndum Afríku. Samkvæmt heimildum ferðavefs mbl.is flaug Bogi til eyjunnar grænu með alla stórfjölskylduna og njóta þau nú alls þess sem paradísareyjan hefur upp á að bjóða. 

Bogi varð sjötugur á miðvikudaginn og ræddi í tilefni dagsins við Morgunblaðið. Hann hefur verið einn af fréttalesurum Ríkissjónvarpsins frá árinu 1979. 

„Vinnan hefur verið eitt aðaláhugamál mitt. Svo er fótbolti annað aðaláhugamál mitt, ég er
mikill stuðningsmaður KR og hef verið í sjálfboðaliðastarfi í KR-útvarpinu frá stofnun 1999. Ég hef mjög gaman af því að lesa, les talsvert af sagnfræði og hef lesið dálítið af íslenskum skáldskap og það er aðallega konan mín sem heldur honum að mér og hefur verið minn ritstjóri þar. Ég hlusta líka mikið á tónlist, klassík, óperur og raunar á allt nema kántrí og rapp.“

Í viðtalinu greindi hann einnig frá því að hann muni áfram starfa hjá Ríkissjónvarpinu, í það minnsta næsta árið, því hann hafi nýverið gert verktakasamning um áframhaldandi starf.

mbl.is