Krafðist þess að fara til Indlands

Will Smith og Jada Pinkett Smith eru nú í Mumbai …
Will Smith og Jada Pinkett Smith eru nú í Mumbai á Indlandi. AFP

Stjörnuhjónin Will Smith og Jada Pinkett Smith sáust í Mumbai á Indlandi á laugardag. Hjónin virtust í góðu skapi og tóku myndir af sér með aðdáendum í borginni.

Ekki var útséð hvort hjónin myndu fara í fyrirhugaða ferð sína vegna skandalsins á Óskarsverðlaunahátíðinni en Pinkett Smith er sögð hafa krafist þess að fara í ferðina.

Smith olli miklu uppþoti á verðlaunahátíðinni hinn 27. mars síðastliðinn þegar hann sló grínistann Chris Rock uppi á sviði, eftir að hann sagði brandara um eiginkonu hans. Smith hefur látið lítið fyrir sér fara í sviðsljósinu undanfarnar vikur en það hefur eiginkona hans ekki gert. 

Pinkett Smith fór af stað með nýja seríu af Red Table Talk í síðustu viku og virðist ekki vilja láta Óskarsskandalinn elta þau.

„Þau höfðu talað um að aflýsa ferðinni, en Jada krafðist þess að þau myndu fara,“ sagði heimildamaður Us Weekly um ferðina. Hann sagði að ferðin hafi verið bókuð fyrir all nokkru síðan. 

Hjónin dvelja á JW Marriott Hotel Juhu í Mumbai að sögn Hindustan Times, en það er 5 stjörnu hótel sem býður upp á allt það besta.

mbl.is