Leitað að sögunni í gönguferð

Rósa Sigrún Jónsdóttir og Páll Ásgeir Ásgeirsson eru fararstjórar FÍ …
Rósa Sigrún Jónsdóttir og Páll Ásgeir Ásgeirsson eru fararstjórar FÍ Rannsóknarfjelags sem leggur áherslu á fræðandi gönguferðir með rannsóknarívafi.

Eitt af nýjum hópverkefnum Ferðafélags Íslands heitir FÍ Rannsóknarfjelag. Þetta er hópur undir umsjá Páls Ásgeirs Ásgeirssonar og Rósu Sigrúnar Jónsdóttur. Hópurinn tók til starfa skömmu eftir áramót og hefur hist að jafnaði einu sinni í viku.

Rétt er að taka fram að rík áhersla er lögð á að heiti hópsins sé ávallt stafsett samkvæmt gamla laginu með fjelag en ekki félag. Með þessu vilja félagsmenn undirstrika áhuga sinn á fortíðinni og því sem hún hefur að geyma.

FÍ Rannsóknarfjelag er sem sagt örlítið frábrugðið öðrum gönguhópum að því leyti að dagskrá fjelagsins inniheldur ekki fjallgöngur nema að litlu leyti.

„Við höfum orðað þetta svo að við göngum oft kringum fjöll en ekki endilega upp á þau nema sérstök ástæða sé til,“ segir Páll Ásgeir, annar umsjónarmanna hópsins.

FÍ Rannsóknarfjelag velur sínar gönguferðir með tilliti til sögu, náttúruminja og áhugaverðra atburða sem kunna að hafa gerst á þeim slóðum sem gengið er um. Algengt er að hópurinn hittist á tilteknum stað kl. 9 að morgni og gangi síðan saman í 4-5 klst. með tíðum stoppum til þess að fjalla um áhugaverða staði á leiðinni.

Hópurinn var settur á laggirnar til þess að skapa vettvang fyrir þá sem eru vanir útivist og hafa stundað hana lengi. Hugsanlega eru þátttakendur búnir að fara á mörg fjöll og ganga þekktar leiðir um land allt. Með FÍ Rannsóknarfjelagi gefst þeim kostur á að njóta útivistar og samfélags við fólk með svipuð áhugamál sem vill takast á við léttari verkefni en áður en halda samt í aðra kosti útiverunnar.

Þátttakendur komu með kökur og settu upp hlaðborð á skottloki …
Þátttakendur komu með kökur og settu upp hlaðborð á skottloki eftir göngu.

Dæmi um gönguferð

Svo dæmi sé tekið þá gekk hópurinn á dögunum frá Kálfatjarnarkirkju á Vatnsleysuströnd meðfram sjó inn í Flekkuvík. Þar bar margt á góma, bæði forna kirkjubrú á Kálfatjörn, fornan vatnsstein við kirkjudyr og fleira. Í Flekkuvík var farið að fornum brunnum og rúnasteinninn á leiði Flekku landnámskonu skoðaður. Síðan var skundað yfir heiðina að hinni tignarlegu Staðarborg áður en haldið var ofan að Kálfatjörn að nýju.

Með því að nálgast verkefni sín með þessum hætti reyna umsjónarmenn að fletta efsta laginu ofan af þeirri sögu sem oft sefur undir sverðinum. Fornleifar eða minjar um búsetu manna eru ekki alltaf sýnilegar á Íslandi og stundum alls ekki. Oft á tíðum er aðeins tóftarbrot, einn veggur, húsgrunnur eða vegarspotti sem ber vitni lífinu sem lifað hefur verið í landinu. Þannig getur land sem við fyrstu sýn virðist ósnortið eða lítt snortið af verkum mannanna í raun búið yfir ríkri sögu um áræði, þrótt og velgengni eða brostna drauma, ófarir og slys.

„Við sjáum það sem okkar verkefni að opna sögurnar sem leynast í landinu fyrir þátttakendum og ferðafélögum okkar,“ segir Rósa Sigrún Jónsdóttir, sem annast FÍ Rannsóknarfjelag ásamt Páli Ásgeiri eiginmanni sínum.

Samhliða þessu er lögð áhersla á að skyggnast eftir þeim einkennum í náttúrufari, gróðri, jarðfræði og dýralífi sem einkenna þær slóðir sem gengið er um.

Ljóðalestur í nestisstoppi

Eitt af því sem gefur útivist og gönguferðum aukið gildi er félagsskapurinn. Sameiginleg áhugamál opna dyr milli fólks og á rólegum gönguferðum gefst tími til þess að spjalla við ferðafélaga sína og kynnast þeim betur. Í ferðum með FÍ Rannsóknarfjelagi er gefinn gaumur að þessu og gönguhraði lagaður að þörfum hópsins. Nesti er nauðsynlegt og má segja að það sé viss helgistund í öllum gönguferðum þegar hópurinn kemur sér þægilega fyrir í góðu skjóli og opnar nestisboxið og hitabrúsann. Þegar veður leyfir kemur fyrir að leiðsögumenn draga úr pússi sínu viðeigandi ítarefni og lesa upphátt fyrir þátttakendur. Þetta getur verið sögubrot eða ljóð eða hvað sem tengir gönguslóðina við söguna. Þannig fór vel á því í nestisstoppi í Flekkuvík á Vatnsleysuströnd að lesa kvæði Arnar Arnarssonar um Stjána bláa því rétt undan ströndinni, við Keilisnes, sást síðast til þess fræga sægarps.

Við styttu af Guðmundi Magnússyni, húsverði í fyrsta skátaskála Íslands. …
Við styttu af Guðmundi Magnússyni, húsverði í fyrsta skátaskála Íslands. Gamli skálinn er nú varðveittur á Árbæjarsafni.

Kökur á skottloki

Sérstök hátíðarútgáfa af nestisstund er það sem kallað er: Kökur á skottloki. Þá koma allir með eitthvað sérstaklega gott með kaffinu og að lokinni göngu er efnt til hlaðborðs á skottloki einnar bifreiðar þátttakenda.

Að sögn umsjónarmanna, þeirra Páls Ásgeirs og Rósu Sigrúnar, eru margar áhugaverðar söguslóðir í nágrenni Reykjavíkur og hafa sumar þeirra verið lítt kannaðar eða nýttar af gönguhópum. Sumar sögur tilheyra fornri tíð og teygja sig langt aftur í myrkar miðaldir en miklu nær okkur í tíma eru sögur af amstri mannanna innan núverandi marka borgarlandsins og má þá einu gilda hvort það eru hernám Íslands, saga kartöfluræktar í borgarlandinu, mjólkurframleiðsla í Reykjavík eða hellar útilegumanna í Elliðaárdal. FÍ Rannsóknarfjelagi er ekkert óviðkomandi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert