Paradís í bakgarði höfuðborgarsvæðisins

Fjallahjólreiðar hafa sprungið út á síðustu árum. Fjöldi landsmanna sækir …
Fjallahjólreiðar hafa sprungið út á síðustu árum. Fjöldi landsmanna sækir í þessa iðju en hún er ekki síður að verða vinsæl á meðal þeirra fjölmörgu ferðamanna sem hingað koma í leit að ævintýrum. Ljósmynd/Iceland activities

Svæðið upp af Hveragerði, Hengillinn og Nesjavallasvæðið, hefur um árabil verið nokkuð vinsælt meðal fjallahjólafólks hér á landi, auk þess sem ferðaþjónustusvæði hafa nýtt sér það með góðum árangri. Líklegt er að vinsældir svæðisins muni aukast enn frekar á næstunni með auknum áhuga landsmanna sem og ferðamanna á fjallahjólreiðum og fjölgun rafmagnsfjallahjóla. Tvö hjólaferðaþjónustufyrirtæki horfa sérstaklega til þessa svæðis með það fyrir augum að mæta þessum aukna áhuga. Þá á að vinna betur að því að bæta stíga á svæðinu og gera það aðgengilegra fyrir fjölbreyttari hóp hjólara. „Hengillinn er falin paradís sem er að uppgötvast,“ segir einn forsvarsmaður fjölskyldufyrirtækis sem hefur farið í ferðir um svæðið í tólf ár.

Fjölskyldufyrirtækið Iceland activities hefur gert út frá Hveragerði í um tólf ár, bæði með fjallahjólaferðir sem og gönguferðir og jafnvel brimbrettaferðir. Úlfar Andrésson er einn af stofnendum þess ásamt foreldrum sínum og systur. Hann segir fólk vera að átta sig á því hversu öflugt fjallahjólasvæði þetta sé og möguleikana sem það hafi upp á að bjóða, ekki síst þegar horft sé til nálægðar þess við höfuðborgarsvæðið. Magne Kvam hefur ásamt fjölskyldu sinni rekið fyrirtækið Icebike adventures einnig í tólf ár, en upphaflega horfðu þau aðallega á lengri ferðir um hálendið. Þau hafa þó í auknum mæli einnig boðið upp á styttri ferðir og í fyrra prófuðu þau að hafa bækistöð í Hveragerði og gera þaðan út fyrir svæðið ofan bæjarins. Magne segir að það stefni í brjálað sumar og að unnið sé að því að bæta leiðir og skapa miðstöð fyrir fjallahjólafólk í Hveragerði.

Bókanir eru byrjaðar að streyma inn á ný eftir faraldurinn …
Bókanir eru byrjaðar að streyma inn á ný eftir faraldurinn og ferðaþjónustufyritæki búa sig undir gott sumar Ljósmynd/Iceland activities

Mikil breyting síðustu ár

Magne segir að síðustu fimm ár hafi nokkur breyting orðið á fjallahjólaferðamennsku. Í fyrsta lagi hafi mun fleiri áhuga á þessari tegund ferðamennsku en áður sem þýði að hópurinn sé mun breiðari en áður. Áður hafi þeir sem sóttu í fjallahjólaferðir mest verið fólk sem kom hingað næstum eingöngu í þeim tilgangi að hjóla, en í dag sé meira um fólk sem horfi á hjólaferðina, hvort sem það er dagsferð eða nokkurra daga ferð, sem hluta af stærra ferðalagi. Að sögn Magne hefur þessi breyting að hluta komið til þar sem fólk getur nú farið í ferðir á rafmagnsfjallahjólum. Ein birtingarmynd þessa er að hans sögn að í dag komi ferðamenn mun víðar að, en viðskiptavinirnir hafi áður flestir komið frá Bandaríkjunum. Evrópa hafi mikið sótt í sig veðrið að undanförnu.

Önnur stór breyting er samsetning þeirra sem sækja í fjallahjólaferðir. „Fyrir covid var ég með einn íslenskan kúnna í 10 ár, en eftir covid hefur það breyst mikið,“ segir Magne og bætir við að í dag sé þetta orðið vinsælt hjá vinahópum og fyrirtækjahópum. Þannig vísar hann meðal annars til þess að í vikunni hafi hann fengið til sín um 10 manna æskuvinahóp sem vildi gera eitthvað skemmtilegt saman. Segir hann að rafmagnshjólin hafi einmitt breytt miklu þarna, því að sjaldnast séu allir í slíkum hópum á sama getustigi, en með rafmagnshjólum sé bara aðeins meiri kraftur settur á hjá þeim sem séu í versta hjólaforminu á meðan þeir öflugustu séu látnir púla aðeins meira.

Magne segir víðáttu og óskert útsýni það sem erlendir ferðamenn …
Magne segir víðáttu og óskert útsýni það sem erlendir ferðamenn séu hvað hrifnastir af við fjallahjólaferðir á Íslandi. Ljósmynd/Iceland activities

Hveragerði verði fjallahjólamiðstöð

Hann segir að fyrirtækið ætli sér í ár að fara alla leið með dagsferðahugmyndina og vera með hálfgerða miðstöð við Hveragerði. Segir hann að hugmyndin þar sé að fólk geti í raun mætt á staðinn og hoppað í ferð flesta daga. Hann segir að þau hafi horft til Hveragerðis og svæðisins þar upp af þar sem margt áhugavert sé að skoða á svæðinu og svo sé gríðarlegur fjöldi stíga og slóða um allt svæðið.

