„Hvarflaði aldrei að mér að við myndum ekki toppa“

Skjótt skipast veður í lofti í fjallgöngum eins og Berglind …
Skjótt skipast veður í lofti í fjallgöngum eins og Berglind Hreiðarsdóttir fékk að finna fyrir síðasta vor. Ljósmynd/Berglind Hreiðardóttir

Berg­lind Hreiðars­dótt­ir, mat­ar- og æv­in­týra­blogg­ari á Gotte­rí og ger­sem­ar, ætlar að gera aðra tilraun til þess að komast á topp Hvannadalshnjúks í vor. Hún komst ekki á toppinn í fyrra vegna veðurs en lærði margt á undirbúningum sem mun nýtast henni í ár og gæti nýst öðrum fjallagörpum. 

„Við náðum ekki að toppa þetta skiptið þar sem veðrið snérist hratt til verri vegar þegar við nálguðumst toppinn svo okkar tími fyrir toppinn kemur síðar! Við komumst í 1700 metra hæð og þessi dagur var algjört ævintýri þó að við hefðum ekki komist alla þá leið sem við ætluðum okkur,“ skrifar Berglind í pistli á síðunni sinni. 

„Ganga á hæsta tind Íslands krefst undirbúnings, bæði líkamlega, andlega og búnaðarlega séð. Við hjónin vorum á námskeiði í vetrarferðamennsku hjá Fjallhalla Adventurers síðan um áramót svo við vorum komin í fínasta vetrarfjallaform. Við vorum því ekki sérstaklega kvíðin því að ganga á Hnúkinn líkamlega séð, meira að spá í það hvort veðrið myndi haga sér og stilla andlegu hliðina inn á þrautseigju í bland við gleði. Við erum frekar nægjusöm þegar það kemur að búnaði en fyrir þessa ferð þurftum við aðeins að „step up our game“ þar sem þetta er jú á bilinu 12-15 klukkustunda ganga og veðrið gæti tekið á sig ýmsar myndir.“

Berglind hugsaði um fegurðina þegar þarna var komið við sögu.
Berglind hugsaði um fegurðina þegar þarna var komið við sögu. Ljósmynd/Berglind Hreiðardóttir

Góðir bakpokar skiptu miklu máli í ferðinni. „Við vorum bæði sammála um að þetta væri góð fjárfesting og fundum mikinn mun á því að ganga með almennilega poka, þunginn hvílir á mjöðmunum en ekki á öxlum og baki eins og áður,“ skrifar Berglind. 

Göngufólkið var í öruggum höndum.
Göngufólkið var í öruggum höndum. Ljósmynd/Berglind Hreiðardóttir

„Veðrið getur breyst hratt á fjöllum og jöklum svo það er mikilvægt að vera vel búinn og í góðum fatnaði. Það var fallegt veður þegar við lögðum af stað og var ég lengst af aðeins í þremur lögum, ullarbol, flíspeysu og primaloft-jakka. Þegar veðrið versnaði fór ég í skelina og í stoppum og að hluta til á niðurleiðinni var ég í léttri, stórri dúnúlpu sem ég fékk lánaða hjá Erlu vinkonu minni, svo mér varð aldrei kalt. Ullarsokkar, góðir gönguskór, stafir, vatnsheldar göngubuxur, lambhúshetta, dúnlúffur sem og þunnir vettlingar, húfa, eyrnaband, skíðagleraugu, jöklasólgleraugu og alls konar annað var einnig nýtt í bland og var að hluta til bara í bakpokanum á leiðinni, svo klæddi maður sig í og úr eftir því hvernig manni leið,“ segir Berglind. 

Fyrstu skrefin við Sandfell.
Fyrstu skrefin við Sandfell. Ljósmynd/Berglind Hreiðardóttir

Gangan hófst klukkan hálffimm um morgun en endaði ekki eins og hópurinn vonaðist til. Þegar þau tóku fyrstu skrefin við Sandfell um morguninn sáu þau fallegan dag fyrir sér en skjótt skipast veður í lofti eins og Berglind lýsir. 

„Í um 1500 metra hæð fór veðrið að snúa sér en tekin var ákvörðun um að halda áfram með samþykki allra í hópnum þar sem við vonuðumst til þess að veðrið myndi ganga niður. Þegar við síðan náðum 1700 metra hæð byrjuðum við að mæta öðrum hópum á niðurleið. Þá var víst orðið ansi snjóblint, hvasst og kalt ofar. Snjóbrú yfir stóra sprungu hafði gefið sig og þunnt lag af snjó búið að skafa yfir margar sprungur svo erfitt var að sjá þær. Það var því ekki öruggt að ganga lengra og öllum hópum snúið við, líklega um 100 manns í heildina. Hóparnir voru komnir mislangt en enginn náði upp á topp þennan daginn og skilst mér að það séu alveg um 30% líkur á því að ekki sé hægt að toppa þar sem skjótt skipast veður og því gott að hafa það bakvið eyrað þegar lagt er af stað í göngu sem þessa.“

Snjórinn tók við.
Snjórinn tók við. Ljósmynd/Berglind Hreiðardóttir
Nestispása.
Nestispása. Ljósmynd/Berglind Hreiðardóttir

„Það hvarflaði aldrei að mér að við myndum ekki toppa Hnúkinn þennan dag, bara alls ekki. Veðrið var svo undursamlegt að ég þakkaði fyrir það í hverju skrefi á uppleiðinni og var farin að sjá fyrir mér sólskinsbros á toppnum sjálfum. Þau voru því ansi þung skrefin á niðurleið og ég veit ekki hversu oft ég leit tilbaka og hugsaði: „Er þetta ekkert að lagast, ætlum við ekkert að snúa við.“ Sem betur fer þá eru þaulvanir leiðsögumenn sem stýra svona ferðum og þeir hafa að sjálfsögðu öryggi þátttakanda í fyrirrúmi svo ákvarðanir sem þessar þarf að virða og skilja.“

Veðrið fór versnandi.
Veðrið fór versnandi. Ljósmynd/Berglind Hreiðardóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert