Vilt þú vinna með Svala á Tenerife?

Tenerifeferðir opna skrifstofu á Amerísku ströndinni á allra næstu dögum.
Tenerifeferðir opna skrifstofu á Amerísku ströndinni á allra næstu dögum.

Sigvaldi Kaldalóns, betur þekktur sem Svali, hefur opnað skrifstofu á Tenerife. Svali hefur búið og starfað á Tenerife frá árinu 2018 en þar rekur hann ferðaþjónustufyrirtækið Tenerifeferðir. Fyrirtækið hefur ekki verið með skrifstofu á eyjunni áður en nú geta Íslendingar leitað til þeirra á Amerísku ströndinni. 

Sagt er frá opnun skrifstofunnar í fréttabréfi Tenerifeferða í gær.

„Við getum veitt ykkur upplýsingar um það sem þið viljið og vonandi aðstoðað ykkur við að njóta frísins ennþá betur. Það skiptir engu hvort þið eruð á eigin vegum eða með ferðaskrifstofu, þið eruð alltaf velkomin,“ segir í fréttabréfinu. 

Skrifstofan verður opin alla virka daga en hún á milli Vista Sur strandarinnar og Plata de El Camison. Hún mun opna á allra næstu dögum. 

Vantar starfsfólk

Í fréttabréfinu kemur einnig fram að Tenerifeferðir vanti starfsfólk í vinnu. „Þetta snýst um að fara í ferðirnar okkar sem fararstjóri, vera til taks á skrifstofunni og taka á móti fólki á flugvelli og aðstoða við innritun. Aðalmálið er að vera hress og skemmtileg/ur og njóta þess að vera innan um fólk. Það geta allir lært þær upplýsingar sem við erum að miðla.“

mbl.is