Þannig segir Magne að vinna sé í gangi með Orkuveitunni um að tengja betur Ölfusdali (Gufudal og Reykjadal) við Hengilssvæðið og Nesjavallasvæðið betur saman. Hann segir að það feli ekki í sér að gera neina nýja stíga, heldur að laga núverandi leiðir, meðal annars með því að grjóthreinsa þær og laga þær til á vissum svæðum þar sem þær erfiðar yfirferðar. „Markmið sumarsins er að ná að klára þetta. Merkja líka betur og kortleggja,“ segir Magne. Hann tekur sérstaklega fram að þó farið sé í svona verkefni þá séu allir stígar opnir almenningi og hvetur hann almenning til að drífa sig af stað í sumar, hjóla um svæðið og enda í Hveragerði í sundi, á kaffihúsi, úti að borða eða jafnvel gista í bænum. Þannig sé hægt að gera þetta að helgarupplifun fyrir vini eða fjölskyldur.

Unnið er að umbótum á stígum á svæðinu auk kortlagningar …
Unnið er að umbótum á stígum á svæðinu auk kortlagningar þeirra Ljósmynd/Iceland activities

Fór ungur með foreldrunum í ferðir

Í samtali við Hjólablaðið rifjar Úlfar upp upphaf þess að fjölskyldan leiddist út í hjólaferðamennskuna. Hann segir að þegar hann hafi verið um þriggja ára hafi foreldrar hans byrjað að fara í fjallahjólaferðir um Hengilssvæðið og einnig á Reykjanesi. Þetta hafi fjölskyldan stundað í mörg ár og alltaf skoðað nýja staði. Oft hafi verið um að ræða ferðir sem í dag er auðveldlega hægt að fara sem dagsferð, en þau fóru yfir kannski 3-4 daga með allan búnað með sér. Rifjar hann upp að oft hafi foreldrar hans þurft að bera hjól þeirra systkina upp bröttustu brekkurnar.

„Þessar ferðir erum við í dag að útfæra fyrir ferðamenn,“ segir hann og hlær. Hann segir að á þessum rúmlega áratug hafi mikil þróun verið í fjallahjólum og á sama tíma hafi áhuginn á þeim sprungið út, bæði hjá landsmönnum og ferðamönnum. Bendir hann á að í upphafi hafi fyrirtækið verið með kannski eina ferð í viku, en í dag séu daglegar ferðir og oftast hver leiðsögumaður með eina ferð. Fyrirtækið er líka að taka skref í átt að rafvæðingu flotans og segir Úlfar að áhugi á slíkum ferðum sjáist þegar í bókunum fyrir sumarið.

Spáir vitundarvakningu um gæði svæðisins á næstunni

Hann segir heimavöll fyrirtækisins vera Hengilssvæðið og að þar séu gríðarlega margar og skemmtilegar leiðir fyrir fjallahjólara. „Hengillinn er falin paradís sem er að uppgötvast,“ segir Úlfar og bætir við að stundum þurfi ekki að fara langt yfir skammt fyrir þá sem séu að leita sér að nýjum og skemmtilegum leiðum. „Ég held að þetta eigi eftir að verða mjög vinsæll staður fyrir fjallahjólafólk á komandi árum þar sem aðalkosturinn er hversu nálægt þetta er höfuðborginni.“ Segir hann kokhraustur að svæðið sé í heild sinni alls ekki síðra en Landmannalaugasvæðið fyrir fjallahjólara og að bæði svæði búi yfir ótrúlegri náttúru og t.d. jarðhita. „Það verður vitundarvakning á næstunni hvað menn hafa hér í næsta nágrenni,“ segir Úlfar.

Sjálfur er hann duglegur að fara um svæðið og hefur meðal annars gert heimagerðan fulldempaðan vagn sem hann dregur börnin sín í, en það yngra er aðeins nokkurra mánaða gamalt. Börnin fá því reynsluna frá fjölskyldurekstrinum beint í æð strax og viðurkennir Úlfar hlæjandi að þetta sé nú reyndar aðeins fyrr en hann kynntist fjallahjólamennskunni, en bætir við að búnaðurinn sé reyndar allt annar og betri í dag sem geri þetta mögulegt.

Ekkert út fyrir stíginn

Rétt er að taka fram að eins og með fjallaleiðir á Íslandi er ekki hægt að hjóla alla slóða á þessu svæði nema á ákveðnum tíma og segir Úlfar t.d. að enn sem komið er sé Hengillinn of blautur og jarðvegurinn of mjúkur til að hægt sé að hjóla um svæðið. Hann segist þó bíða spenntur eftir að hægt verði að fara af stað á fullu.

Magne tekur undir áhyggjur um að passa vel upp á landið og segir að það sé eitt af því sem fjallahjólasamfélagið og allir nýir í greininni þurfi að huga vel að. Segist hann t.d. hafa nokkrar áhyggjur af þeim mikla fjölda sem sé nú kominn nýr á rafmagnsfjallahjól en þekki kannski ekki aðra sem hafi reynsluna og viti að ekki megi hjóla utan stíga. „Við þurfum að passa okkur á að kynna okkur vel reglur um hvar má hjóla og hvar ekki. Og umfram allt, hjóla bara á stígum. Það hefur því miður aukist aðeins að fólk viti þetta ekki,“ segir Magne og bætir við að ef allir séu ekki með augun opin fyrir þessu bitni það á öllu samfélaginu.

Þessi grein birtist fyrst í Hjólablaði Morgunblaðsins sem kom út í dag. Þar má finna fjölmargar greinar, ferðasögur og umfjallanir um málefni sem tengjast hjólreiðum. Hægt er að nálgast blaðið í heild hér að neðan.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert